Aquafaba

Ég hef aldrei verið sérlega mikið fyrir marens, ekki heldur þegar ég hámaði í mig sykur eins og enginn væri morgundagurinn og ég yrði aldrei miðaldra og þyrfti aldrei að hafa áhyggjur af áunninni sykursýki og svoleiðis. Þannig að ég sakna marensterta og makróna og svoleiðis afskaplega lítið. Ég var samt að baka svoleiðis núna um helgina en það var bara í tilraunaskyni og hafði soninn til að smakka það sem ég bakaði í gær og læt kannski einhvern smakka á morgun það sem ég bakaði áðan – stakk reyndar upp í mig smábita sem brotnaði úr einni kökunni og það var ekkert að honum nema hann var allt allt alltof sætur (þetta gerist þegar maður hættir alveg að borða sykur, sætubragðið verður sterkara).

En ég þurfti nú samt endilega að prófa að baka marens og hann er alltsvo ekki sykurlaus – í grunninn er marens bara eggjahvítur, sykur og loft í ákveðnum hlutföllum. Og jújú, það er alveg hægt að baka eitthvað án sykurs og kalla það marens þótt ég sé ekki alveg sammála. Það er hins vegar ekki hægt að baka eitthvað án lofts og kalla marens. En það er hægt að baka eitthvað án eggja og kalla marens og það sem meira er: það ER marens. Hreina satt.

Ég var búin að ætla mér að prófa þetta um tíma en það hefur dregist af því að ég er semsagt ekkert fyrir marens. En svo féll til hjá mér ákveðið hráefni um helgina og ég ákvað að láta nú verða af þessu. Og jújú, þetta svínvirkaði, sveimér þá. Svo að hér er uppskrift að eggjalausum marenskökum.

_MG_2183

Ég ætla ekki að upplýsa alveg strax hvað það var sem féll til hjá mér og nýtist í staðinn fyrir eggjahvítur en það var þessi vökvi. 100 ml (1 dl) sem ég setti í hrærivélarskálina.

_MG_2184

Og setti hrærivélina af stað á mesta hraða og viti menn, þetta fór að þeytast bara alveg eins og eggjahvítur.

_MG_2189

Svo að ég þeytti áfram þar til þetta var orðið nokkuð stíft.

_MG_2194

Svo vigtaði ég 150 g af sykri og þeytti saman við smátt og smátt. Ég gerði þetta reyndar tvisvar, í fyrra skiptið átti ég ekki alveg nógan sykur (enda er hann ekki mikið notaður hér á bæ), ekki einu sinni þótt ég bætti við öllum þeim litla púðursykri sem ég átti, og marenskökurnar féllu. Svo að ég keypti strásykur til að geta endurtekið tilraunina.

_MG_2201

Þetta þeyttist bara alveg nákvæmlega eins og marens en tók kannski aðeins lengri tíma, ekkert svo mjög samt.

_MG_2204

Þetta er úr fyrri tilrauninni og þá notaði ég stjörnustút þegar ég sprautaði kökunum á bökunarpappírinn. Fann hann ekki þegar ég var að gera þetta áðan svo að ég sprautaði dúllurnar bara beint án þess að nota stút. Það þarf að vera svolítið bil á milli þeirra en það komust samt alveg 25-30 kökur á plötuna.

_MG_2592

Ég bakaði svo kökurnar í 100°C heitum ofni (í miðjum ofninum) í 1 1/2 klst. Slökkti þá á ofninum og lét kökurnar bíða í allavega hálftíma í viðbót.

_MG_2595

Sko bara, þetta er alvörumarens. Það er ekki eggjahvíta í honum en það er vökvi sem inniheldur prótein og verkar í þessu tilviki alveg eins og eggjahvíta.

Og hvaða vökvi er þetta þá?

Lögur úr kjúklingabaunadós. Þið vitið, þetta pínulítið muskulega sull sem maður hendir venjulega … En trúið mér, það er ekkert kjúklingabaunabragð af marensinum. Svínvirkar. Marenbotnar – þið finnið út úr því ef þið hafið áhuga, ég er komin með nóg af marensbakstri í bili. En það er örugglega hægt líka.

*

Eggjalaus marens

100 ml lögur af niðursoðnum kjúklingabaunum

150 g strásykur

Smákökur bakaðar við 100°C í 1 1/2 klst.

4 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s