Sjálfsagt eru fjöldamargir dugnaðarforkar þarna úti sem eru löngu búnir með allan jólabakstur. Kláruðu hann jafnvel í vor, hvað veit ég. Ég er ekki í þeim hópi, baka reyndar lítið fyrir jólin nú orðið og dreg jólabaksturinn sífellt lengra fram eftir jólaföstu – mig minnir að í fyrra hafi ég byrjað að baka til jólanna 19. desember, lokið því 20. desember, borið bakkelsið á borð í Forláksmessuboðinu 21. desember og þegar ég fór úr landi 22. desember var allt búið – eða ég gaf það litla sem eftir var. Ætli það verði ekki svipað í ár?
En reyndar hafði ég bakað dálítið af jólabakkelsi í október og nóvember en það var vegna myndatöku fyrir þætti sem ég var með í MAN og þær kökur voru svo kláraðar samstundis af fjölskyldu og vinnufélögum, allavega ekki treindar til jólanna. Ég hef reyndar alltaf verið þeirrar skoðunar að jólasmákökur séu til að borða á jólaföstunni og helst að vera búnar fyrir jól.
Í fyrra bakaði ég til dæmis biscotti, sem er reyndar ekki kannski jólasmákökur en þetta var fyrir þátt um ætar jólagjafir sem ég gerði. Biscotti eða ítalskar tvíbökur er einmitt alveg upplagt til jólagjafa, þær geymast vel og það er auðvelt að pakka þeim inn á skrautlegan hátt.
Hér er uppskrift að grunndeigi sem nota má í ýmiss konar biscotti, ásamt tveimur tilbrigðum.
Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 180°C. Þeytt1 svo 2 egg og 140 g af sykri mjög vel saman, þar til blandan myndaði þykka tauma þegar þeytaranum var lyft. Svo blandaði ég saman 250 g af hveiti og 1 tsk af lyftidufti, sigtaði það yfir eggjahræruna og hrærði saman, en bara rétt eins og þurfti til að blanda vel. Þá er grunndeigið komið. Ég skipti því í tvennt af því að ég ætlaði að gera tvenns konar biscotti og setti helminginn í aðra skál.
Ég hrærði 1 tsk af vanilluessens saman við helminginn af deiginu. Grófsaxaði svo 60 g af pistasíuhnetum og blandaði þeim saman við ásamt 60 g af þurrkuðum trönuberjum.
Ég reif börkinn af einni appelsínu fínt yfir hinn helminginn af deiginu og blandaði saman við ásamt 60 g af súkkulaðidropum og 60 g af grófsöxuðum möndlum. Ég bætti hveiti við báða deigskammtana eftir þörfum en deigið á að vera lint og klessast svolítið við hendurnar.
Ég rúllaði deiginu upp í tvær lengjur.
Ég mótaði hvorn hluta um sig með hveitistráðum höndum í lengju, um 35 cm langa og um 5 cm breiða. Setti þær á pappírsklædda bökunarplötu …
… og bakaði þær á næstefstu rim í 20-25 mínútur, eða þar til þær voru orðnar ljósbrúnar. Þá tók ég þær út og lækkaði ofnhitann í 150°C.
Ég lét lengjurnar kólna í um 5 mínútur en renndi þeim svo yfir á bretti og skar þær gætilega á ská í um 1-1 1/2 cm þykkar sneiðar.
Ég raðaði sneiðunum aftur á plötuna en lét skurðflötinn snúa niður. Þær mega liggja mjög þétt. Setti þær svo aftur í ofninn og bakaði í um 8 mínútur. Lét þær svo kólna á grind.
Svo má búa um tvíbökurnar á skemmtilegan hátt ef á að gefa þær. Það getur verið flott að hafa þær bara í sellófani en hér setti ég þær upp á endann í litlar fötur og setti svo sellófan utan um og batt það saman með borða. Kökurnar geymast mjög vel og þola ýmislegt hnjask.
Tvenns konar biscotti
um 30 tvíbökur (15+15)
Grunndeig:
2 egg
140 g sykur
250 g hveiti, eða eftir þörfum
1 tsk lyftiduft
*
Í pistasíu- og trönuberjatvíbökurnar:
1 tsk vanilluessens/-dropar
60 g pistasíuhnetur
60 g þurrkuð trönuber
*
Í súkkulaði- og möndlutvíbökurnar:
fínrifinn börkur af 1 appelsinu
60 g súkkulaðidropar
60 g möndlur
*
180°C í 20-25 mínútur, svo 150°C í um 8 mínútur.