Fiskidagur

Ég fór á jólamatarmarkaðinn í Hörpu í dag. Smakkaði ýmislegt gott og sá eitt og annað girnilegt sem ég smakkaði þó ekki – oftast vegna þess að það innihélt sykur – en það var nú nóg af sykurlausu á boðstólum líka. Spjallaði líka við ýmsa framleiðendur, það er gaman að sjá hvað eru margir smáframleiðendur sem eru að gera skemmtilega hluti af miklum áhuga og eldmóði.

Ég keypti nú engin ósköp samt, enda er ég að reyna að minnka aðeins birgðirnar í frystinum (held að mataröryggið sé nú alveg í lagi þótt ég geri það) og áttaði mig á þegar é kom heim að það sem ég hafði keypt var allt fiskakyns. Og reyndar allt reykt líka. Reyktur makríll, reykt þorskhrogn og reykt þorskalifur. Það var samt bara tilviljun. Svo for ég í Kolaportið og var nærri búin að kaupa síld þar en fannst það svo fullsnemmt, svona uppá jólin.

Þannig að ég var öll í fiskmetinu núna. Og svo fór ég heim (með viðkomu á bókamessu í Ráðhusinu, og vel á minnst, þar verð ég á morgun eftir kl. 2 með eitthvert smakk úr bókinni minni, Sætmeti án sykurs og sætuefna) og eldaði meiri fisk, það er að segja lúðusneið sem ég átti til.

Ég elda nú ekki oft lúðu nú til dags, allavega miðað við hvað ég er mikið fyrir fisk – held að þetta sé fyrsta lúðuuppskriftin hér á blogginu – en gerði það oft hér fyrir eina tíð. Þá var lúða auðfengnari, ódýrari og uppáhaldsfiskur dótturinnar. En einhverntíma um sex ára aldurinn missti hún gjörsamlega lystina á lúðu og hefur strækað á að borða hana síðan, nema þegar hún er elduð af René Redzepi og svoleiðis meistarakokkum. Ég fell ekki í þann flokk svo að lúða datt út af matseðli heimilisins og komst eiginlega aldrei alminlega inn á hann aftur.

En allavega, ég keypti tvær litlar lúðusneiðar og hef haft lúðu í matinn núna tvo daga í röð. Hún var ágæt þótt ég sé enginn René Redzepi. Og hér er önnur uppskriftin.

_MG_2888

Ég notaði semsagt lúðusneið sem líklega var í kringum 300 grömm, smábita af litlum blaðlauk, 5 grænar og 5 svartar ólífur, nokkra kirsiberjatómata, eina límónu, 1 tsk af kapers, 1 msk af ólífuolíu og 1 af smjöri, klípu af óreganói, pipar og salt.

_MG_2889

Ég kveikti á ofninum og hitaði hann í 225°C. Svo bræddi ég smjörið á pönnu, kryddaði lúðuna aðeins og brúnaði hana á roðhliðunum í svona 1 1/2 mínútu á hvorri hlið við ríflega meðalhita – bara til að fá roðið aðeins stökkt.

_MG_2891

Ég skar ólífurnar, blaðlaukinn og tómatana smátt og grófsaxaði kapersinn (fer eftir stærð kapersknúppanna samt, óþarft ef þeir eru litlir) og blandaði þessu saman í skál, ásamt olíunni, safanum úr límónunni, óreganói, pipar og salti.

_MG_2893

Lúðan átti svo að fara í ofninn og ég hafði eiginlega ætlað að hafa hana bara áfram á pönnunni og setja hana í ofninn en í hugsunarleysi hafði ég kveikt á minni (mjórri) ofninum á eldavélinni og þótt pannan sé ekki stór kemst hún ekki inn í hann svo vel fari. Svo að ég tók lítið, eldfast mót (gott að hita það dálítið í ofninum) klæddi það innan með bökunarpappír (geri það stundum til að auðvelda þrif) og setti lúðusneiðina í það. Hellti smjörinu af pönnunni yfir.

_MG_2895

Svo dreifði ég grænmetisblöndunni jafnt yfir, setti þetta í ofninn og bakaði í 12 mínútur, eða eftir þykktinni á stykkinu.

_MG_2898

Svo stráði ég nokkrum kóríanderlaufum yfir og bar þetta fram með grænu salati.

_MG_2942

Þetta var fullmikið fyrir mig eina svo að það er afgangur sem ég geri sjálfsagt eitthvað úr á morgun. Ef sneiðin hefði verið aðeins stærri hefði þetta alveg verið skammtur fyrir tvo.

Ofnbökuð lúða með tómat- og ólífusalsa

1 lúðusneið, 250-400 g

1 msk smjör

1/4 tsk óreganó, þurrkað

pipar

salt

biti af blaðlauk (helst ljósgræni hlutinn)

5 grænar og 5 svartar ólífur (eða eftir smekk)

100 g kirsiberjatómatar

1 tsk kapers

safi úr 1 límónu

1 msk ólífuolía

e.t.v. kóríanderlauf

*

12 mínútur í ofni við 225°C.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s