Ég var á bókamessu í Ráðhúsinu í dag, aðallega að kynna Sætmeti án sykurs og sætuefna og var með smakk úr henni (valhnetu- og bananaköku og súkkulaði-lakkrískonfekt sem gerði mikla lukku, til dæmis hjá manninum sem sagði mér í óspurðum fréttum að allt sykurlaust sætmeti væri óætt og fékk sér svo fjóra mola).
En ég var líka með hinar litlu bækurnar mínar úr sömu seríu á borðinu seldi þónokkur eintök af Ömmumat Nönnu, sem kom út snemma á árinu (og er alveg tilvalin jólagjöf fyrir ungt fólk).
Þarna eru margar gömlu uppskriftirnar, eins og kjöt í karríi, kótelettur í raspi, plokkfiskur, makkarónusúpa og kleinur, en líka dálítið af nýrri uppskriftum sem eru samt orðnar klassískar, eins og rækjukokkteill og Tobleroneís. Og hér er uppskrift úr bókinni sem er einmitt af þessu tagi og gæti komið sér vel fyrir einhverja um hátíðarnar; nefnilega tómatlöguð humarsúpa. Nokkuð klassísk en samt ekkert svo óskaplega gömul í hettunni.
Ég byrjaði á að taka 500 g af súpuhumri. Tók humarinn úr skelinni, hreinsaði hann og fjarlægði görnina. Skar stærstu humrana í minni bita og setti humarinn svo í kæli.
Ég braut svo skeljarnar gróft. Hitaðu 1 msk af olíu í þykkbotna potti og brúnaði skeljabrotin við góðan hita (en gætti þess þó að þau færu ekki að brenna). Svo saxaði ég 1 lauk, 2 hvítlauksgeira, 2-3 gulrætur og 2-3 sellerístöngla, setti í pottinn og lét krauma með í nokkrar mínútur.
Ég hellti svo 400 ml af tómatmauki (passata eða bara maukuðum tómötum úr dós) saman við og kryddaði með pipar og salti.
Ég hellti svo 1,2 l af sjóðandi vatni út í, bætti við 2 tsk af fiskikrafti (eða eftir smekk) og lét malla í 20-30 mínútur.
Þá setti ég sigti yfir skál, hellti öllu saman í hana og notaði sleif til að pressa sem mest í gegn (eða pressa sem mest soð úr skeljunum og grænmetinu). Ég mældi svo soðið og bætti við svolitlu vatni svo að það varð 800 ml.
Þar með er soðið tilbúið (það má alveg gera það með góðum fyrirvara 0g geyma í kæli einhverja daga en humarinn mundi ég þó ekki geyma nema sólarhring í mesta lagi) og komið að súpunni sjálfri. Ég skolaði og þerraði pottinn, bræddi svo 2 msk af smjöri í honum og hrærði 2 msk af hveiti og 2 tsk af karrídufti saman við og lét krauma í 1 mínútu.
Ég hellti svo soðinu smátt og smátt út í og hrærði stöðugt á meðan. Síðan hrærði ég 250 ml af rjóma saman við og lét malla í 5-10 mínútur.
Á meðan bræddi ég ½ msk af smjöri á pönnu og steikti humarinn við meðalhita í 2-3 mínútur. Það má líka setja hann beint út í súpuna og láta hann sjóða með 2-3 seinustu mínúturnar en mér finnst hann betri svona). Ég smakkaði svo súpuna og bragðbætti með pipar og salti (og e.t.v. cayennepipar eða paprikudufti.
Svo setti ég humarinn út í, hellti súpunni í tarínu (það má líka ausa henni beint á diska) og bar hana fram með góðu brauði.
Svo má líka bragðbætta súpuna t.d. með hvítvíni, sérríi eða koníaki.
Tómatlöguð humarsúpa
500 g súpuhumar í skel
1 msk olía
1 laukur
2 hvítlauksgeirar
2-3 gulrætur
2-3 sellerístönglar
400 ml tómatmauk (passata)
pipar og salt
1,2 l vatn, sjóðandi
2 tsk fiskikraftur, eða eftir smekk
2½ msk smjör
2 msk hveiti
2 tsk karríduft
250 ml rjómi
e.t.v. cayennepipar eða paprikuduft