Nýársgæsin

Ég hef ekki eldað mikið að undanförnu þar sem ég var ekki á landinu um hátíðarnar; eina máltíðin sem ég matreiddi sjálf í útlandinu var kálfasteik sem ég eldaði mér á jóladag. Ég var semsagt á Norður-Ítalíu um jólin, fyrst í Trieste, þar sem ég borðaði á hipsteraveitingahúsi á aðfangadagskvöld og fékk í aðalrétt þrennu af villisvínakjöti, kengúrukjöti og zebrakjöti – alveg ágætt en mjög fjarri hefðbundnum jólamat, auðvitað.

Frá Trieste fór ég til Padúa og var þar tvær nætur; þar fékk ég meðal annars grænt ravioli með asnaragúi – asnakjöt hafði ég ekki bragðað áður og reyndar ekki zebrakjöt heldur. Og svo var ég seinast þrjár nætur í Feneyjum en þar fékk ég nú ekkert exótískara að borða en kanínu og kolkrabba. En afbragðsgóðan mat samt.

Ég ætlaði að vera komin heim upp úr kvöldmat á gamlárskvöld en vegna tafa á Gatwickflugvelli (það fundust ekki flugmenn til að fljúga vélinni) var ég ekki komin fyrr en upp úr miðnætti og gamlárskvöldsmaturinn minn var skinku- og ostasamloka í boði EasyJet. En það stóð nú svosem aldrei til að elda neitt þá. Ég var hins vegar búin að bjóða fjölskyldunni í mat á nýársdag svo að fyrsta verk mitt eftir heimkomuna (og fyrsta verkið á árinu 2017) var að fara niður í kjallara og sækja gæsina sem ég ætlaði að elda í frystiskápinn svo að hún yrði nú örugglega þiðnuð í tæka tíð.

_mg_2008

Ákvörðunin um gæsaeldun var tekin nokkru fyrir jól þegar við sonurinn sátum við sjónvarpið og sáum Jamie Oliver elda jólagæs. Hún var mjööög girnileg, það vorum við sammála um. Svo girnileg að ég fór daginn eftir og keypti pólska 4,2 kg gæs í Nettó. Hún var semsagt látin þiðna í vaskinum á nýársnótt og fram eftir degi og var tilbúin í ofninn um þrjúleytið. Þá tók ég pokann með innmatnum úr henni og skar innmatinn í bita (nema hálsinn hafði ég heilan). Þerraði haminn á gæsinni með eldhúspappír.

_mg_2018

Ég stakk beittum hnífsoddi í gæsina þar sem hún var feitust undir vængjunum, í fitu á bakinu og í gumpinn – þetta er til að fitan bráðni greiðar af henni. – Já, og á þessum tímapunkti kveikti ég á ofninum og stillti hann á 180°C.

_mg_2016

Ég studdist dálítið við uppskrift Jamies, sem hafði freistað okkar Hjalta svo mikið, en notaði t.d. allt aðra kryddblöndu. Ég blandaði saman 2 tsk af kóríanderdufti, 1 tsk af engiferdufti, 1/2 tsk af kanel, 1/4 tsk af negul, 1 tsk af pipar, 2 tsk af salti, söxuðum blöðum af 1-2 rósmaríngreinum og 2-3 timjangreinum (af því að ég átti þetta ferskt en það má líka nota þurrkaðar kryddjurtir).

_mg_2024

Ég stráði svona teskeið af þessu inn í gæsina. Svo tók ég hálfan lauk og skar niður og líka hálfa sítrónu og eina mandarínu. Setti þetta inn í gæsina ásamt einni eða tveimur rósmaríngreinum (má sleppa).

_mg_2033

Svo neri ég afganginum af kryddblöndunni vel inn í gæsina og setti hana á grind með bringuna upp.

_mg_2027

Skar svo niður einn og hálfan lauk, 2-3 gulrætur og 2-3 sellerístilka og setti í stórt, eldfast mót (eftir á að hyggja hefði ég átt að nota ofnskúffuna), setti meira rósmarín og timjna með og líka 2-3 lárviðarlauf (af því að ég rækta þau í gluggakistunni), setti svo innmatinn ofan á, kryddaði með pipar og salti og hellti svona 100 ml af vatni yfir. Setti þetta svo á grind neðst í ofninum og setti grindina með gæsinni yfir.

_mg_2065

Eftir svona einn og hálfan tíma var fatið orðið fullt af fitu sem bráðnað hafði af gæsinni og safa sem runnið hafði úr henni svo að ég tók það út, hellti mestöllum vökvanum í skál og lét fatið svo aftur undir gæsina og steikti áfram í – ja, klukkutíma og korter, eitthvað svoleiðis. Á meðan lét ég soðið í skálinni kólna og fleytti svo mestallri fitunni ofan af. (Þetta voru tvær fullar krukkur af gæsafeiti, það er nú ekki slæmt að eiga hana.)

Þá tók ég gæsina út, setti hana á fat, breiddi álpappír yfir og setti svo handklæði ofan á og hafði þetta á hlýjum stað til að halda gæsinni heitri. Mér leist reyndar ekki alveg á hana, fannst hún hafa skroppið ansi mikið saman og rýrnað, enda hafði mikið runnið úr henni, og ég hélt kannski að híun væri ofelduð og bölvaði Jamie …

_mg_2067

En ef svo væri var eina ráðið að hafa nóg af góðri sósu og ég hellti öllu í sigti sem ég setti yfir skálina með soðinu sem þegar var komið og lét renna vel af grænmetinu og innmatnum. Tíndi svo innmatarbitana frá og geymdi en henti grænmetinu. Seinna segi ég frá því hvað ég gerði við innmatinn.

_mg_2083

Ég setti soðið svo í pott, bætti við vænni skvettu af sætu sérríi eða púrtvíni (ég notaði Pedro Ximenes sérrí og það er best en púrtvín dugir alveg; má líka vera rauðvín, nú eða bara sleppa) og lét sjóða rösklega smástund. Bætti svo við hálfum líter af vatni eða svo og einni matskeið af kjúklingakrafti. Hristi saman hveiti og vatn og jafnaði sósuna (ekki hafa hana of þykka) og lét hana malla góða stund. Smakkaði og bragðbætti með pipar og salti eftir þörfum.

_mg_2078

Það var ekki tekin nein mynd af gæsinni á fati eða af diski með meðlæti (enda stóð ekki til að birta uppskriftina, ég var bara beðin um hana). En þarna er hún nýlega komin úr ofninum. Ég skar hana niður, setti á fat og bar þannig fram og það var ekki arða eftir (við vorum sjö en það fór nú enginn svangur frá borðinu, held ég).

Meðlætið réðist dálítið af því að ég var að koma heim eftir meira en viku fjarveru og allar búðir lokaðar; ég átti kartöflur (franskar ratte) sem ég forsauð og bakaði svo vel og lengi í gæsafeiti og hálfkramdi og gulrætur sem ég sauð í appelsínusafa, smjöri og kryddjurtum. Og svo hafði ég komið við í Marks & Spencer á Gatwick og keypt ferskar grænar baunir og salatblöndu. (Og double cream og hindber í eftirréttinn en það er önnur saga.)

Þetta var allt saman alveg hreint ágætt bara.

Steikt gæs

1 aligæs, 4-4,5 kg

1/2 laukur

1/2 sítróna

1 mandarína (eða 1/2 appelsína)

rósmaríngrein (má sleppa)

Kryddblanda:

2 tsk kóríanderduft

1 tsk engiferduft

1/2 tsk kanell

1/4 tsk negull

1 tsk pipar

2 tsk salt

rósmarín og/eða timjan eftir smekk

Soðið:

1 1/2 laukur

2-3 gulrætur

2-3 sellerístilkar

rósmarín/timjan/lárviðarlauf eftir behag

innmaturinn úr gæsinni

pipar og salt

100 ml vatn

Sósan:

 

soðið úr ofnskúffunni (mestallri fitu fleytt ofan af)

sætt sérrí, púrtvín eða rauðvín (má líka sleppa)

500 ml vatn

1 msk kjúklingakraftur

hveiti til þykkingar (auðvitað má nota sósujafnara)

pipar og salt eftir þörfum

One comment

Færðu inn athugasemd við Uppskrift fyrir örfáa – Konan sem kyndir ofninn sinn Hætta við svar

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s