Uppskrift fyrir örfáa

Hér er ein uppskrift sem ég var búin að lofa. Hún er ekki fyrir hvern sem er. Eiginlega bara fyrir sérvitringa. Eða nánar til tekið: fyrir fólk sem eldar aligæsir og svoleiðs og notar innmatinn til að gera soð fyrir sósuna en tímir svo ekki að henda honum. Enda ekki ástæða til. En þetta eru nú líklega frekar fáir …

Ég var samt í þessari aðstöðu núna fyrir nokkrum dögum því að ég eldaði gæs á nýársdag, eins og ég sagði frá. Fínasta gæs, það vantaði ekki. En innmaturinn úr henni hafði semsagt mallað í gæsasoði og -feiti í ofninum í eina tvo tima og þetta varð afbragðsgóð sósa. Ónefndur einstaklingur laumaðist í eldhúsið eftir matinn og borðað upp úr sósukönnunni með skeið. Sýndi þar með og sannaði að hann hefur ekkert breyst með aldrinum því ég á mynd af honum við sama athæfi fyrir nærri 30 árum.

Allavega, það kom kraftmikið og fínt soð af innmatnum (plús grænmeti og kryddjurtum) og ég átti svosem ekki von á að það væri neitt að gera við hann á eftir nema henda honum. En svo smakkaði ég bita og sá að það var nú ástæðulaust. Svo að ég tíndi bitana frá (nema ekki hálsinn af gæsinni, henti honum) pakkaði þeim

í plast og setti þá í ísskápinn.

_mg_2085

Svo tók ég þetta daginn eftir – þetta voru svona 350 g – og skar í minni bita.

_mg_2084

Ég saxaði einn lítinn lauk og einn hvítlauksgeira. Hitaði 2 msk af smjöri og 3-4 msk af gæsafeiti (en það má vera eintómt smjör) á lítilli pönnu og lét lauk og hvítlauk krauma dálitla stund ásamt timjangrein (eða 1/2 tsk af þurrkuðu timjani).

_mg_2088

Svo setti ég innmatinn á pönnuna og lét krauma 2-3 mínútur. Hellti svo 3 msk af madeira (eða púrtvíni) yfir og lét sjóða niður. Kryddaði með salti og nokkuð miklum pipar.

_mg_2094

Svo hellti ég öllu af pönnunni í matvinnsluvél (eða af því að þetta var svo lítið notaði ég hakkarann eða míní-matvinnsluvélina eða hvað á að kalla það sem tilheyrir töfrasprotanum mínum) og maukaði vel.

_mg_2095

Svo bætti ég við 60 g af rjómaosti og cayennepipar á hnífsoddi. Maukaði þetta vel saman við, smakkaði og bætti við ögn af pipar og salti.

_mg_2098

Og af því að mér fannst liturinn aðeins of grár þegar rjómaosturinn var kominn út í bætti ég við nokkrum dropum af sósulit … Ég setti kæfuna svo í skál og kældi hana. Hún geymist í 2-3 daga en það má líka frysta hana.

_mg_2110

Mér finnst þessi kæfa best á góðu ristuðu súrdeigsbrauði með ögn af súru og sætu – hér sykurlausri hindberjasultu og sýrðum smágúrkum. Þetta var afbragðsgott en þessa kæfu fær enginn nema ég … (hún er nefnilega búin).

*

Gæsakæfa

350 g innmatur úr gæs, eldaður

1 lítill laukur

1 hvítlauksgeiri

2 msk smjör

3-4 msk gæsafeiti

timjan

3 msk madeira eða púrtvín

pipar og salt

60 g rjómaostur

cayennepipar á hnífsoddi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s