Leitað í skápunum

Ég hef eiginlega ekki farið í kjörbúð í meira en hálfan mánuð – ekki hér á landi allavega – fór til útlanda um hátíðarnar og svo fór ég lasin heim úr vinnunni á mánudag og hef haldið mig heima síðan (en er nú að skríða saman) og ekkert komist í búð – ég kom að vísu við í 10-11 hér í Grímsbæ á heimleiðinni og keypti mjólk til að eiga í kaffið en maður verslar nú ekki þar nema í neyð. Svo að ég hef bara borðað það sem til er í skápunum síðan. Sem var ekkert sérlega mikið því ég losaði mig við eiginlega allar leifar eftir Forláksmessuboðið áður en ég fór út.

En í dag langaði mig í brauð. Jújú, það er ágætis bakarí í Grímsbæ og ég hefði nú komist þangað svosem en ég ákvað að baka frekar. Var með ákveðnar hugmyndir um hvernig brauð ég ætlaði að baka, jújú. En þegar ég ætlaði að byrja baksturinn var ýmislegt ekki til sem ég hafði ætlað að nota svo að brauðið varð töluvert öðruvísi en til stóð. En bara býsna gott.

Þetta er gróft brauð með fræjum, hnetum og ávöxtum, einfalt (bara einlyft) og frekar fljótlegt.

_mg_2122

Ég er nýbúin að eignast þennan hraðsuðuketil, sem mér finnst mjög þægilegur, bæði af því að ég vil hafa hitann á vatninu 90°C en ekki 100°C þegar ég helli upp á kaffi og ekki síður af því að hann er með 40°C stillingu, sem er mjög hentug þegar maður er að hita vatn t.d. fyrir brauðbakstur. Svo að ég hitaði 350 ml af vatni í 40°C og hellti svo í hrærivélarskálina og stráði 1 msk af þurrgeri yfir. Lét standa í nokkrar mínútur.

_mg_2123

Ég ætlaði að nota rúgmjöl og heilhveiti til helminga en átti ekki nema 100 g af rúgmjöli svo að ég notaði það og svo 300 g af heilhveiti. Síðan bætti ég við 100 g af hafragrjónum og 1 tsk af salti, setti þetta í skálina og hrærði með hnoðkróknum nokkra stund.

_mg_2124

Ég ætlaði líka að nota ýmsar tegundir af fræjum en fann fyrst ekkert nema graskersfræ. En eftir nokkra leit fann ég krukku með fræ- og hnetublöndu – sólblómafræ, furuhnetur, eitthvað af kasjúhnetum og meiri graskersfræ – og vigtaði 150 g af þessu (blöndunni plús graskersfræjum) og hrærði saman við.

_mg_2125

Ég ætlaði líka að nota þurrkaðar apríkósur, smátt saxaðar, en þær reyndust ekki til, en ég fann ljósar rúsínur og notaði 75 g af þeim. Það hefði líka mátt nota venjulegar rúsínur eða einhverja aðra þurrkaða ávexti.

_mg_2126

Ég hnoðaði þetta allt vel saman. Brauðdeigið varð kannski ívið þykkara en ég hafði ætlað að hafa það en þó ekki um of. En ef ég geri brauðið aftur (sem er vel líklegt því ég var ánægð með það) er ekki ólíklegt að ég setji ekki allt hveitið strax út í, heldur geymi eitthvað af því og bæti svo við eftir þörfum, þar til mér finnst deigið hæfilega þykkt.

_mg_2129

Ég hnoðaði svo deigið með höndunum í kúlu, setti það aftur í hrærivélarskálina, breiddi viskastykki yfir og lét það lyfta sér í rúman klukkutíma. Ég stillti svo ofninn á 225°C og stakk pítsusteininum mínum í hann og hitaði hann með. Það þarf ekkert að nota pítsustein, bökunarplata er alveg í góðu lagi, en það er þá gott að hita hana líka.

_mg_2131

Ég tók svo deigið, mótaði það í aflangt brauð, setti það á pítsusteininn og stakk í ofninn. Ég var líka búin að setja lítið, eldfast mót á botninn á ofninum og hellti sjóðandi vatni í það um leið og ég setti brauðið inn – þetta er heldur ekki nauðsynlegt en gefur betri skorpu.

_mg_2135

Ég bakaði brauðið í um 35 mínútur. Tók það svo út og lét það kólna á grind. Það er freistandi að skera strax í það og fá sér bita en það er betra ef það er látið kólna í 20-30 mínútur.

_mg_2147

Bragðmikið og gott brauð. Og heldur í hollari kantinum, held ég. Og afskaplega auðvelt.

_mg_2153

Gott bara með smjöri. Eða osti eða marmilaði og ýmsu öðru gúmmilaði.

*

Gróft brauð með fræjum og rúsínum

350 ml ylvolgt vatn

1 msk þurrger

100 g rúgmjöl

300 g heilhveiti

100 g hafragrjón

1 tsk salt

150 g fræ- og hnetublanda

75 g rúsínur, gjarna ljósar

 

225°C í um 35 mínútur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s