Lengsta kvöld ársins, er það ekki? Stysti dagurinn svo að kvöldið byrjaði ansi snemma. En það stendur jafnlangt frameftir og vanalega.
En jólin eru að koma. Og þótt ég ætli ekki að halda jól þetta árið smitast nú eitthvað inn í mann. Ég hef til dæmis fengið ansi margar fyrirspurnir tengdar ýmiss konar jólamat að undanförnu og þess vegna hugsað dálítið mikið um jólamat. Eða mat sem gæti hentað um jólin. Hefðbundinn og óhefðbundinn, íslenskan og óíslenskan, kjötmikinn og kjötlausan …
Kastaníur þykja víða mjög jólalegar -ekki síst ristaðar – en eru fremur sjaldséðar hér á landi. Um þetta leyti er þó yfirleitt hægt að fá forsoðnar kastaníur í stórmörkuðum, pakkaðar í loftþéttar umbúðir og með mikið geymsluþol. Ég notaði þær í þessa böku, sem er gerð fyrir grænkera og var í nóvemberblaði MAN. Það má þó sleppa þeim og nota enn meira af sveppum og hnetum.
Þegar ég gerði fyllinguna studdist ég að hluta til við uppskrift sem ég fann á netinu en þar var meðal annars notaður sojaostur, sem ég er ekki hrifin af. Mér fannst fyllingin alveg tolla saman þótt honum væri sleppt. En auðvitað má nota hann – eða t.d. rjómaost ef bakan á ekki að vera vegan.
Ég byrjaði á að gera bökudeigið. Venjulegt bökudeig inniheldur smjör og er því ekki fyrir grænkera en það er alveg eins hægt að nota jurtafeiti og það er gert hér. Feiti sem er vegan er yfirleitt merkt sem slík.
Ég byrjaði á að setja 250 g af hveiti (má líka vera heilhveiti), 125 g kalt jurtasmjörlíki í bitum og 1/2 tsk af salti í matvinnsluvél og blandaði vel saman. Svo bætti ég við ísköldu vatni smátt og smátt, 1/2 –1 msk í senn, þar til deigið loddi vel saman en klesstist ekki við.
Ég flatti svo deigið fremur þunnt út á bökunarpappírsörk og hvolfdi síðan örkinni yfir bökumót þannig að deigið þakti allt mótið og náði út yfir barmana, en var ekkert að snyrta kantana strax.
Ég setti svo farg ofan á pappírinn (ég á sérstakar leirkúlur til þeirra nota en það má vel nota t.d. þurrkaðar baunir eða hrísgrjón) og setti skelina í kæli í a.m.k. hálftíma. Á meðan hitaði ég ofninn í 180°C. Ég bakaði svo skelina með farginu í um 15 mínútur. Þá tók ég formið út, lyfti pappírnum með farginu og setti til hliðar, en bakaði skelina áfram í um 5 mínútur. Þá tók ég hana út og var þá með fyllinguna tilbúna.
Ég hitaði 2 msk af olíu á pönnu og saxaði einn lauk lauk, fínsaxaði tvo hvítlauksgeira og skar 350 g af sveppum í tveannt eða fernt. Lét þett krauma í 6–8 mínútur í olíunni við meðalhita. Bættu þá 200 g af grófsöxuðum, forsoðnum kastaníum, 50 g af grófmuldum valhnetum, 1/2 tsk af þurrkuðu timjani og 1/2 tsk af óreganói á pönnuna, kryddaði með pipar og salti og lét krauma áfram í nokkrar mínútur. Ég hellti svo blöndunni í bökuskelina, sléttaði yfirborðið, breiddi bökunarpappírsörk yfir og bakaði í 15–20 mínútur.
Ég var líka með bakka með 300 g af blönduðum villisveppum en það mætti líka nota t.d. kastaníusveppi þótt þessir blönduðu séu vissilega flottari. Ég hitaði 1 1/2 msk af olíu á pönnunni og lét sveppablönduna (e.t.v. grófsaxaða) krauma í nokkrar mínútur við nokkuð góðan hita, þar til sveppirnir voru fallega gullinbrúnir. Þá tók ég pönnuna af hitanum, hrærði 2-3 msk af þurrkuðum trönuberjum og lófafylli af saxaðri steinselju saman við.
Síðan dreifði ég þessu yfir sveppabökuna þegar hún var tilbúin og bar fram.
Sveppa- og kastaníubaka
*
Bökuskelin
250 g hveiti eða heilhveiti
125 g jurtasmjörlíki eða önnur jurtafeiti
1/2 tsk salt
ískalt vatn eftir þörfum
*
Fyllingin
3 1/2 msk olía
1 laukur, saxaður
2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
350 g sveppir, skornir í tvennt eða fernt
200 g forsoðnar kastaníuhnetur, grófsaxaðar
50 g valhnetur, grófmuldar
1/2 tsk timjan, þurrkað
1/2 tsk óreganó, þurrkað
pipar og salt
300 g blandaðir sveppir (eða kastaníusveppir)
2–3 msk þurrkuð trönuber
lófafylli af steinselju, saxaðri