Skoskar en bara vel ætar

Aðeins meira um Forláksmessu: Ég er yfirleitt með eitthvert grafið kjöt á jólahlaðborðinu mínu, til dæmis kindafillet eða gæsabringur. En 2016 og 2017 voru það skoskar rjúpnabringur; aðgengilegar (fást t.d. í Bónus) og tiltölulega ódýrar. Og alveg hreint ágætar.

Ég birti uppskriftina upphaflega fyrir jólin 2016. Svo gerði ég þetta aftur 2017, dálítið öðruvísi, en fannst þó ekki ástæða til að setja inn alveg nýja uppskrift. Svo að ég sameinaði bara þessar tvær í eina færslu.

_mg_0384

Ég var semsagt með þær á hlaðborði með fjölda annarra rétta. En þar sem sirka áttatíu manns mættu í veisluna ákvað ég að gera stóran skammt og var með fjóra pakka af bringum (þrjá 2017). Það eru fjórar rjúpnabringur í hverjum pakka en þær eru litlar – ætli hver pakki hafi ekki verið svona 100 grömm eða ríflega það, ég gleymdi að athuga það.

IMG_5541

Ég var að gera þetta fyrir hlaðborð og þetta er því nokkuð stór skammtur, 12-16 bringur (3-4 pakkar) en það má auðvitað gera minni útgáfu; einn pakki (4 bringur) ætti að vera hæfilegt í forrétt fyrir 4-6.

_mg_0254

Ég byrjaði á að taka bringurnar úr umbúðunum (eða ég byrjaði auðvitað á að láta þær þiðna svona nokkur veginn) og þerra þær svolítið með eldhúspappír. Ég blandaði saman góðri lúkufylli af grófu salti (eða flögusalti) og 3 msk af hrásykri (má nota púðursykur eða hvítan sykur). Stráði svo hluta af saltinu jafnt á disk eða í eldfast mót, raðaði bringunum ofan á og stráði meira salti yfir. Breiddi svo bökunarpappír yfir, setti diskinn í ísskápinn, setti farg ofan á (í þessu tilviki mjólkurfernu og tvær stórar nautatungur) og lét standa yfir nótt. Eða allavega í nokkra klukkutíma.

IMG_5598

Svo tók ég bringurnar út, skolaði saltblönduna vel af þeim undir köldu, rennandi vatni og þerraði þær aftur með eldhúspappír. Eins og kannski sést eru þær heldur stinnari en á fyrri myndinni, enda dregur saltið kjötsafann úr þeim að hluta.

_mg_0260

Svo eru hér tvær útfærslur, önnur frá 2016, hin 2017. Fyrir þá fyrri notaði ég kryddblöndu: 1 msk rósapipar, 1 1/2 tsk þurrkuð basilíka, 1/2 tsk þurrkað óreganó, 1/4 tsk fennikufræ, 1/4 tsk möluð kóríanderfræ. Annars má nota ýmsar kryddjurtir og krydd, eftir því hvað maður á og heldur að gæti gert sig. – Ég hefði notað þurrkað timjan, annaðhvort í staðinn fyrir óreganóið eða með því, en ég átti ferskt og ákvað að nota það frekar.

_mg_0266

Ég lagði nokkrar timjangreinar á fat (eða bakka) og stráði hluta af kryddblöndunni jafnt yfir. Raðaði rjúpnabringunum á fatið og stráði kryddblöndu yfir. Ef maður þarf að/vill láta bringurnar skarast dálítið er best að strá kryddblöndunni yfir þær jafnóðum svo að þær verði allar þaktar kryddblöndu. Svolagði ég fleiri timjangreinar ofan á (já, og ég var búin að gleyma að ég átti líka eina rósmaríngrein svo að ég skar hana í nokkra bita og setti líka ofan á – en það er nú óþarfi). Lagði bökunarpappír yfir, setti aftur í kæli og farg ofan á.

IMG_5603

Þetta var semsagt 2016, en í ár gerði ég þetta svona, einfaldara og þótti ekki síður gott: Ég blandaði saman 1 tsk af grófsteyttum piparkornum (notaði reyndar regnbogapipar en þau mega vera hvít eða svört) og 1/2 tsk af herbes de provence (eða einhverjum þurrkuðum kryddjurtum sem hugurinn girnist). Lagði þónokkrar timjangreinar í eldfast mót, dreifði hluta af kryddblöndunni jaft á botninn, raðaði bringunum í mótið, stráði afganginum af kryddblöndunni jafnt yfir og setti allmargar timjangreinar og 1-2 tsk af rósapipar yfir. Breiddi svo bökunarpappír yfir og setti farg ofan á.

Hvor aðferðin sem er notuð, þá eru bringurnar látnar liggja í einn til tvo sólarhringa. Þá tók ég þær úr kæli, hreinsaði fersku kryddjurtirar af þeim en skar kjötið svo í mjög þunnar sneiðar á ská með beittum hníf.

_mg_0505

2016-útgáfan: Ég dreifði vænni lúku af góðri salatblöndu á fat eða bakka og dreifði svo rjúpnabringusneiðum yfir, ásamt bláberjum og hindberjum (eða hverju sem mann lystir að skreyta með, svo framarlega sem bragðið stingur ekki í stúf við rjúpnabringurnar).

IMG_5647

Hér er svo 2017-útgáfan, ekkert salat og engin ber, bara timjan og rósapipar til skreytingar. Mér fannst það eiginlega bara betra.

*

Grafnar rjúpnabringur

12-16 skoskar rjúpnabringur (eða eins og maður vill)

150 ml gróft salt

3 msk hrásykur (eða annar sykur)

2016-útgáfan:

1 msk rósapipar

1 1/2 tsk þurrkuð basilíka

1/2 tsk þurrkað óreganó

 

1/4 tsk fennikufræ

1/4 tsk möluð kóríanderfræ

ferskar timjangreinar

2017-útgáfan:

1 tsk grófsteytt piparkorn, gjarna regnbogapipar

1/2 tsk herbes de provence eða aðrar þurrkaðar kryddjurtir eftir smekk

góður slatti af fersku timjani

1-2 tsk rósapipar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s