Ég var byrjuð að skrifa hér einhvern klisjukenndan texta um að jólin nálguðust óðum og allt það. Og það gera þau reyndar en svo ákvað ég að hætta bara við það og nota í staðinn tækifærið til að plögga mína ágætu bók Eitthvað ofan á brauð, sem kom út fyrr á árinu, með því að birta eina ágæta uppskrift úr henni. Sem ég var einmitt að gera í gær fyrir mína eigin jólaveislu því að þetta er sannarlega eitthvað sem getur farið vel á jólaborði eða sem hluti af jólaforrétti, bæði fyrir grænmetisætur og aðra. Því jólin nálgast jú óðum …
En reyndar er þetta líka bara hversdags. Þetta er sveppakæfa eða -paté, bragðmikið og gott og er frábær valkostur fyrir grænmetisætur og raunar alla sem vilja sneiða hjá kjúklingum og svínakjöti. Ég gerði þetta með smjöri svo að það er ekki vegan en hins vegar má alveg nota kókosolíu fyrir grænkera.
Ég byrjaði á að taka litla lófafylli af þurrkuðum sveppum – ég var með blandaða en það mætti líka nota t.d. lerkisveppi eða furusveppi eða bara hvaða þurrkuðu sveppi sem maður á til – setti þá í litla skál, hellti dálitlu sjóðheitu vatni yfir og lét standa í hálftíma eða svo.
Svo tók ég 200-250 g af ferskum sveppum (ekkert verra að þeir séu aðeins farnir að láta á sjá, þeir verða bara bragðmeiri fyrir vikið), skar þá í sneiðar og saxaði svo þrjá vorlauka og tvo hvítlauksgeira. Svo bræddi ég 75 g af smjöri (nú, eða 5 msk af kókosolíu) á pönnu, setti sveppina, vorlaukinn og hvítlaukinn á hana, kryddaði með pipar og salti og steikti við meðalhita í nokkrar mínútur.
Þá bætti ég þurrkuðu sveppunum og vatninu af þeim á pönnuna …
… og lét sjóða þar til mestallur vökvinn var gufaður upp.
Á meðan setti ég 100 g af valhnetum og lófafylli af steinselju í matvinnsluvél og grófmalaði hneturnar. – Það má sleppa steinseljunni, hún skiptir litlu upp á bragðið.
Svo hellti ég öllu af pönnunni í skálina og maukaði allt vel saman.
Smakkaði og bragðbætti eftir þörfum – það er gott að hafa kæfuna vel pipraða. Grófleikinn fer bara eftir smekk.
Þessi mynd er úr bókinni (hinar tók ég í gær) og þarna er maukið aðeins fínna en það sem ég var að gera í gær. En alveg jafngott.
Svo er bara að setja maukið í krukku eða skál og berða það fram með brauði.
*
Sveppapaté
lítil lófafylli af þurrkuðum sveppum
50 ml sjóðandi vatn
200-250 g sveppir
3 vorlaukar
2 hvítlauksgeirar
75 g smjör eða 5 msk kókosolía, bragðmild
pipar
salt
100 g valhnetur
e.t.v. lófafylli af steinselju
Uhm, ég fæ vatn í munninn og velti um leið fyrir mér hvað væri gott að nota í staðinn fyrir hneturnar (einn heimilismanna er með bráðaofnæmi fyrir hnetum). Allar ábendingar eru mjög vel þegnar…
Eru fræ í lagi? Ég held að grófmöluð graskers- eða sólblómafræ ættu alveg að geta virkað.
Hvað mælir þú með að nota í staðinn fyrir lauk og hvítlauk. Það er ofnæmi fyrir þessu á heimilinu og því miður er þetta innihald í allflestum mataruppskriftum.
Oft má nú bara sleppa þessu og krydda kannski heldur meira til að bæta upp bragðið sem tapast. En í staðinn fyrir lauk, sérstaklega ef hann er látinn krauma í smjöri eða olíu í byrjun til að fá „grunn“ í réttinn, má stundum nota smátt saxað sellerí og gulrætur, jafnvel líka fenniku. Það er fátt sem getur beinlínis komið í staðinn fyrir hvítlauk en ég veit um ýmsa sem nota aldrei hvítlauk, sleppa honum einfaldlega ef hann kemur fyrir í uppskrift, og eru hæstánægðir. Það getur samt verið gott að nota svolítinn grænmetiskraft (eða annan kraft) í staðinn.
Girnilegt! Hvað geymist þetta lengi í ísskáp?
Ekki viss. Upp í viku allavega í lokuðu íláti. En svo má líka frysta þetta í litlum boxum.