Lambabollur

Ég hef töluvert verið að tuða yfir því að undanförnu (og reyndar árum saman) að erfitt sé að nálgast lambahakk í búðum, ekki síst ófrosið. Og hef ekki verið ein um það tuð, síður en svo. Jú, einhverjar búðir hafa haft þetta til í kjötborði oftast nær, en þær eru fáar og staðsetningin ekki hentug fyrir bíllausa konu. Og stundum má finna lamba- og kindahakk frosið en oft bara í 1 kg umbúðum – sem er allt of stórt fyrir mig og marga aðra – og reyndar fann ég það bara í einni verslun af sex sem ég fór í um daginn, þótt það hafi sennilega verið tilviljun. Og svo krefst frosið hakk fyrirhyggju, sem ég á ekki mikið af, ég var að tala um eitthvað sem maður grípur með sér úr búðinni og eldar um kvöldið.

Hér áður fyrr gat maður gengið að lambahakki nánast í hverri búð (og þá var líka kjötborð í flestum búðum) en það eru mörg ár síðan og maður hefur fengið frekar óljós svör um ástæðuna. Eins og lambahakk hentar nú vel í marga rétti, ekki síst frá Grikklandi, Miðausturlöndum, Norður-Afríku …

IMG_0224

En viti menn, nú er Krónan farin að selja ófrosið lambahakk, vakúmpakkað, í tæplega 500 g skömmtum, á 1199 krónur kílóið. Hreint hakk, án aukaefna (kollagenið sem merkt er á miðann að sé innan við 2% er ekki viðbætt, þetta er náttúrulegur bandvefur sem er í öllu kjöti en það er skylt að merkja hlutfallið). Og það verða örugglega einhverjar lambahakksuppskriftir hér á næstunni. Til dæmis bara núna, því að ég keypti auðvitað hakk, nema hvað.

IMG_0229

Það lá nú eiginlega beint við – fannst mér – að byrja á bollum, því að ég er dálítið hrifin af lambakjötsbollum af ýmsu tagi. Hakkpakkinn var 480 g og ég setti hakkið í skál og bætti svo við 1/2 söxuðum lauk, 2 smátt söxuðum hvítlauksgeirum, einu eggi, 40 g af hafragrjónum (ég var með tröllhafra en það mega vera venjuleg grjón líka, eða brauðmylsna), 50 g af muldum fetaosti, 1 tsk af kóríanderdufti, kanel og cayennepipar á hnifsoddi (það má sleppa hvorutveggja ef þið viljið minna kryddaðar bollur) 1/2 tsk af pipar og 1 tsk af salti.

IMG_0231

Ég blandaði þessu vel saman, mér finnst þægilegast að gera það bara með höndunum en það má líka nota sleif. Ekki hrærivél, þá geta bollurnar orðið seigar. Ef maður er ekki viss um hvort kryddmagnið er passlegt er gott að búa til eina litla bollu eða buff, steikja á pönnu og smakka.

IMG_0238

Mér finnst hæfilegt að hafa hverja bollu 50-60 g og þá gætu þetta orðið 12-14 bollur. En það má hafa þær minni og líka aðeins stærri ef maður vill.

IMG_0243

Ég hitaði svo 2 1/2 msk af ólífuolíu á pönnu og brúnaði bollurnar við góðan hita á öllum hliðum – eða það er eiginlega ekki rétt því bollurnar voru hnöttóttar og höfðu þar af leiðandi engar hliðar, en þið skiljið hvað ég meina …

IMG_0247

Ég setti hálfan saxaðan lauk á pönnuna og lét krauma með. Svo opnaði ég eina dós af tómötum og hellti á pönnuna. Ég átti bara kirsiberjatómata en það má nota saxaða dósatómata. Eða ferska, ef þeir eru vel þroskaðir. Ég bætti svo við svona 200 ml af vatni og hitaði að suðu.

IMG_0250

Ég bætti við svona 10-12 steinlausum ólífum, en það var nú eiginlega aðallega af því að ég þurfti að fara að nota þær af því að plastdósin sem þær voru í datt út úr ísskápnum og sprakk … það má semsagt sleppa þeim. En þær pössuðu nú alveg ljómandi vel. Ég kryddaði sósuna svo með pipar og salti og lét þetta malla rólega í 10-12 mínútur og hrærði nokkrum sínnum.

IMG_0263

Að endingu tók ég pönnuna af hitanum, muldi svona 50 g af fetaosti yfir bollurnar og stráði ögn af saxaðri mintu og steinselju yfir, aðallega upp á græna litinn þótt mintubragðið væri ekkert að skemma.

IMG_0276

Ég var búin að sjóða dálítið af perlubyggi (mætti vera t.d. kúskús, bulgur eða hrísgrjón) og bar það fram með, ásamt salati úr svalaræktuninni minni.

IMG_0280

Nei, lambahakkið sveik ekki. Og ég er ekkert að skrökva því að hér er það betra en nautahakk.

Það verður keypt meira lambahakk á næstunni hér á bæ.

*

Lambabollur í tómatsósu með fetaosti

(fyrir 3-4)

450–500 g lambahakk

1 laukur (1/2 + 1/2)

2 hvítlauksgeirar

40 g hafragrjón, gjarna tröllhafrar

100 g mulinn fetaostur (50+50)

1 tsk kóríanderduft

kanell á hnífsoddi (má sleppa)

cayennepipar á hnífsoddi (má sleppa)

1/2 tsk pipar+

1 tsk salt+

2 1/2 msk ólífuolía

1 dós tómatar

200 ml vatn

10-12 ólífur

smávegis minta og/eða steinselja (má sleppa)

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s