Súkkulaði, pekanhnetur og hindber …

Nei, ekkert lambakjöt núna, þótt ég sé ekkert búin með það … En ég bakaði köku í gærkvöldi handa dótturdóttur minni að taka með síðasta daginn sinn í sumarvinnunni og gæða vinnufélögunum á. Og þar sem hún hefur verið að vinna í kerskálanum í Álverinu fannst okkur að sykurlaus kaka væri kannski ekki málið. En það þarf samt ekki að vera dísæt kaka a la Costco, hreint ekki.

Svo að ég tók uppskrift að köku sem ég hef bakað áður og alltaf verið vinsæl, stækkaði hana og breytti töluvert og held að það hafi komið alveg ljómandi vel út (ekki að ég smakkaði hana, því að eins og ég sagði, sykurlaus er hún ekki). Upphaflega uppskriftin birtist í bókinni Smáréttir Nönnu og þar eru þetta brúnkur (brownies), skornar í bita, en ég hafði kökuna bara heila og bætti við súkkulaðibitum og pekanhnetum.

Þetta er semsagt frekar stór kaka en það má alveg minnka uppskriftina um helming.

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og hita hann í 175°C og svo setti ég 300 g af smjöri og 200 g af suðusúkkulaði í pott og bræddi við vægan hita. Tók pottinn af hitanum þegar súkkulaðið var næstum allt bráðið, hrærði og lét kólna aðeins. Á meðan saxaði ég 100 g af súkkulaði í viðbót og 80 g af pekanhnetum gróft.

IMG_0156

Svo setti ég 350 g af púðursykri og 7 egg í hrærivélarskálina og þeytti mjög vel saman. Hellti svo súkkulaðiblöndunni út í og þeytti á meðan og síðan blandaði ég saman 450 g af hveiti, 50 g af kakódufti, 1½ tsk af lyftidufti og ½ tsk af salti, sigtaði yfir og hrærði saman við með sleikju. Og svo blandaði ég saxaða súkkulaðinu og hnetunum saman við.

IMG_0160

Ég var búin að klæða nokkuð stórt, eldfast mót (það má líka nota stórt tertuform) með bökunarpappír og hellti nú deiginu í það og sléttaði. Svo tók ég 250 g af frosnum hindberjum og dreifði jafnt yfir.

IMG_0161

Ég vildi ekki láta berin standa mikið upp úr deiginu svo að ég tók bökunarpappírsörk, lagði hana ofan á, þrýsti létt á hana með lófunum til að ýta berjunum dálítið ofan í deigið og fjarlægði hana svo. Svo setti ég mótið í ofninn, á neðstu rim, og bakaði kökuna í svona 35 mínútur.

IMG_0164

Tíminn ræðst annars dálítið af því hvað formið er stórt svo að það er best að fylgjast með kökunni þegar hálftími er liðinn – hún er tilbúin þegar brúnirnar hafa stífnað en hún dúar enn svolítið í miðju – en er samt ekki beint blaut. Ég tók hana út og lét hana kólna í forminu. Svo má annaðhvort hvolfa henni gætilega úr forminu yfir á plötu og síðan aftur á bretti eða fat, eða nota pappírinn til að lyfta henni yfir á brettið (en þá gæti samt verið erfitt að ná pappírnum undan henni, ef á að bera hana fram heila).

IMG_0166

Eins og ég sagði, þá má annaðhvort hafa hana heila eða skera hana í bita og bera fram þannig.

*

Hindberjasúkkulaðikaka með pekanhnetum

300 g smjör

300 g suðusúkkulaði (200+100)

350 g púðursykur

7 egg

450 g hveiti

50 g kakóduft

1 ½ tsk lyftiduft

½ tsk salt

80 g pekanhnetur

250 g frosin hindber

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s