Aldur engin fyrirstaða

Annars finnst mér skrítið hvað fregnir af lambakjötsfjallinu eru óljósar og stundum misvísandi, bæði hvað það er stórt og hvers konar kjöt þetta er aðallega. Sumstaðar skilst manni að ekkert sé til af hryggjum og lærum, annars staðar nóg, sumir segja að þetta séu aðallega frampartar, kjöt af fullorðnu og svo hausar og innmatur. Ég veit það ekki; fyrir mér er þetta allt saman afbragðsmatur en ekki víst að allir séu sammála (ekki um hausana og innmatinn allavega).

En þótt ég hafi verið hér að gefa uppskriftir til að sýna í hvað hægt er að nota eitt læri, þá má alveg eins nota þær uppskriftir við hina bitana og líka við kindakjöt. Og hér ætla ég einmitt að setja uppskrift þar sem ég notaði kindakjöt. Mér sýnist stundum að fólk hafi lítið álit á kindakjöti, telji það seigt, bragðvont og þriðja flokks. Auðvitað er það ekki jafnmeyrt og lambakjöt en það er þó mjög misjafnt og sumir vöðvar, eins og lundir og fillet, þurfa ekki lengri eldun en lambakjöt. Sjálf hneigist ég til að kaupa frekar t.d. kindalundir en lambalundir, ef hvort tveggja er í boði.

Þegar ég var í Krónunni á dögunum rak ég augun í bita af kindainnanlæri, eitthvað rétt tæplega 450 g, passlegt fyrir tvo. Kílóverðið var 1999 krónur svo að bitinn kostaði 892 krónur. Ég var upphaflega að hugsa um að skera stykkið í sneiðar og grilla en það er alveg óhætt að segja að það hafi ekki verið neitt grillveður í gær svo að þetta fór í pottinn.

Auðvitað má svo líka nota lambakjöt í réttinn.

IMG_0049

Ég byrjaði á að þerra bitann með eldhúspappír og kryddaði hann svo með pipar, salti og herbes de provence (það má líka nota aðra kryddjurtablöndu, eða t.d. bara þurrkað timjan). Hitaði 2 msk af olíu í þykkbotna potti og brúnaði kjötið vel.

IMG_0062

Svo tók ég það upp og setti á disk. Ég var búin að saxa einn lauk og setti hann út í og lét krauma við meðalhita í nokkrar mínútur. (Ég kryddaði hann ekkert, kryddið sem sést þarna er bara það sem hafði dottið af kjötinu.)

IMG_0063

Setti svo kjötið aftur út í og hellti vatni í pottinn, svo miklu að svona tveir þriðju kjötstykkisins stóðu upp úr, og hitaði að suðu.

IMG_0064

Ég var búin að skera tvo eða þrjá vel þroskaða tómata í báta og setti þá út í, ásamt lófafylli af grófsöxuðu sellerílaufi. Ég rækta laufsellerí á svölunum en ef maður á það ekki til (sem fæstir eiga nú líklega), þá má nota svolítið af skessujurt, eða einn smátt saxaðan sellerístöngul, eða bara sleppa …

IMG_0071Ég opnaði svo dós af baunum (ég var með pintóbaunir en það má nota aðrar, til dæmis cannellinibaunir eða nýrnabaunir), hellti leginum af þeim í sigti og setti þær út í. Setti þétt lok á pottinn og lét þetta malla í svona 12 mínútur.

IMG_0075

Þá tók ég kjötið upp úr, setti til hliðar og lét það jafna sig. Setti tvö grófsöxuð grænkálsblöð (stilkurinn tekinn úr) út í, hækkaði hitann aðeins og lét malla í opnum potti í nokkrar mínútur. Þykkti svo sósuna með dálitlum sósujafnara, smakkaði og bragðbætti eftir þörfum með pipar og salti.

IMG_0078

Svo setti ég baunakássuna á fat, skar kjötið í sneiðar og setti ofan á. Með þessu er gott að hafa kartöflustöppu eða bara grænt salat, en þar sem ég bar þetta fram með öðrum rétti sem var með tagiatelle, þá var meðlætið (auk baunanna) bara pasta. Það var ágætt líka.

*

Kindalærvöðvi með baunakássu

(fyrir 2)

400-500 g innanlærvöðvi (kinda eða lamba)

1 tsk herbes de provence eða aðrar kryddjurtir

pipar

salt

2 msk olía

1 laukur

vatn eftir þörfum

2-3 tómatar, vel þroskaðir

lófafylli af sellerílaufi (má sleppa)

1 dós baunir (t.d. pintó-, cannellini- eða nýrnabaunir)

2-3 grænkálsblöð

sósujafnari

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s