Þótt ég ætli ekki til Eþíópíu …

Ég ætla að vera í útlöndum um jólin eins og tvö síðustu ár og eins og í fyrra hef ég ekki sagt neinum frá því hvert ég er að fara – ekki enn allavega; kannski geri ég það áður en ég fer, kannski bara þegar ég er komin á staðinn. Ég var á Möltu í fyrra, Madeira í hitteðfyrra; hvorttveggja eru ferðamannastaðir og þar er töluvert af túristum um jólin – reyndar ekki svo mikið á þeim slóðum þar sem ég var. Skemmtiferðaskip sigldu framhjá glugganum mínum og svona.

En ég sagði fjölskyldunni um daginn að staðurinn sem ég yrði á þessi jólin væri ekkert sérlega mikill ferðamannastaður.

„Nú, amma er sem sagt að fara til Aleppo,“ sagði dóttursonurinn. Hann veit að það er ekki mikið um túrista þar þessa dagana.

En nei, þetta er nú mun friðsælli staður. Mig hefur reyndar lengi langað að koma til Sýrlands en ætli það verði nú ekki bið á því. Og ég er heldur ekki að fara til Eþíópíu. Samt kemur hér eþíópísk uppskrift. Eða jæja, einfölduð uppskrift af þjóðarrétti Eþíópíubúa, doro wat. Ég gerði þetta fyrir haustblað MAN og þótt rétturinn sé orðinn til á suðlægum og heitum slóðum á hann ágætlega við í vetrarkulda.

Ég byrjaði á að búa til berbere, en það er kryddblanda sem er notuð til að krydda marga eþíópíska rétti. Hún er venjulega mjög sterk en ég kaus að gera milda útgáfu (mjög milda á eþíópískan mælikvarða); það má alltaf gera hana sterkari. Hana má (a.m.k. stundum) fá í búðum en það er frekar einfalt að gera hana. Allavega þessa útgáfu, þetta eru allt kryddtegundir sem auðvelt er að fá, en í sumum útgáfum eru krydd eins og koraruna, radhuni og langpipar, sem öllu erfiðara er að nálgast hér (ég á reyndar langpipar en notaði hann ekki hér). En það eru til margvíslegar útgáfur.

_mg_6258

Ég mældi svo 1 1/2 tsk af engiferdufti, 1/2 tsk af kóríanderdufti, 1/2 tsk af fenugreekfræjum (má sleppa), 1/2 tsk af kanel, 1/2 tsk af nýmöluðum kardimommum, 1/4 tsk af negul, 2 tsk af salti, 5 msk af paprikudufti og 1 msk af cayennepipar (af því að þetta er mild útgáfa, Eþíópíubúi hefði sennilega sett 4-5). Setti allt kryddið á þurra pönnu.

_mg_6259

 

Ristaði það svo við meðalhita í nokkrar mínútur og hrærði stöðugt svo að kryddið brynni ekki.

_mg_6265

Þegar eldhúsið var farið að ilma vel hellti ég kryddinu á disk, lét það kólna og setti það svo í krukku.

_mg_6279

Þá var komið að því að elda kjúklinginn. Ég tók þrjá lauka og saxaði það fremur gróft. Svo tók ég 75 g af skírðu smjöri (en það má komast af með venjulegt), bræddi það í víðum, þykkbotna potti og lét laukinn krauma við fremur vægan hita í 20-25 mínútur. Þá saxaði ég 4-5 hvítlauksgeira og 5 cm bita af engifer, setti út í og lét krauma í nokkrar mínútur í viðbót. Svo hrærði ég 2 msk af berbere-kryddblöndu (eða eftir smekk) saman við og hellti svo 1/2 l af vatni yfir og hitaðu að suðu.

_mg_6382

Ég setti svo 1 kg af kjúklingalærum og -leggjum út í (þetta er ekki uppskrift fyrir bringur), saltaði og lét malla undir loki í 35-40 mínútur. Hrærði öðru hverju eða sneri bitunum.

_mg_6384

Svo tók ég lokið af, hækkaði hitann og lét sjóða þar til sósan hafði þykknað töluvert. Ég setti líka nokkur egg í pott, harðsauð þau, kældi og skurnfletti.

Á meðan kjúklingurinn var að malla hafði ég gert eþíópíska brauðið/pönnukökurnar injera. Ekki alveg ekta útgáfu, reyndar, og ég hafði byrjað daginn áður því að deigið þarf að gerjast í 1-3 sólarhringa, jafnvel lengur. Injera er yfirleitt gert úr teff, sem er korntegund sem vex í Eþíópíu og Erítreu. Það getur verið erfitt að nálgast það. Ég var með blöndu af teff og bókhveiti, sem ég keypti í Hagkaup, en það er hægt að nota annað mjöl til dæmis heilhveiti. Eða bara hveiti.

_mg_6383

Ég byrjaði á að hæra 250 ml af mjöli og vatn saman í skál, breiddi viskastykki yfir og lét standa óhreyft við stofuhita í einn og hálfan sólarhring, þá var komin svolítil gerjun í blönduna (og ég nennti ekki að bíða lengur). Þá hrærði ég 1 tsk af lyftidufti og svolitlu salti saman við.

_mg_6386

Þá bræddi ég dálítið smjör á pönnu (ætti eiginlega að vera skírt smjör en mitt var búið), hellti einni ausu af deigi á hana og steikti við nokkuð góðan hita í eina mínútu. Ég sneri ekki pönnukökunni, heldur setti lok yfir pönnuna og steikti í 45 sekúndur til 1 mínútu í viðbót, eða þar til yfirborðið var þurrt. Setti svo pönnukökuna á disk, breiddi viskastykki yfir og steikti úr afganginum af deiginu.

 

_mg_6390

Þá var ekkert eftir nema að skera harðsoðnu eggin í tvennt og setja út í.

ethiopiskur-kjuklingur-3

Svo stráði ég kóríanderlaufi yfir og bar fram með injera. En það má líka sleppa injeranu og hafa t.d. soðin hrísgrjón með þessu.

ethiopiskur-kjuklingur-5

Eþíópískur kjúklingaréttur (Doro wat)

3 laukar

75 g ghee (skírt smjör) eða smjör

4-5 hvítlauksgeirar

5 cm biti af engifer

1-2 msk berbere-kryddblanda, eða eftir smekk

1/2 l vatn

1 kg kjúklingalæri og/eða leggir

salt

4 egg, harðsoðin

kóríanderlauf

*

Berbere

1 1/2 tsk engiferduft

1/2 tsk kóríanderduft

1/2 tsk fenugreek (má sleppa)

1/2 tsk kanill

1/2 tsk kardimommur, helst nýmalaðar

1/4 tsk negull

2 tsk salt

5 msk paprikuduft

1 msk cayennepipar, eða eftir smekk

*

 

Injera

250 ml teff, heilhveiti eða hveiti

325 ml vatn (meira ef þarf)

1 tsk lyftiduft

svolítið salt

ghee eða smjör

 

2 comments

  1. Þessa uppskrift ætla ég að gera🖒🖒

    24. nóv. 2016 21:45 skrifaði „Konan sem kyndir ofninn sinn“ :

    > nannarognvaldar posted: „Ég ætla að vera í útlöndum um jólin eins og tvö > síðustu ár og eins og í fyrra hef ég ekki sagt neinum frá því hvert ég er > að fara – ekki enn allavega; kannski geri ég það áður en ég fer, kannski > bara þegar ég er komin á staðinn. Ég var á Möltu í fyrra, Ma“ >

Skildu eftir svar við Addy Gunn Hætta við svar