Boltabollur

Ég er frekar óþjóðleg manneskja í þeim skilningi að ég fylgist afar sjaldan með einhverju sem mér skilst að öll þjóðin horfi á eða sé á kafi í. Ég horfi til dæmis aldrei á Eurovision, ég fylgist ekki með Útsvari (en annars eru nú líklega flestir hætti því), veit ekkert um Ísland got talent eða The Voice eða hvað það nú heitir allt saman … og ég gæti víst talið upp ótal aðra hluti sem ég er bara ekkert inni í og hef engan áhuga á.

Já, og svo var ég ein af þessum örfáu sem fylgdist ekkert með þarna fótboltamótinu sem var í sumar (ókei, ég veit alveg að þetta var Evrópukeppnin og reyndar veit ég nokkurn veginn hvaða lönd voru með en það er bara af því að ég las próförk að bók um keppnina). Fór ekkert í bæinn, kveikti ekki á sjónvarpinu (eða jú, en ég var þá að horfa á eitthvað annað) og hef aldrei tekið þátt í víkingaklappi. Alveg satt.

En ég gerði samt þátt fyrir júníblað MAN um mat sem hentaði fyrir fólk sem horfir á svoleiðis og má ekki vera að því að elda (nema fyrirfram) og vill mat sem hægt er að borða fyrir framan sjónvarpið og krefst ekki endilega diska og hnífapara. Já, ég veit að einfalda leiðin er að panta bara pítsu. En það er nú fleira til. Og hér er ein af þessum uppskriftum.

Ég bar þessar litlu bollur  fram á salatblöðum ásamt grænmeti og það er hægt að vefja blöðunum utan um þær og bera fram með servíettum en án diska og hnífapara. En það er líka hægt að setja þær á kvöldverðarborðið og hafa salatið bara með.  Þær eru alveg ágætar þótt maður sé ekkert að horfa á fótbolta á meðan.

Mér finnst best að nota svínahakk, 12-16% feitt, en það má líka nota blandað hakk. Ég var með 500 g og það dugði í 20-25 bollur.

(Jájá, það er fótboltaleikur á skjánum í baksýn. Ég hafði mikið fyrir því að drösla sjónvarpinu mínu niður á lægra borð og finna svo rás sem sýndi bara fótbolta til að hafa viðeigandi bakgrunn á myndunum. Ég vissi ekki einu sinni að það væri svoleiðis rás á sjónvarpinu mínu …)

_mg_0429

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 200°C. Svo grófsaxaði ég hálft knippi af kóríanderlaufi, 2-3 vorlauka, 3 hvítlauksgeira, 3 cm bita af engifer og 1 chilialdin, fræhreinsað, og setti þetta í matvinnsluvél ásamt 8-10 muldum saltkexkökum, 1 msk af teriyakisósu og pipar eftir smekk. Lét vélina ganga þar til allt er komið í mauk og þá setti ég hakkið (500 g af svínahakki) út í og blandaði saman við. Best samt að láta vélina ekki ganga of lengi, þetta á ekki að verða að kjötfarsi.

_mg_0431

Það getur verið gott að steikja eina litla bollu á pönnu í svolítilli olíu til að athuga hvort þetta sé hæfilega kryddað og bæta svo við salti og öðru kryddi ef þarf. Svo mótaði ég hakkið í bollur á stærð við valhnetur – þetta ættu semsagt að verða 20-25 bollur. Dreifði þeim á pappírsklædda bökunarplötu og bakaði þær í miðjum ofni í um 20 mínútur. Ekki ætti að þurfa að snúa þeim eða hræra í þeim.

_mg_0568

Á meðan þetta var í ofninum tók ég grænmeti og skar í mjóar ræmur, svona 6-8 cm langar. Ég var með papriku, gúrkur og vorlauk en það má nota ýmislegt annað. Svo tók ég jöklasalatshaus, losaði blöðin af honum, reif þau stærri niður í hæfilegar stærðir og setti á bakka. Setti svo nokkrar ræmur af grænmeti á hvert blað og þegar bollurnar voru tilbúnar setti ég eina bollu á hvert blað (það má líka láta þær kólna og bera þær fram volgar eða jafnvel kaldar).

_mg_0553

Ég dreypti svo dálítilli teriyakisósu yfir og bar meiri sósu fram með – en það mætti líka nota t.d. sæta chilisósu eða aðra tilbúna sósu sem manni líkar.

Austurlenskar kjötbollur í salatbollum

 

500 g svínahakk (eða blandað)

1/2 knippi kóríanderlauf

2-3 vorlaukar

3 hvítlauksgeirar

3 cm biti af engifer

1 chilialdin, fræhreinsað

8-10 saltkexkökur

1 msk teriyakisósa

pipar

e.t.v. salt

*

jöklasalat eða önnur hentug salatblöð

grænmeti, t.d. vorlaukur, paprika, gúrka

teriyakisósa, sæt chilisósa eða önnur sósa eftir smekk

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s