Sumarið fór mestallt í flutninga hjá mér og ég ákvað að láta bloggið alveg eiga sig á meðan. Nú er ég þó loksins alveg búin að tæma Grettisgötuna og hreiðra þokkalega vel um mig hér í Fossvoginum (nema hvað eldhúsið er reyndar í skralli því ég þarf að gera dálitlar breytingar á því og vantar iðnaðarmenn og svona, þetta hefst kannski einhverntíma fyrir jólin …) og lífið er smámsaman að færast yfir í nýja rútínu. En flutningarnir tóku sinn tíma vegna þess að ég á alveg ótrúlega mikið af dóti og bókum og …
Það breytist ýmislegt, ekki bara vegna þess að ég var að flytja úr 101 Reykjavík eftir 37 ár þar og nýja íbúðin er býsna ólík þeim sem ég hef áður búið í svo að ég ákvað að hugsa ýmislegt upp á nýtt, skipti út hluta af húsgögnunum, losaði mig við svona 15% af matreiðslubókasafninu og meirihluta af öðrum bókum (það er nóg eftir samt) og ýmislegt annað svo að þótt þessi íbúð sé heldur minni er rýmra um mig hér og allt svona heldur hægara og betra. Svo að ég er afskaplega ánægð með breytingarnar.
Ég hef svosem alveg eldað mat í sumar en ekki mikið verið að mynda hann eða skrifa niður, nema bara það sem ég hef verið að gera fyrir MAN eða annað slíkt. En það fer nú áreiðalega að breytast og ég á líka töluvert af óbirtum uppskriftum. Og hér er ein af þeim. Þetta er uppskrifti sem ég gerði fyrir júlíblað MAN, þar sem þemað var sumarsalöt og annað slíkt, sem hentaði til dæmis sem nesti í útilegu eða til að taka með eða elda í bústaðnum. En auðvitað henta þessir réttir hvar sem er og sumir eru ekkert endilega sumarréttir, til dæmis ekki þessi; pestóhrísgrjón með rækjum.
Ég byrjaði á að setja knippi (bakka) af basilíku (nema ég tók nokkur frá til að skreyta), 30 g af valhnetum, 1 msk af nýkreistum sítrónusafa, 2 hvítlauksgeira, 30 g af nýrifnum parmesanosti, pipar og salt í matvinnsluvél og maukaði saman. Svo þeytti ég 3 msk af ólífuolíu og 4 msk af matarolíu smátt og smátt saman við. Það má líka nota aðeins meiri olíu ef maður vill hafa pestóið þynnra.
Ég sauð svo 200 g af hrísgrjónum þar til þau voru meyr, setti þau í skál og hellti pestóinu yfir.
Ég blandaði svo pestóinu vel saman við heit hrísgrjónin og setti þau svo á fat.
Þá var komið að rækjunum. Ég var með 500 g af hráum risarækjum í skel en það mætti líka nota smáan humar (og líka soðnar og pillaðar rækjur eins og ég sagði en þetta er miklu betra). Ef maður er með hráar en skelflettar rækjur þarf auðvitað heldur minna af þeim. En ég byrjaði semsagt á því að skelfletta rækjurnar og hreinsa þær.
Svo fræhreinsaði ég eitt rautt chilialdin og saxaði það og saxaði líka einn vorlauk. Hitaði 1 msk af olíu á pönnu, setti rækjur, chili og vorlauk á hana, kryddasði með pipar og salti og steikti við háan hita í svona 3 mínútur, eða þar til rækjurnar höfðu breytt um lit; hrærði oft í á meðan.
Ég dreifði svo rækjunum yfir hrísgrjónin, ásamt nokkrum basilíublöðum.
Pestóhrísgrjón með rækjum
200 g hrísgrjón
salt
1 knippi basilíka
30 g valhnetur
1 msk sítrónusafi
2 hvítlauksgeirar
30 g parmesanostur
pipar og salt
3 msk ólífuolía
3 msk matarolía
*
500 g risarækjur, hráar, eða smár humar
1 chilialdin
1 vorlaukur
1 msk olía
pipar og salt