Bringa og ber

Nóg að gera … vinna og undirbúningur flutninga og matargrúsk og forsetakosningar og allt mögulegt og ég steingleymi blogginu. Eða öllu heldur, ég man aldrei eftir því nema akkúrat þegar ég hef engan tíma til að skrifa neitt.

En um þessa helgi var ekkert planað nema þetta var auðvitað kosningahelgi. Og jú, svo voru einhverjir að skoða íbúðina (hún er enn til sölu ef ykkur vantar íbúð í miðbænum). Svo að áður en ég fór að kjósa skreytti ég brauðtertu sem ég hafði sett saman kvöldið áður og fór með hana á kosningaskrifstofuna hjá mínum manni. Ég held hún hafi verið ágæt en ég smakkaði hana ekki:

_MG_1993

Og svo fór ég semsagt og kaus og um kvöldið fór ég á kosningavöku hjá mínum manni og það var gaman, enda vann hann. Svo að í dag fór ég út á Nes að hylla hann og af því að við höfðum lagt á bílastæðinu hjá Hagkaup skaust ég þangað inn í bakaleiðinni að kaupa eitthvað í matinn því dótturfjölskyldan var að koma í mat. Reyndar er ég að reyna að nota sem mest úr frystinum núna fyrir flutningana en þegar dóttursonurinn spurði í gær hvað yrði í matinn og sagði að hann vildi eitthvað hollt og gott gáði ég í frystiskápinn og fann ekkert álitlegt þar nema saltfis og geitakjöt. Hvorugt hugnaðist drengnum svo ég ákvað að kaupa bara eitthvað.

Semsagt, ég fór í Hagkaup og ætlaði eiginlega að kaupa kjúkling en rak svo augun í kalkúnabringur og langaði allt í einu í svoleiðis, svo ég keypti eina. Var viss um að ég ætti eitthvað heima sem ég gæti notað til að fylla hana með, enda reyndist það rétt.

_MG_2113

Bringan var um 1100 grömm og hamurinn var á henni, sem mér þykir betra. Ég lagði hana á bretti og skar djúpan vasa inn í aðra hliðina á henni. – Já, og kveikti um leið á ofninum og stillti hann á 220°C.

_MG_2106

Svo fór ég að athuga hvað ég ætti sem mætti nota í fyllingu. Það var til fetaostsbiti, svona 75 g, en það hefði alveg eins mátt nota t.d. rjómaost. Svo grófsaxaði ég dálítið af steinselju (mætti nota aðrar kryddjurtir eftir smekk) og litla lófafylli af pekanhnetum og setti út í, ásamt svona 2 msk af þurrkuðum trönuberjum (ósykruðum) og dálitlu af bláberjum.

_MG_2111Ég kryddaði þetta með svona þriðjungi úr teskeið af grófsteyttum regnbogapipar (fimmlitri piparblöndu) – en það mætti líka nota bara svartan eða hvítan pipar – og dálitlu salti og blandaði þessu öllu saman.

_MG_2117

Svo opnaði ég vasann sem ég hafði skorið í bringuna vel og tróð allri fyllingunni í hann.

_MG_2123Ég lokaði bringunni með kjötprjónum (það má líka nota tannstöngla), kryddaði hana að utan með meiri regnbogapipar og salti, hellti 1 msk af olíu í eldfast form og setti bringuna í það með haminn upp. Setti þetta svo í ofninn og steikti við 220°C í svona 15 mínútur. Þá lækkaði ég hitann í 170°C og steikti í svona hálftíma í viðbót.

_MG_2129

Á meðan bringan var í ofninum sauð ég kartöflur þar til þær voru meyrar og hellti svo vatninu af þeim, skar þær stærri í tvennt, hitaði 2 msk af olíu á pönnu, setti kartöflurnar á hana, saltaði þær dálítið og steikti þær við góðan hita nokkra stund. Hrærði í þeim eða sneri þeim af og til.

_MG_2133

Svo bar ég bringuna fram með kartöflunum, salati og sveppasósu. Dóttursyninum fannst þetta afbragðsmatur og var hress með að hafa sloppið við saltfiskinn og geitakjötið. Ég gleymdi að taka mynd af sundurskorinni bringu til að sýna fyllinguna en hún var bara alveg ágæt.

*

Kalkúnabringa með berja- og hnetufylingu

1 kalkúnabringa, 1-1,2 kg

75 g fetaostur eða rjómaostur

lítil lófafylli af steinselju

lítil lófafylli af pekanhnetum

lítil lófafylli af bláberjum

um 2 msk þurrkuð trönuber

grófsteyttur pipar, gjarna regnbogapipar

salt

1 msk olía

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s