Soðinn rjómi og hindber

Jújú, það er sumar. Og gæti meira að segja orðið eitthvert framhald á því næstu dagana. Þess vegna er hér sumarlegur eftirréttur – eitthvað til að gera um helgina kannski. Ef maður hefur fjárfest í bakka af íslenskum hindberjum – ja, eða jarðarberjum eða einhverjum öðrum berjum.

Ég gerði þessa uppskrift ásamt fleirum fyrir Sölufélag garðyrkjumanna. Það er hægt að nota venjulega hindberjasultu (eða hvaða sultu sem maður vill) en ég notaði St. Dalfour-sultu, sem er án viðbætts sykurs en inniheldur auðvitað fullt af ávaxtasykri. Hún fellur þess vegna undir skilgreiningu mína á því sem ég get notað (en í miklu hófi auðvitað, þetta er ekki hversdagsdesert sko).

Panna cotta er ótrúlega einfaldur eftirréttur og í þessari útgáfu eru aðeins fjögur hráefni.

_MG_4138

Panna cotta þýðir beinlínis soðinn rjómi og þótt ég hafi oft séð uppskriftir þar sem rjóminn er ekkert soðinn get ég ekki hugsað mér að sleppa því; bæði breytist bragðið af honum og verður betra og svo þykknar hann dálítið þegar hann er látinn sjóða niður smástund. Svo að ég byrjaði á að setja 400 ml af rjóma í pott, hita hann að suðu og láta malla í 5 mínútur.

Á meðan tók ég líka fimm matarlímsblöð og lagði þau í bleyti í köldu vatni.

_MG_4139

Ég tók svo pottinn af hitanum og hrærði 150 ml af hindberjasultu saman við rjómann.

_MG_4141

Svo kreisti ég vatnið úr matarlíminu, setti það út í heitt rjómablandið og hrærði þar til matarlímið var bráðið.

_MG_4144

Ég tók svo fjögur lítil form (creme brulee-form, en það mætti líka nota litlar skálar eða bolla) og hellti blöndunni í þau.

_MG_4149

Ég setti svo 3-4 hindber í hvert form og kældi panna cotta-ið í 3-4 klst.

_MG_4332

Eða þangað til það var orðið stíft. – Ef á að bera panna cotta-ið fram í formunum en ekki hvolfa því úr þeim má nota einu matarlímsblaði minna.

_MG_4337

En ég losaði búðingana úr formunum og hvolfdi þeim á diska. Svo skreytti ég með afganginum af hindberjunum (og reyndar líka með mintulaufum af því að ég átti þau en það má alveg sleppa því eða nota eitthvað annað grænt, t.d. basilíkulauf).

_MG_4365

Hindberja-panna cotta

 

400 ml rjómi

5 matarlímsblöð

150 ml hindberjasulta

125 g íslensk hindber

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s