Ég er búin að vera á kafi í allt öðrum hlutum en blogghugleiðingum að undanförnu, hef ekki einu sinni mátt vera að því að elda – eða jú, en ég hef ekkert verið að skrásetja það neitt að ráði. Og það hefur ýmislegt verið að trufla.
Nýja bókin mín, Eitthvað ofan á brauð, kom út síðasta föstudag (en hún var reyndar ekkert að tefja mig mikið, það var mánuður síðan hún fór í prentsmiðju, en það er nú alltaf eitthvað að gera í sambandi við útkomu bókar), og þið eruð náttúrlega öll búin að kaupa hana, er það ekki?
Aftur á móti var ég mjög önnum kafin í síðari hluta maímánaðar við að ljúka við (jæja, eða skrifa, ég var svosem ekki komin langt þegar ég áttaði mig allt í einu á að það var að koma að skuldadögum) erindi sem ég ætla að halda á matarráðstefnu í Oxford í sumar og hafði mjög gaman af öllu grúskinu sem því fylgir. Erindið hefur heitið „Gone and Forgotten: Hook steaks, trash bags, and other vanished Icelandic offal dishes“ og er um allt þetta sem við erum sjálf búin að gleyma, meira og minna. Rétt upp hend sem hafa smakkað sviljaost og fýlafeitarbræðing …
Já, og svo er ég að skipta um íbúð. Það var ekki skyndihugdetta en ég get verið býsna fljót (af sveimhuga að vera) að taka ákvarðanir og eins og einn vinnufélagi minn sagði: „Sumir fara í Kringluna eftir vinnu að kaupa sér buxur. Nanna fer og kaupir íbúð.“ Og ég er semsagt búin að kaupa íbúð inni í Fossvogi sem mér líst mjög vel á og hlakka mikið til að flytja í. Bara einn smágalli: ég þarf víst að selja íbúðina hér á Grettisgötunni og það er bara ekki rétt að þeir hjá Gamma birtist samstundis á tröppunum með tékkheftið (já, ég veit að fólk notar ekki tékkhefti lengur, svo gömul er ég nú ekki) þannig að ef þið vitið af einhverjum sem er að leita að fjögurra herbergja íbúð í miðbænum sem kostar ekki hálfa milljón hver fermetri (reyndar langtum minna), þá er ein hér á Grettisgötu 71. Eldavélin mín fylgir, hún er töluvert tryllitæki sem ég mun sakna (ég var að hugsa um að auglýsa „eldavél til sölu, íbúð fylgir“ og það er búið að elda fyrir 10 matreiðslubækur á henni. En það þarf að gera upp eldhúsið. Íbúðin er rúmgóð (rúmar bæði mig og matreiðslubókasafnið) og björt (það er líka búið að mynda þessar 10 matreiðslubækur hér) og mér hefur liðið vel hér. Það er nú fyrir mestu.
En nóg um það, hér er uppskrift. Grilluppskrift því það er einmitt tíminn og veðrið til þess; ég gerði hana fyrir maíblað MAN og þegar ég var að vinna uppskriftirnar einhvertíma í aprílbyrjun var satt að segja skítaveður, gott ef ekki slydda, og ég var ekki í stuði til að standa skjálfandi á svölunum og láta hitann rjúka burt svo að ég notaði grillpönnu við eldamennskuna. En uppskriftin gildir bæði fyrir útigrill og grillpönnu. Þetta er semsagt kjúklingasalat, einfalt, litríkt, bragðgott og örugglega hollt.
Ég byrjaði á að taka 4 frekar litlar kjúklingabringur og velta þeim upp úr blöndu af 2 msk af olíu, 2 msk af sítrónusafa, 2 smátt söxuðum hvítlauksgeirum, pipar og salti , og lét þetta liggja í maríneringunni í svona klukkutíma í kæli. Tók þær svo út og lét þær vera í nokkra stund við stofuhita.
Á meðan bringurnar voru að marínerast gerði ég bláberjasósuna á salatið. Ég setti 4 msk af ólífuolíu, 50 g af bláberjum, 1 msk af ósykraðri bláberjasultu (nú, eða einhverri annarri sultu), 1 tsk af dijonsinnepi og 1 msk af balsamediki í matvinnsluvélina …
… bætti við nokkrum timjangreinum (söxuðum ef þær eru mjúkar, bara blöðunum ef stönglarnir eru harðir, en svo mætti líka nota 1/2 tsk af þurrkuðu timjani) og dálitlu pipar og salti.
Og lét svo vélina ganga þar til þetta var allt vel maukað saman.
Ég tók líka þrjár stórar mandarínur (mætti líka nota sætar og 1-2 safaríkar appelsínur), skar af þeim endana og skar svo börkinn (gula og hvíta) utan af með hníf og skar mandarínurnar í bita.
Svo hitaði ég grillið – eða grillpönnuna í þessu tilviki – og grillaði/steikti bringurnar við meðalhita í 7-8 mínútur á hvorri hlið …
… eða þar til þær voru rétt eldaðar í gegn. Þá tók ég þær af pönnunni/grillinu og lét standa í nokkrar mínútur og kólna dálítið.
Ég hitaði ögn af sósunni í litlum potti, setti lófafylli af bláberjum út í og lét sjóða í nokkrar mínútur, þar til bláberin voru mjúk. Það má líka sleppa þessu og nota berin bara eins og þau koma fyrir. Ég setti þau svo í skál (eða á fat) ásamt mandarínunum og 75-100 g af klettasalati og blandaði saman.
Svo skar ég kjúklingabringurnar í sneiðar þvert yfir og blandaði þeim saman við salatið – það má líka raða þeim ofan á.
Loks stráði ég 75 g af muldum fetaosti yfir salatiðog dreypti síðan dálitlu af sósunni yfir allt saman.
Bar svo afganginn af sósunni fram með.
*
Kjúklingasalat með mandarínum og bláberjum
3-4 kjúklingabringur
2 msk olía
2 msk sítrónusafi
2 hvítlauksgeirar
pipar
salt
3 mandarínur
100 g klettasalat eða önnur salatblöð
lófafylli af bláberjum
75 g fetaostur
*
Bláberjasósa
4 msk ólífuolía
50 g bláber
1 msk bláberjasulta (eða önnur sulta)
1 tsk dijonsinnep
1 msk gott balsamedik
nálar af nokkrum timjangreinum eða ½ tsk þurrkað timjan
pipar
salt