Þú ert minn súkkulaðiís …

Ég er svo góð við fjölskylduna mína. Stundum. Þau eru mismunandi matvönd – bæði mismunandi mikið og á mismunandi fæðutegundir – og það kemur alveg fyrir að ég eltist svolítið við sérviskurnar þeirra þótt ég ætti náttúrlega ekkert að vera að því. Ég er svo góð mamma/amma.

Sjálf er ég nokkurnveginn laus við alla matvendni og til skamms tíma borðaði ég nánast hvað sem var þótt mér þætti það auðvitað misgott. Það hefur breyst aðeins síðasta hálft annað árið því að ég borða ekki lengur sykur nema þann sem er í ávöxtum og þess háttar, eins og líklega hefur ekki farið framhjá neinum. Sama gildir um dóttur mína. Aðrir fjölskyldumeðlimir borða hins vegar sykur með bestu lyst.

-Lífið var betra á meðan þið borðuðuð enn sykur, segir sonurinn stundum og stynur.

Það er nú samt hann sem er vandamálið, sko. Af því að þegar ég baka kökur og geri eftirrétti og annað þar sem ég vil hafa einhverja sætu, þá nota ég gjarna annaðhvort vel þroskaða banana eða döðlur, gráfíkjur eða aðra þurrkaða ávexti. Hann borðar ekkert af þessu …

Það ætti náttúrlega að vera hans vandamál en ég vil nú vera góð við hann líka og þegar fjölskyldan er í mat og það er eftirréttur geri ég gjarna tvær útgáfur: eina með sykri en engum döðlum (eða banönum eða whatever) og eina með döðlum en engum sykri. Smávegis aukavesen en ekkert sem góð mamma telur eftir sér … er það nokkuð?

Allavega, í dag er hvítasunna og ég fór á opnunina á kosningaskrifstofunni hjá Guðna Th. af því að ég ætla að kjósa hann og þar voru allskonar tertur og bakkelsi og það kveikti hjá mér löngun í eftirrétt. Svo að ég fór heim og gerði súkkulaðiis. Eða tvo, annan semsagt með sykri en engum döðlum en hinn með döðlum en engum sykri … Og hér er hann. Hinn kemur kannski seinna.

_MG_0974

Ég byrjaði á að steinhreinsa 12 mjúkar döðlur og setja í matvinnsluvélina ásamt kúfaðri matskeið af möndlusmjöri. Heimagerðu, en það má alveg nota (sykurlaust) möndlusmjör úr búð eða hnetusmjör – eða sleppa því bara.

_MG_0975

Ég maukaði þetta saman og þeytti svo tveimur eggjum saman við.

_MG_0979

Og síðan hrærði ég vel kúfaðri matskeið af kakódufti saman við ásamt 1 tsk af vanilluessens.

_MG_0983

Þá var blandan orðin svona.

_MG_0985

Ég stífþeytti svo 200 ml af rjóma og blandaði saman við með sleikju – ekkert sérlega vel því þetta fór svo í ísvélina og þar blandast það saman. En ef ég ætti ekki ísvél hefði ég líklega blandað þar til þetta var einlitt. Nema maður vilji hafa ísinn munstraðan, auðvitað.

_MG_0990

Og svo náði ég í ísvélina, kveikti á henni, hellti blöndunni í hana og lét hana ganga í svona 20 mínútur, eða þar til ísblandan hafði þykknað. En ef ekki er til ísvél má bara hella þesu beint i skál eða box og setja í frysti. Þá er samt betra að taka skálina út á svona hálftíma fresti á meðan ísinn er að frjósa og hræra í, þá eru minni líkur á að ísnálar myndist.

_MG_0991

En ég á ísvél, sem er eins og ég hef oft sagt sjálfsögð eign á hverju menningarheimili. Þegar ég slökkti á vélinni hefði svosem alveg mátt borða ísinn eins og hann kom fyrir en ég setti hann í box og frysti. Það þarf svo bara að taka hann úr frystinum nokkru áður en hann er borinn fram og láta hann mýkjast aðeins.

_MG_1061

Ég hafði jarðarber með ísnum en það er svosem ekki nauðsynlegt. Við sykurlausu mæðgurnar vorum bara býsna ánægðar með hann.

Sykraði ísinn kláraðist líka.

*

Sykurlaus súkkulaðiís

12 döðlur, steinhreinsaðar

kúfuð matskeið af möndlusmjöri eða hnetusmjöri (má sleppa)

2 egg

kúfuð matskeið af kakódufti

1 tsk vanilluessens

200 ml rjómi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s