Tvílit með marglitri þekju

Valentínusareftirréttur, er það ekki eitthvað sem er bara fyrir tvo? Jæja, þessi hér er fyrir mun fleiri en tvo svo að þá er hann líklega ekki viðeigandi Valentínusardesert. En það mætti samt alveg gera minni skammt …

Eiginlega er þetta ostakaka. Eða einhvers staðar á milli ostaköku og trifflis, kannski. Ég gerði þetta fyrir saumaklúbbinn minn í gærkvöldi og þar sem ég vildi hafa eitthvað sem ég gæti nú borðað sjálf (og er heldur ekki sú eina í klúbbnum sem sneiðir hjá viðbættum sykri), þá fellur hann í þann flokk. Döðlur og ferskir ávextir, semsagt. Og ég notaði sykurlaust heimatilbúið granóla í botninn en það er hægt að nota hvaða granólablöndu sem er, þær eru misjafnlega sætar þótt ég hafi átt í erfiðleikum með að finna sykurlausa blöndu á sínum tíma. Enda geri ég alltaf granólað sjálf nú orðið. Það eru uppskriftir í báðum nýjustu bókunum mínum, Sætmeti án sykurs og Létt og litríkt. Svolítið mismunandi en grunnaðferðin er sú sama – grófvölsuð hafragrjón, fræ og hnetur, olía, krydd og stífþeyttar eggjahvítur (það er til að gera granólað stökkara og láta það loða ögn saman). Bakað í ofni við 160°C í svona 25 mínútur og hrært tvisvar eða þrisvar.

En allavega. Ég valdi þetta í og með af því að ég átti tvær dósir af mascarponeosti sem ég þurfti að fara að nota. Innfluttum reyndar en það má alveg nota þann íslenska. Ég tók þær úr kæli svona klukkutíma áður en ég ætlaði að nota þær. Og já, ég gerði ostakökuna með 2-3 tíma fyrirvara, hún þarf að kólna vel.

_MG_8902

Ég ákvað að hafa tvenns konar ostafyllingu svo að ég setti innihaldið úr annarri dósinni (250 g) í matvinnsluvél ásamt 10 steinhreinsuðum döðlum, einni eggjarauðu (ég átti einmitt tvær af því að ég var akkúrat að gera nýjan skammt af granóla) og 1 tsk af vanillu. Maukaði þetta vel saman og setti svo í skál.

_MG_8904

Svo setti ég innihaldið úr hinni mascarponeostinn í vélina ásamt 10 steinhreinsuðum döðlum, einni eggjarauðu, vel kúfaðri matskeið af kakódufti, salti á hnífsoddi og fjórðungi úr teskeið af kanel. Maukaði þetta líka vel saman

_MG_8909

Ég þeytti svo 250 ml af rjóma og blandaði þriðjunginum gætilega saman við ljósari blönduna með sleikju en hinu saman við súkkulaðiblönduna (ég vildi hafa hana aðeins þynnri).

_MG_8906

Granólablandan var enn volg. Ég setti 200 g af henni í skál, setti 50 g af linu smjöri út í og blandaði vel saman við. Það var reyndar mjög auðvelt af því að hún var enn volg og smjörið bráðnaði saman við hana.

_MG_8908

Ég hellti svo öllu saman í víða glerskál með sléttum botni (en það má auðvitað líka nota bökuform eða bara lausbotna smelluform) og sléttaði vel úr.

_MG_8910

Ég setti svo ljósari ostablönduna ofan á granólabotninn. Ég notaði teskeið og setti hana ofan á í litlum doppum, ef hún er sett öll í einu er hætt við að allt fari í hrærigraut. sléttaði svo gætilega úr doppunum með sleikju.

_MG_8914

Svo hellti ég súkkulaðiostablöndunni yfir ljósu blönduna …

_MG_8916

… og sléttaði úr henni.

_MG_8937

Svo dreifði ég ávöxtum og berjum yfir. Það má nota hvað sem er en ég var með tvær nektarínur, hindber og bláber.

_MG_8952

Svo breiddi ég plastfilmu yfir og kældi ostakökuna vel áður en ég bar hana fram. Það má hafa þeyttan rjóma með en mér finnst það nú óþarfi.

*

Tvílit ostakaka með ávöxtum

200 g granóla, heimalagað eða keypt

50 g smjör, lint

500 g mascarponeostur (2 dósir)

2 eggjarauður

20 döðlur, steinhreinsaðar

1 tsk vanilluessens

kúfuð matskeið af kakódufti, eða eftir smekk

1/4 tsk kanell

salt á hnífsoddi

250 ml rjómi

ber og ávextir eftir smekk

One comment

Færðu inn athugasemd við Fjölnota blanda – Konan sem kyndir ofninn sinn Hætta við svar

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s