Balsamgljáð og silkimjúkt

 

Ég sleppti fiskinum í gær, enda var sprengidagur. Reyndar velti ég snöggvast fyrir mér að bjóða upp á saltfisk og baunir í staðinn fyrir saltkjöt og baunir. Það hefði nú aldeilis gefið fjölskyldunni tilefni til fjölda nýrra kvartana. Það er nefnilega hefð hér á bæ að kvarta yfir öllu hugsanlegu sem tengist matnum á sprengikvöldið. Kjötið of feitt eða of mikið af beinum í því eða of lítið eða of mikið, súpan er of þykk eða þunn eða of heit eða of sölt eða ekki nógu sölt, það er of mikið af þessu grænmeti og of lítið af hinu eða öfugt, súpudiskarnir eru of litlir eða súpuausan of stór. Og ótalmargt annað.

En ekki misskilja – fjölskyldan borðar matinn af bestu lyst og er þakklát fyrir. Kvartið er bara fjölskyldutradisjón og ég bendi þeim jafnvel á eitt og annað sem þau hafa ekki tekið eftir en gæti verið umkvörtunarefni. Ég held samt að saltfiskur hefði verið aðeins of mikið, það hefði getað orðið alvörukvart.

Svo var reyndar baunasúpuafgangur í kvöld, sonurinn kominn frá því að heimsækja spúsu sína í Cambridge og varð nú að fá eitthvað, greyið. Og það var smávegis eftir. Hann kvartaði ekkert, enda er sú hefð bundin við sprengidaginn en ekki baunasúpuna. Og annað kvöld er ég að fara út að borða og efast um að ég fái fisk – í aðalrétt allavega. Svo að það verður stíft fiskát í næstu viku til að jafna þetta kjötsukk út …

En það er ekki baunasúpuuppskrift núna, ónei, heldur fiskréttur sem ég eldaði á föstudaginn var. Ég átti til steinbítsstykki, þykkt en ekki ýkja stórt um sig, um 350 grömm – passlegt fyrir tvo eða í matinn handa mér tvisvar. Ég hefði tekið afganginn með mér í nesti í vinnuna en þar sem ekki var vinnudagur næsta dag steikti ég allan fiskinn, geymdi hluta hans, skar svo niður í bita daginn eftir og notaði í eggjaköku, með kryddjurtum og tómötum.

_MG_8435

En þetta snýst um föstudagsmatinn. Ég nennti ómögulega út í kuldann þegar ég var nú einu sinni komin heim til að kaupa meðlæti svo að ég gáði í ísskápinn. Þar fann ég tvær nípur (parsnips), ekkert sérlega stórar (þessar sem fást núna eru flestar of stórar en það hefði reyndar ekki skipt máli hér). Svo var til stór rauðlaukur (það má líka nota tvo minni) og salatblanda í poka. Ég sá að ég þyrfti ekkert út í búð.

Ég byrjaði á að hita 1 msk af olíu á pönnu. Skar niður rauðlaukinn niður, setti á pönnuna ásamt pipar og salti og lét krauma við fremur vægan hita í 10-15 mínútur. Hrærði í öðru hverju.

 

_MG_8433

Á meðan tók ég nípurnar og snyrti þær og flysjaði með flysjunarjárni. (Nei, flysjunarjárn er ekki nauðsynlegt. Já, ég mæli eindregið með því. Það kostar heldur ekki mikið).

_MG_8434

Svo skar ég nípurnar í bita, setti í pott með saltvatni og sauð þar til nípurnar voru vel meyrar. Ég man ekki alveg hvað það tók langan tíma, kannski 10 mínútur (fer líka eftir stærð bitanna).

_MG_8437

Ég setti líka 150 ml af mjólk í lítinn pott ásamt nokkrum piparkornum og lítilli rósmaríngrein (það mætti líka nota t.d. þurrkað rósmarín, eða þá timjan). Hitaði að suðu en slökkti svo undir pottinum og lét standa nokkra stund til að mjólkin tæki upp bragð af piparnum og rósmaríninu.

_MG_8440

Ég á ágætis balsamedik og hellti 1 1/2 msk af því yfir laukinn á pönnunni. Hrærði vel og lét krauma í svona 2-3 mínútur í viðbót. Svo hellti ég svona 4 msk af vatni á pönnuna og lét sjóða í fáeinar mínútur.

_MG_8449

Ég bræddi á meðan 1 msk af smjöri á pönnu. Kryddaði fiskinn með pipar og salti og steikti hann við meðalhita í svona 3 mínútur á hvorri hlið, eða eftir þykkt.

_MG_8451

Nípurnar voru soðnar og ég hellti vatninu af þeim, setti þær í matvinnsluvélina og maukaði þær. Síaði svo bragðbættu mjólkina og hellti henni smám saman út í þar til maukið var hæfilega þykkt (ekki víst að þurfi að nota alla mjólkina). Ég lét vélina ganga áfram þar til maukið var alveg slétt og mjúkt, smakkaði og bragðbætti aðeins með salti.

_MG_8458

Ég setti svo maukið á disk, dreifði salatblöðum í kring, setti fiskstykki ofan á og svo rauðlaukinn ofan á það.

_MG_8487

Þetta þykir mér góður matur.

*

Steinbítur með balsamgljáðum rauðlauk og nípumauki

350 g steinbítur

1 stór rauðlaukur (eða 2 minni)

1 msk olía

pipar

salt

1 1/2 msk balsamedik

4 msk vatn

*

Nípumauk

250-300 g nípur

salt

150 ml mjólk

nokkur piparkorn

1 lítil rósmaríngrein

salatblöð

 

 

One comment

  1. […] reykt ýsa með beikoni og hvítri sósu, hafrahjúpuð rauðspretta, tómatfiskisúpa með baunum, steinbítur með nípumauki og gljáðum rauðlauk, eggjakaka með steinbít, saltfiskplokkfiskur með spínati, rúsínum og furuhnetum, bleikja með […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s