Núna er súputími. Eða það er að segja, súpuárstími, ég elda mun oftar súpu á veturna en á öðrum árstímum því þótt léttar súpur, fullar af fersku grænmeti, geti verið frábærar á sumrin og aðeins matarmeiri og þyngri súpur eigi vel við vor og haust, þá er veturinn samt sem áður tíminn fyrir heitar og nærandi súpur. Og svo eru súpur bara oftast svo ágætar. Finnst mér.
Reyndar er ekkert svo mikill súputími hjá mér akkúrat núna því þessi mánuður er fiskbrúar eins og ég hef áður sagt og ég hef bara eldað eina fiskisúpu – jú, og svo nípusúpu þegar saumaklúbburinn kom í mat á dögunum. Annars er það bara fiskur af ýmsu tagi – reykt ýsa með beikoni og hvítri sósu, hafrahjúpuð rauðspretta, tómatfiskisúpa með baunum, steinbítur með nípumauki og gljáðum rauðlauk, eggjakaka með steinbít, saltfiskplokkfiskur með spínati, rúsínum og furuhnetum, bleikja með tagliatelle og kúrbítsrjómasósu, grilluð túnfisksteik með mangósalsa, rækjur í kókskarrísósu, hlýri með byggsalati, langa með bökuðu butternutgraskeri og tvenns konar kartöflum, bleikja með pintóbaunum og blómkáli í rjómasósu, steiktar fiskibollur með steiktum kartöflum, kirsiberjatómötum og pestói … Sagði einhver að fiskur væri alltaf eins eða leiðigjarn??
Einhverjar þeirra uppskrifta sem ég er ekki búin að birta koma nú seinna. En núna er það súpa og ekki einu sinni fiskisúpa, heldur tómatsúpa með fenniku, baunum og lauk. Uppskriftin birtist fyrst í janúarblaði MAN.
Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 220°C. Svo tók ég 250 g af fenniku og sama magn af lauk og skar hvorttveggja í þunnar sneiðar.
Ég setti þetta svo í skál ásamt 2 msk af ólífuolíu og blandaði vel til að þekja grænmetið olíu. Dreifði því svo á pappírsklædda bökunarplötu og bakaðu í miðjum ofni í 20-25 mínútur. Hrærði einu sinni eða tvisvar til að snúa grænmetinu.
Ég tók svo eina dós af baunum – ég var með blandaðar baunir sem fást m.a. í Krónunni en það má nota ýmsar tegundir, t.d. nýrnabaunir, pintóbaunir eða kjúklingabaunir – hellti þeim í sigti og lét renna af þeim.
Svo dreifði ég baununum jafnt yfir grænmetið og bakaði í 15 mínútur í viðbót.
Á meðan opnaði ég eina dós af maukuðum tómötum, setti í pott ásamt 600 ml af vatni og 1 msk af kjúklingakrafti (eða grænmetiskrafti ef þetta á að vera fyrir grænkera) og hitaði að suðu. Setti svo bakaða grænmetið og baunirnar út í og kryddaði með pipar og salti. Ég lét þetta sjóða í um 5 mínútur, smakkaði svo og bragðbætti eftir þörfum.
Að lokum setti ég væna lúkufylli af spínati út í (en það má alveg sleppa því) og lét malla í 2 mínútur í viðbót.
Svo er bara að bera súpuna fram með brauði.
Tómatsúpa með fenniku og baunum
250 g fennika
250 g laukur
2 msk ólífuolía
1 dós baunir (blandaðar eða t.d. kjúklingabaunir)
1 dós maukaðir tómatar
600 ml vatn
1 msk grænmetis- eða kjúklingakraftur
pipar
salt
lúkufylli af spínati (má sleppa)
[…] taldi upp hér hvaða fiskrétti ég var búin að elda í mánuðinum fram að þeim degi og síðan þá er ég búin að hafa […]