Vonda konan

Ég var að lesa yfir texta þar sem var eiginlega fullyrt að allir sem borðuðu brauð fengju magaslæmsku og þrútnuðu af gerinu í því. Þar sem ég er svo ónæm fyrir eigin líðan að ég hef aldrei tekið eftir þessum magaverkjum og hélt að ég væri bara feit en ekki þrútin baka ég nú stundum gerbrauð eins og ekkert sé. Og ég er að hugsa um að vera svo illgjörn að gefa uppskrift að einu svoleiðis.

Það sem meira er, það eru kartöflur á því, sem eru náttúrlega lika af hinu illa út af öllum kolvetnunum. Já, og ostur, sem er mjólkurafurð og ekki skárri. Og hveiti – heilhveiti reyndar en það er glúten í því.

Hér kemur uppskriftin samt. Ég er vond manneskja.

Annars er þetta ósköp venjuleg og einföld brauðuppskrift, nema að einu leyti. Þegar ég var að gera Hasselback-gratínið sem ég var með uppskrift að hér á dögunum datt mér í hug að útfæra aðeins hugmyndina í brauðuppskrift. Mér fannst það koma nokkuð vel út og hér er uppskriftin:

_MG_3113

Ég byrjaði á að setja 350 ml af ylvolgu vatni og 1 msk af þurrgeri í skál (ég notaði hrærivélina) og lét standa í nokkrar mínútur. Svo blandaði ég saman 300 g af heilhveiti, 250 g af brauðhveiti, 2 tsk af salti og 2 tsk af þurrkuðu timjani (má alveg vera minna ef maður er ekkert mikið fyrir timjan) og hrærði því saman við gervatnið ásamt 75 ml af ólífuolíu.

_MG_3124

Ég hnoðaði deigið nokkra stund og bætti við hveiti eftir þörfum (líklega tæplega 50 g), en deigið á að vera fremur lint.

_MG_3128

Svo mótaði ég deigið í kúlu, breiddi yfir skálina og lét það lyfta sér í 1-1 ½ klst.

_MG_3140

Ég tók svo 300 g af fremur litlum kartöflum og skar þær í mjög þunnar sneiðar – það er óþarfi að flysja þær, nema ef endarnir eru notaðir. Best er að nota mandólín ef það er til en annars beittan hníf og skera eins þunnt og hægt er. Ég setti svo sneiðarnar í skál með 25 ml af ólífuolíu og velti þeim vel upp úr henni, þannig að hver sneið var þakin olíu.

_MG_3144

Ég sló svo deigið niður, mótaði það í lengju og setti í pappírsklætt jólakökuform, meðalstórt. (Sá reyndar eftir á að það hefði mátt vera aðeins stærra, meira um það aðeins neðar.) Svo raðaði ég kartöflusneiðunum ofan á og reyndi að hafa þær ekki flatar, heldur sem mest upp á rönd. Ég lét brauðið lyfta sér í um hálftíma og hitaði á meðan ofninn í 210°C.

_MG_3146

Ég stráði 1/2 tsk af timjani og 1/2 tsk af flögusalti  yfir kartöflurnar …

_MG_3159

… og síðan 40 g af nýrifnum parmesanosti og bakaði brauðið neðst í ofni í 35-40 mínútur. Eftir um 20 mínútur leit ég á brauðið og sá að það hafði lyft sér töluvert í miðjunni og nokkrir auðir blettir voru á brauðinu svo að ég tók það út, færði kartöflusneiðarnar aftur til og stráði aðeins meiri parmesanosti yfir. (Og af því að formið var fulllítið höfðu nokkrar sneiðar hrunið út úr því og á botninn í ofninum.)

_MG_3262

Ég lét brauðið hálfkólna í forminu og setti það svo á grind og lét það kólna alveg.

_MG_3301

Kartöflubrauð

350 ml vatn, ylvolgt

1 msk ger

300 g heilhveiti

um 300 g hveiti

2 tsk salt

2 1/2 tsk þurrkað timjan

100 ml ólífuolía (75 + 25)

300 g kartöflur, fremur litlar (eða eftir þörfum)

½ tsk flögusalt

40 g parmesanostur, nýrifinn

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s