Fjölskyldan kom í mat í gærkvöldi og dóttursonurinn kom fram í eldhús að gá hvað ég væri að elda handa þeim. Fór svo inn í stofu og klagaði mig: „Mamma! Amma er að eitra fyrir okkur! Hún er að elda rauðsprettu!“ Blessaður drengurinn er ekkert óskaplega mikið fyrir fisk og finnst fiskimánuður ömmunnar ekki góð hugmynd. Hann borðaði samt ágætlega af rauðsprettunni, enda vissi hann af súkkulaðibúðingi í eftirmat.
Það kemur þó ekki rauðsprettuuppskrift núna, og ekki beint fiskuppskrift þótt úr sjónum sé. En ég gerði indverskan þátt fyrir MAN sem er í búðum núna (febrúarblaðið semsagt) og þar er kjúklingakarríréttur, blómkáls- og kjúklingabaunaréttur, kókoskarrífiskur frá Goa, indverskt grænmetissalat, rauð krydduð linsubaunasúpa, mangóbúðingur með kardimommum og naanbrauð. Og svo átti að vera þar líka rækjuréttur en það var ekki pláss svo að honum var sleppt. Þannig að hann kemur bara hér núna (og svo mæli ég með að þið kaupið bara blaðið, nú eða gerist áskrifendur – ég er búin að plana fullt af skemmtilegum og góðum réttum fyrir næstu blöð, sko).
Allavega, þessi uppskrift er ættuð frá Keralafylki á Suður-Indlandi, þar sem vel kryddaðar kókoskarrísósur eru mjög vinsælar. Í staðinn fyrir rækjur mætti nota kjúkling eða bara forsoðið grænmeti, svo sem blómkál, gulrætur og kúrbít. En hér er rétturinn með rækjum.
Ég var með 400 g af stórum rækjum, hráum en skelflettum, sem ég hafði látið þiðna í umbúðunum. Hellti svo vökvanum sem hafði safnast fyrir í pokanum í skál og geymdi hann. Svo setti ég rækjurnar í skál ásamt safa úr einni límónu, stráði 1 tsk af túrmeriki yfir, hrærði og lét standa smástund.
Ég hitaði 2 msk af olíu á pönnu og saxaði tvo rauðlauka, tvo eða þrjá hvítlauksgeira, tveggja eða þriggja sentímetra bút af engiferrót, skar eitt rautt chilialdin í þunnar sneiðar og setti þetta allt á pönnuna ásamt einni kanilstöng, hálfri teskeið af túrmeriki og fræjunum úr fjórum eða fimm kardimommum. Lét þetta allt krauma við meðalhita í nokkrar mínútur.
Svo hrærði ég einni teskeið af kummini saman við ásamt dálitlu salti og síðan hálfri dós af kókosmjólk og vökvanum af rækjunum, sem ég hafði geymt. Lét þetta malla í nokkrar mínútur, smakkaði og bragðbætti eftir þörfum.
Svo setti ég rækjurnar út í og skar að lokum væna lúkufylli af spínati í ræmur og setti það út í sósuna. Lét þetta malla í um 2 mínútur, eða þar til rækjurnar voru rétt eldaðar í gegn.
Ég bar þetta svo fram með soðnum hrísgrjónum og hafði límónubáta með.
*
Indverskur rækjuréttur
400 g stórar rækjur, skelflettar en hráar
safi úr 1 límónu
1 1/2 tsk túrmerik
2 msk olía
2 rauðlaukar, saxaðir
2–3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
2–3 cm biti af engifer, saxaður smátt
1 rautt chilialdin, skorið í þunnar sneiðar
1 kanelstöng
fræin úr 4–5 kardimommum
1 tsk kummin
salt
1/2 dós kókosmjólk
lögurinn af rækjunum
lúkufylli af spínati (má sleppa)
límónubátar