Einhversstaðar var ég að lesa nýlega grein eða eitthvað um hvað það væri nú rosalega skynsamlegt út frá alls konar sjónarmiðum að plana matseðilinn fyrirfram. Viku eða jafnvel lengra fram í tímann. Ég hef lesið margar svona greinar. Jafnvel skrifað eitthvað um þetta sjálf einhverntíma, ég man það ekki. Og þetta er alltsaman hárrétt og liggur í augum uppi.
En ég geri þetta ekki sjálf. Ég er bara ekki svoleiðis innréttuð, ég get þetta ekki. Jújú, það kemur alveg fyrir að ég ákveð að á sunnudaginn ætla ég að elda þetta – og geri það svo meira að segja. Og ég kaupi oft í matinn fyrir tvo eða þrjá daga í einu. En að plana matseðilinn til lengri tíma, það get ég bara ekki. Eða geri allavega ekki, ég gæti það kannski ef ég reyndi, en mig langar bara ekki til þess.
Ég er nefnilega þannig innréttuð að mér finnst langmest gaman að spila af fingrum fram í eldhúsinu. Og ég er sjaldnast búin að ákveða hvað ég ætla að elda þegar ég kem í búðina, kaupi eitthvað sem mér líst vel á, ákveð stundum hvað ég ætla að elda þegar ég er búin að sjá út aðalhráefnið og kaupi svo annað hráefni í samræmi við það, en oftar en ekki kaupi ég bara eitthvað sem mér flýgur í hug þá stundina og ákveð svo út frá því (og öðru sem ég á heima) hvað ég ætla að elda, annaðhvort í strætó á heimleiðinni eða þegar heim er komið. Skynsamlegt? Nei, en ég geri þetta af því að mér finnst gaman að því. Það er ákveðin áskorun í þessu og neyðir mann stundum til að hugsa aðeins út fyrir rammann. (Ekki að ég sé með mikla ramma í eldamennskunni svosem.)
Fyrir suma væri kannski miklu dýrara að gera þetta svona, kaupa inn nánast af handahófi – en ekki fyrir mig því ég get alltaf notað það sem ég kaupi og er ekki bundin við uppskriftir, nota oft bara það sem ég á til frekar en að kaupa það – mér dytti til dæmis ekki í hug að kaupa graslauk á 17.450 krónur kílóið eins og Neytendasamtökin voru að benda á í dag. Ef ekki er sumar og hægt að fá hann frítt úti í garði nota ég bara vorlauk eða eitthvað annað.
En í dag tókst mér nú að ákveða þegar ég var að rölta í Krónuna eftir vinnu hvað ætti að vera í kvöldmatinn, svona nokkurn veginn. Fiskur auðvitað, en úrvalið af honum er ekki mikið í Krónunni. Ég þóttist þó vita að það væri til lax svo að ég ákvað að hafa sterkkrydduð laxabuff. Ég keypti 600 g af laxi (sonurinn að koma í mat), það var reyndar minnsta stykkið sem ég fann, og svo keypti ég engiferbita og vorlauk. Þóttist viss um að ég ætti svo eitthvað heima sem ég gæti notað.
Ég fór svo að leggja drög að uppskriftinni í strætó og bölvaði sjálfri mér fyrir að hafa ekki athugað hvort til væri panko-rasp því það vissi ég að ég átti ekki til heima. En ég átti tekex svo að þegar heim kom tók ég 10-12 kökur (kringlóttar Carr’s Original), grófmuldi þær, henti þeim í matvinnsluvélina og malaði fínt. Hellti svo raspinu á disk.
Svo skar ég laxinn í bita og setti í matvinnsluvélina. Saxaði líka tvo hvítlauksgeira, tvo vorlauka, 5 cm bút af engifer og eitt rautt chilialdin og setti út í.
Bætti við þetta tveimur teskeiðum af rauðu taílensku karrímauki (red curry paste, má nota minna eða sleppa annaðhvort karrímaukinu eða chilialdininu) sem ég átti til og einni matskeið af sojasósu og lét vélina ganga þar til allt var saxað vel saman en samt ekki alveg orðið að farsi.
Meira bara svona. Það ætti ekki að þurfa pipar og salt í þetta en það gæti verið gott að taka smábita og steikja til að athuga hvort þarf að bæta við einhverju (t.d. meira chili eða karrímauki en þetta er nú nógu sterkt fyrir flesta).
Svo skipti ég þessu í átta álíka stóra hluta, mótaði hvern um sig í buff og velti þeim upp úr kexmylsnunni. Þau eru frekar lin og það er gott að setja þau á bretti þegar búið er að velta þeim upp úr mylsnunni og móta þau betur til að gera þau fallega kringlótt.
Svo hitaði ég 2-3 msk af olíu á pönnu, setti buffin á hana og steikti þau í svona 2-2 1/2 mínútu á hvorri hlið við meðalhita.
Það þarf að renna spaða gætilega undir þau til að snúa þeim en þau voru þó þéttari í sér en ég hafði búist við og ekkert þeirra brotnaði neitt við steikinguna.
Ég gerði svo majónes úr einni eggjarauðu, hálfum hvítlauksgeira, hálfri teskeið af rauðu karrímauki, safa úr hálfri límónu, svolitlu salti (allt þeytt vel saman með töfrasprota) og líklega svona 150 ml af olíu. Þynnti majónesið með köldu vatni og bar fram með buffunum, ásamt soðnum hrísgrjónum og spínati (af því að það var það sem ég átti til).
Þetta var gott, sagði sonurinn. Og það segir hann nú ekki alltaf um fiskmeti.
*
Chilikrydduð laxabuff
600 g lax
2 hvítlauksgeirar
2 vorlaukar
5 cm bútur af engifer
1 rautt chilialdin
2 tsk rautt karrímauk
1 msk sojasósa
10-12 tekexkökur (eða rasp, gjarna panko-rasp)
2-3 msk olía til steikingar
*
Kryddað majónes
1 eggjarauða
1/2 hvítlauksgeiri
safi úr 1/2 límónu
1/2 tsk rautt karrímauk, eða eftir smekk
salt
150 ml olía (sirka, ég mældi ekki)
kalt vatn eftir þörfum
[…] og grænu pestói, þorsk í karrísósu með naanbrauði, steikta rauðsprettu með smjörbaunum, chilikryddað laxabuff með krydduðu majónesi, pekanhnetuþakinn hlýra með sætum kartöflum og steinseljupestói, rækjusalat með mangói, […]