Veturinn er kannski ekki sá tími sem fólk tengir mest við grænmeti en samt eru ýmsar grænmetistegundir sem eru upp á sitt besta á veturna og fást jafnvel ekki á öðrum árstímum. Ein þeirra er rósakál, þessir litlu, skemmtilegu kálhausar sem sumir tengja við jólin og mörgum Bretum þykir t.d. ómissandi á jólaborðið.
Rósakál fæst enn í búðum, sumstaðar allavega, en ef það er ekki til má reyndar alveg nota niðurskorið hvítkál eða aðrar káltegundir í þennan rétt. Þetta er mjög einföld en góð uppskrift sem birtist fyrst í janúarblaði MAN.
Ég notaði kjúklingalæri (án leggs) í réttinn; var reyndar bara með fimm, því það er magnið sem oftast er í hverjum bakka, en ef maður er að elda fyrir fjóra, eins og uppskriftin er eiginlega miðuð við, væri best að hafa tvö á mann.
Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C. Kryddaði svo lærin með pipar og salti.
Ég hitaði 1 msk af ólífuolíu á stórri, þykkbotna pönnu. Setti lærin á hana, lét haminn snúa niður og steikti við meðalhita í 15-20 mínútur, eða þar til hamurinn er fallega gullinbrún. Hreyfði ekkert við bitunum, lét þá bara steikjast alveg ótruflaða.
Ég snyrti svo 250 g af rósakáli, skar aðeins neðan af stilknum og fjarlægði sölnuð blöð. Ef einhverjir kálhausanna eru í stærra lagi getur verið best að skera þá í tvennt. Ég tók svo þrjú epli – var reyndar með sitt í hverjum lit, Granny Smith, Golden Delicious og McIntosh (minnir mig; allavega lítið og rautt). Skar þau í tvennt, kjarnhreinsaði þau og skar þau svo í 4-5 mm þykkar sneiðar.
Ég hellti 2 msk af ólífuolíu í skál og kryddaði með dálitlum pipar og salti. Setti eplasneiðarnar og kálið út í og blandaði vel til að þekja allt með olíu.
Svo dreifði ég öllu saman á pappírsklædda bökunarplötu eða í ofnskúffu og bakaði í miðjum ofni í 25 mínútur eða svo, þar til rósakálið var orðið meyrt og eplin farin að brúnast svolítið.
Einhverntíma á meðan þetta var í ofninum sneri ég kjúlingalærunum og steikti þá í 15 mínútur á hinni hliðinni, áfram við meðalhita. Hreyfði annars ekkert við þeim.
Þegar ég gerði þetta var kjúklingurinn tilbúinn eiginlega á sama tíma og eplin og rósakálið – en ef það er ekki gerir það ekkert til, hvort heldur sem er þolir alveg að bíða dálítið.
Ég hellti svo kálinu og eplunum í skál og lét kólna smástund. Blandaði svo klettasalati saman við og bar fram með kjúklingnum.
Kjúklingur með rósakáli og eplum
*
5-8 kjúklingalæri (án leggs)
pipar
salt
3 msk ólífuolía
250 g rósakál
2-3 epli, gjarna mismunandi lit
75 g klettasalat