Bolla, bolla

Það eru ekki margir dagar eftir af „fiskbrúar“ þótt febrúar sé vissulega einum degi lengri en vanalega og þetta hefur gengið mjög vel, hefði kannski eftir á að hyggja átt að reyna að elda fleiri fisktegundir en fjölbreytnin í réttunum hefur samt verið alveg ágæt, held ég.

En það er nú ekki eins og ég hætti að borða fisk um mánaðamótin, fiskidögunum fækkar bara úr fimm eða sex á viku niður í svona þrjá, eins og venjulega. Líklega væri samt fiskur oftar í matinn ef úrvalið væri betra í stórmörkuðunum þar sem ég kaupi oftast í matinn. Þar er sjaldan annað til en ýsa og stundum þorskur, lax og bleikja.

Af þessum fiskum þykir mér ýsan langsíst, nema þá þegar hún er reykt, og kaupi hana sjaldan. Ef ekkert annað er í boði læt ég hana þó stundum duga en nota hana þá oftar en ekki í fiskibollur eða annað slíkt. Og það var einmitt það sem ég gerði í síðustu viku þegar nokkur ýsuflök voru það eina sem fékkst í búðinni sem ég fór í. Ég keypti minnstu pakkninguna, svona 300 grömm. Og ég ákvað þegar heim var komið að búa til bollur.

Uppskriftin er fyrir tvo, sirkabát.

Með þeim ákvað ég að hafa kartöflubáta svo að ég byrjaði á að setja litlar kartöflur í pott og sjóða þær. Þegar þær voru orðnar meyrar hellti ég vatninu af þeim og lét mesta hitann rjúka úr þeim.

_MG_9560

Svo skar ég ýsuna í bita og grófsaxaði siðan hálfan lítinn lauk, einn hvítlauksgeira og einn eða tvo vorlauka (en þeim má alveg sleppa). Ég setti svo laukana í matvinnsluvélina og saxaði þá og bætti svo við ýsunni, ásamt rifnum berki af hálfri sítrónu, og lét vélina ganga þar til komið var nokkuð fínt fars.

_MG_9562

Svo setti ég eitt egg út í, ásamt 3-4 msk af möndlumjöli, pipar, salti og cayennepipar á hnífsoddi. Ástæðan fyrir möndlumjölinu er að ég var beðin um uppskrift að glútenlausum fiskibollum. En það má alveg nota hveiti.

_MG_9563

Ég maukaði þetta svo saman. Vegna möndlumjölsins varð farsið svolítið grábrúnt en ekkert verra fyrir það. Ég vildi hafa farsið hæfilega þykkt til að mögulegt væri að rúlla bollur úr því með lófunum (en þó ekki þurrt). Ef það er of þykkt má bæta við hálfu til einu eggi, eða þá mjólk eða rjóma; ef það er of þunnt má bæta við meira möndlumjöli eða hveiti.

_MG_9565

Svo rúllaði ég frekar litlar bollur úr farsinu. Hitaði 2 msk af ólífuolíu á pönnu og steikti bollurnar við ríflega meðalhita á öllum hliðum þar til þær voru steiktar í gegn. Kannski svona 2 mínútur á hlið.

_MG_9567

Ég skar kartöflurnar í báta og setti þær á pönnuna með bollunum (eða á aðra pönnu ef ekki er pláss á bollupönnunni). Steikti þær með og sneri þeim eftir þörfum.

_MG_9570

Að lokum setti ég kirsiberjatómata á pönnuna og steikti þá með seinustu 2 mínúturnar eða svo.

a_MG_9572

Á meðan gerði ég svo basilíkusósu til að hafa með bollunum: Setti knippi af basilíku í matvinnsluvélina, ásamt 2-3 hvítlauksgeirum og svona 4 msk af fræblöndu (salatblöndu: graskersfræ, sólblómafræ, furuhnetur). Bætti við safa úr 1/2 sítrónu, pipar og salti, maukaði þetta saman og hellti svo 150 ml af ólífuolíu saman við smátt og smátt og lét vélina ganga á meðan.

_MG_9581

Svo setti ég bollurnar, kartöflurnar og tómatana á fat og bar basilíkusósuna fram með.

_MG_9608

Fiskibollur með kartöflubátum, tómötum og basilíkusósu

300-400 g kartöflur

300 g ýsuflak

½ lítill laukur

1 hvítlauksgeiri

1-2 vorlaukar (má sleppa)

rifinn börkur af ½ sítrónu

1 egg

3-4 msk möndlumjöl eða hveiti

pipar

salt

cayennepipar á hnífsoddi

2 msk olía til steikingar

150 g kirsiberjatómatar

*

Basilíkusósa

1 basilíkuknippi

2-3 hvítlauksgeirar

4 msk fræblanda

safi úr ½ sítrónu, eða eftir smekk

pipar

salt

150 ml ólífuolía

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s