Reykt og steikt

Jæja, það er hlaupársdagur og um leið síðasti dagurinn í „fiskbrúar“, því að eins og áður hefur komið fram ákvað ég um síðustu mánaðamót að borða aðallega fisk í þessum mánuði. Ekki af því að fiskneysla mín sé yfirleitt lítil, öðru nær, ætli ég borði ekki að jafnaði fisk svona þrisvar í viku – en mig langaði bara að prófa að borða fisk næstum upp á hvern dag og athuga hvort ég yrði nokkuð leið á því. Og það var nú aldeilis ekki. (Og nei, ég valdi ekki febrúar af því að hann er styttri en hinir.)

Það stóð þó aldrei til að borða ekkert annað en fisk. Til dæmis var nú sprengidagur, ég held ég hefði ekkert farið að bjóða fjölskyldunni upp á saltfisk og baunir þann daginn (kannski næsta ár, hver veit?) og svo vissi ég að sonurinn yrði mikið í mat hjá mér þennan mánuðinn og þótt hann borði fisk með bestu lyst verður hann nú að fá eitthvað annað líka, blessaður. Að ekki sé talað um dóttursoninn; hann kom í mat í gær, nýbúinn að vinna þrjá Íslandsmeistaratitla í sínum aldursflokki í frjálsíþróttum, þrenn silfurverðlaun og eitt brons – svoleiðis verðlaunar montin amma með steiktum andalærum, sætkartöflum og „dauðu djöflunum“. Ekki með fiski.

Ég taldi upp hér hvaða fiskrétti ég var búin að elda í mánuðinum fram að þeim degi og síðan þá er ég búin að hafa fiskmúffur með tómatsósu, blálöngu á spaghettíi með sykurbaunum og grænu pestói, þorsk í karrísósu með naanbrauði, steikta rauðsprettu með smjörbaunum, chilikryddað laxabuff með krydduðu majónesi, pekanhnetuþakinn hlýra með sætum kartöflum og steinseljupestói, rækjusalat með mangói, avókadói og rauðrófuspírum, þorskgratín með ólífum og tómötum, reykta ýsu með spínati, ólífum og kaperssósu, súpu með reyktri ýsu, maís og vorlauk, og í dag var svo portúgalskur saltfiskur með kartöflum, eggjum og ólífum. Ég held að þetta séu 23 réttir og svo borðaði ég tvisvar úti í hádeginu, fisk auðvitað, svo að ég held ég geti fullyrt að ég hafi borðað fisk sex daga í viku að meðaltali þennan mánuðinn.

Og er ég orðin leið á fiski? Ónei. Það verður fiskur í matinn á morgun, nema ef sonurinn kemur í mat.

Og hér er fiskuppskrift. Reyndar með kjötívafi.

_MG_8259

Ég átti semsagt 350 g bita af reyktri ýsu. En ég byrjaði á að taka álíka magn af litlum kartöflum, skera þær í fjórðunga (eða minni bita ef þær eru ekki mjög litlar). Svo tók ég 100 g af beikoni og skar það líka í bita og saxaði 1-2 hvítlauksgeira. Hitaði svo 2 msk af olíunni á pönnu, setti kartöflur, beikon og hvítlauk á hana, kryddaði með pipar og steikti við meðalhita í 15-20 mínútur, eða þar til kartöflurnar voru meyrar. Hrærði oft á meðan.

_MG_8262

Svo skar ég reyktu ýsuna í bita, setti þá í pott ásamt 250 ml af mjólk, nokkrum piparkornum og rósmaríngrein af því að ég átti hana til (má sleppa), hitaði að suðu og lét malla mjög rólega í 3-4 mínútur. Tók pottinn af hitanum og lét hann bíða í nokkrar mínútur.

_MG_8267

Ég tók svo ýsuna upp úr með gataspaða og setti til hliðar (og best að veiða piparkornin líka upp úr eða sía mjólkina). Svo saxaði ég grænu blöðin af 2-3 vorlaukum, setti út í mjólkina og lét malla í nokkrar mínútur. Þykkti svo sósuna með sósujafnara, smakkaði hana og kryddaði aðeins.

_MG_8265

Kartöflurnar voru einmitt orðnar meyrar og beikonið tilbúið.

_MG_8311

Ég bar svo reyktu ýsuna fram með kartöflunum, beikoninu og sósunni. Það var nú ekkert slæmur matur.

*

Reykt ýsa með beikoni, kartöflum og vorlaukssósu

 

350 g reykt ýsa

350 g litlar kartöflur

100 g beikon

1 -2 hvítlauksgeirar

2 msk ólífuolía

pipar

250 ml mjólk

piparkorn

rósmaríngrein (má sleppa)

grænu blöðin af 2-3 vorlaukum

svolítill sósujafnari

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s