Austurlenskt laxasalat

Það er svo mikið talað um lax – eða reyndar frekar laxeldi – þessa dagana að ég verð eiginlega að setja inn uppskrift með laxi. Án þess að í því felist nokkur pólitísk yfirlýsing. Samt ætla ég nú að bæta því við að „Pólverjar og útlendingar“ eru fólk ekki síður en aðrir, hvað sem einhverjum lögfræðingum kann að finnast …

En allavega, þetta er uppskrift að laxasalati, matarmiklu salati á austurlenskum nótum. Reyndar má alveg nota mun minni lax ef því er að skipta og hafa réttinn léttari en eins og ég gerði þetta gæti það verið fullkominn kvöldverður fyrir þrjá til fjóra.

Edamamebaunir fást frosnar en það má líka sleppa þeim eða nota aðrar baunir í staðinn. (Og ef þið þekkið þær ekki eða vantar hugmyndir að því hvað eigi að gera við þær, þá fjalla ég um þær í nýju bókinni minni, Beint í ofninn. Svo ég plöggi hana nú aðeins. Uppskriftin er þó ekki úr henni, hún birtist á sínum tíma í MAN.)

IMG_1066

Ég byrjaði á að taka laxaflak (já, þetta er eldislax), svona kringum 500 g, og krydda það með pipar og salti. Svo hitaði ég 1 msk af olíu á pönnu og steikti laxinn við meðalhita í um 3 mínútur á hvorri hlið, eða eftir þykkt. Lét hann kólna og tók svo roðið af honum og braut hann í bita. Svona sirka munnbitastóra.

IMG_1067

Ég tók svo eitt mangó, vel þroskað, flysjaði það og steinhreinsaði og skar það í bita. Flysjaði líka eitt avókadó og skar það í bita, skar 10-15 cm bút af gúrku í litla teninga. og saxaði einn vorlauk smátt.

Ég hitaði svo vatn að suðu í potti og sauð edamamebaunirnar í um 2 mínútur, lét þær kólna dálítið og fjarlægði svo belgina – það er mjög einfalt að kreista baunirnar úr þeim en þegar ég geri það spýtast alltaf fáeinar baunir langar leiðir svo að ég geri þetta yfirleitt í skál sem ég hef ofan í vaskinum. Ég blandaði þeim svo saman við mangó, avókadó, gúrku og vorlauk.

IMG_1071

Bætti svo við slatta af salatblöðum og hálfu knippi af söxuðu kóríanderlaufi..

IMG_1068

Ég bjó svo til engifersósu á salatið: flysjaði 3 cm bút af engifer og setti í matvinnsluvél (eða blandara) ásamt 1 hvítlauksgeira, 1 msk af hrísgrjónaediki, 1 1/2 tsk af sojasósu og 1 tsk af sesamolíu. Þeytti þetta mjög vel saman, smakkaði og bragðbætti með 1/2 tsk af hunangi (en því má sleppa).

Svo hellti ég sósunni yfir salatið, blandaði vel og dreifði laxabitunum yfir (það má líka blanda þeim saman við).

IMG_1140

Laxasalat með edamame-baunum

Fyrir 4

500 g lax

salt og pipar

1 msk olía

200 g edamamebaunir, frosnar

1 mangó, vel þroskað

1 avókadó, vel þroskað

10-15 cm biti af gúrku

1 vorlaukur

væn lúka af salatblöðum

1/2 krnippi kóríanderlauf

*

Engifersósa

3 cm biti af engifer

1 hvítlauksgeiri

2 msk olía

1 msk hrísgrjónaedik

1 1/2 tsk sojasósa

1 tsk sesamolía

1/2 tsk hunang

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s