Beint í ofninn

Ef þið hafið ekki tekið eftir því, þá var ég að senda frá mér nýja matreiðslubók í síðustu viku … Hún heitir Beint í ofninn og eins og ráða má af nafninu eru allir réttirnir eldaðir í ofni. Þeir eru líka allir einfaldir í undirbúningi, ég miða við að það sé hægt að ljúka honum á meðan ofninn er að hitna (nema maður sé með einhvern túrbó-ofn sem hitnar á svipstundu), setja allt í eldfast mót eða ofnbakka, stínga í ofninn og láta réttinn sjá um sig sjálfan (nema stundum er einhverju sem þarf styttri eldunartíma bætt við eftir nokkra stund) og svo fer maturinn bara beint á borðið.

Hjómar vel, er það ekki? En ekki nóg með það, heldur er bókin stútfull af aukaupplýsingum, fróðleik og allskonar. Byggð upp eins og Maturinn hennar Nönnu, sem ég sendi frá mér fyrir nokkrum árum. Alls konar tilbrigði, fyrir hverja rétturinn er, hvort hægt er að „preppa“ eitthvað, hvað er hægt að gera við afganga og svona, og svo fjalla ég sérstaklega um eitt hráefni úr hverjum rétti og sting upp á alls konar notkunarmöguleikum fyrir það. Hver uppskrift tekur semsagt yfir tvær opnur en ef mann vantar bara uppskrift og nennir ekki að lesa allt blaðrið úr mér er allt sem til þarf á fyrri opnunni.

Uppskriftirnar eru býsna fjölbreyttar – fiskréttir, skelfiskur, kjúklingur, kjöt af ýmsu tagi, grænmetisréttir, veganréttir.

Já, og svo er bókin ódýr líka.

Screen Shot 2018-09-02 at 20.50.56

Hér er semsagt ein uppskrift úr bókinni, ásamt öllum aukaupplýsingum. En öfugt við fyrirkomulagið í bókinni ætla ég að byrja á þeim og enda á uppskriftinni. Að öðru leyti er þetta allt eins og í bókinni og allar uppskriftasíðurnar eru byggðar upp á þennan hátt.

Þetta er semsagt vínberjakjúklingur og hér hefst textinn úr bókinni:

Mörgum finnst það kannski nýstárleg hugmynd að baka vínber en það getur komið mjög vel út, gerir berin sætari, bragðmeiri og satt að segja allt öðruvísi en óbökuð ber. Í rauninni eru þau á leið að breytast í rúsínur – sem eru ekki annað en þurrkuð vínber – en rúsínuhatarar þurfa þó ekkert að óttast, berin eru ekkert sérlega rúsínuleg.

Ég var með lítil vínber sem ég klippti niður í nokkra klasa – en það má líka tína þau öll af stilkunum og bakað þannig – og tíminn sem hér er gefinn upp nægði til þess að þau urðu hrukkótt og voru byrjuð að gefa frá sér safa. Ef notuð eru stærri ber gæti þurft að setja þau heldur fyrr í ofninn. Mér finnst fallegra að vera með tvo eða jafnvel þrjá liti af vínberjum en það skiptir auðvitað engu máli hvað bragðið áhrærir.

Skammtar

Ég notaði fjögur læri, ekki mjög lítil, og fannst það hæfilegur skammtur – en reyndar eru læri oft seld fimm saman í pakka.  Það má minnka eða stækka uppskriftina en best er að nota form sem er vel rúmt og þrengir ekki að kjúklingnum og berjunum.

Undirbúningur

Það er hægt að leggja kjúklinginn í löginn með fyrirvara en það er engin þörf á því. En sé það gert má skera kartöflurnar niður og láta þær liggja með, annars er best að gera það ekki fyrr en rétt áður en þær fara í ofninn.

Tilbreyting

Læri eru best í þennan rétt en það mætti nota bringur; þó þarf að gæta þess að ofsteikja þær ekki. Reyndar er líka hægt að nota heilan kjúkling en hann þarf auðvitað töluvert lengri tíma. Andabringur myndu einnig henta vel og svo er lika hægt að nota meyrt lambakjöt. – Í staðinn fyrir kartöflurnar eða með þeim mætti hafa spergilkál  sem skipt er í kvisti eða rósakál skorið í tvennt – það er þá sett inn um leið og vínberin – eða til dæmis grænkál, skorið í ræmur, eða sveppi. Og í staðinn fyrir basilíkuna mætti hafa timjan eða rósmarín.

Fyrir hverja?

Fyrir alla sem borða fuglakjöt, en svo má líka sleppa kjötinu og hafa í staðinn meira grænmeti (sjá hér á undan) með kartöflunum og vínberjunum; þá hentar rétturinn jafnvel fyrir grænkera, ef hunanginu er sleppt eða síróp notað í staðinn. Rétturinn er glútenlaus og inniheldur ekki egg, mjólkurafurðir eða hnetur – þótt það gæti reyndar verið góð hugmynd að bæta til dæmis pekanhnetum eða heilum möndlum við. Hann er nokkuð kolvetnaríkur.

Meðlæti

Meðlæti ætti að vera óþarft en það gæti verið gott að hafa brauð með til að sjúga upp safann úr forminu, sem kemur í staðinn fyrir sósu. Soðin hrísgrjón eða bygg gætu líka farið vel með.

Geymsla/afgangar

Leifarnar má geyma í tvo til þrjá daga í ísskáp. Það mætti til dæmis taka kjúklinginn af beinunu, skera hann í bita og blanda svo öllum afgöngunum saman við græn salatblöð; eða setja þá á pítsubotn, dreifa muldum fetaosti yfir og baka í ofni; eða skera kjúkling og kartöflur fremur smátt, taka vínberin af stilkunum og blanda öllu saman við soðið kínóa eða kúskús, ásamt söxuðum salatblöðum og muldum hnetum.

(og þá er það uppskriftin.  Með hverri uppskrift er mynd af öllu hráefni sem notað er í réttinn svo að hægt sé að sjá það í einni sviphendingu – þ.e. ef maður fer nákvæmlega eftir uppskriftinni, en svo eru líka leiðbeiningar um alls konar tilbrigði).

Vínberjakjúklingur (9)

(hér er hráefnið í þennan rétt)

Hitaðu ofninn í 225°C. Þerraðu kjúklingalærin og veltu þeim síðan upp úr blöndu af olíu, ediki, hunangi og kryddi. Raðaðu þeim á ofnbakka eða í eldfast mót. Veltu kartöflunum upp úr maríneringunni og dreifðu þeim í kring. Settu vínber og lauk í skálina með afganginum af maríneringunni. Steiktu kjúkling og kartöflur í 20 mínútur.

IMG_3184

Dreifðu þá lauk og vínberjum í kring og bakaðu áfram í 20 mínútur, eða þar til kjúklinurinn er steiktur í gegn og vínberin farin að missa safann.

IMG_3244

(og þá er þetta bara tilbúið)

Vínberjakjúklingur

4-6 kjúklingalæri

3 msk ólífuolía

1 msk balsamedik

1 tsk hunang

1 tsk þurrkuð basilíka

cayennepipar á hnífsoddi

pipar og salt

300 g kartöflur, litlar, skornar í báta

1 rauðlaukur, skorinn í báta

200 g græn vínber

200 g rauð vínber

 

(og eins og ég sagði fjalla ég sérstaklega um eitt hráefni úr hverjum rétti og hér eru það vínber)

Vínber (1)

Vínber

Auðvitað þarf ekkert að segja fólki hvað vínber eru, þau hafa fengist hérlendis í meira en hundrað ár, en það er hægt að gera fleira við þau en tína þau upp í sig af klasanum, nota þau í Waldorfsalat eða bera þau fram á ostabakka. Reyndar er miklu auðveldara að nota vínber í matargerð nú en áður því að ekki er ýkja langt síðan langflest vínber voru með steinum og maður þurfti þá að steinhreinsa þau – oftast með því að skera þau í tvennt og plokka steinana út með hnífsoddi en sumir vildu hafa þau heil og notuðu hárspennu til að ná steinunum úr. Og ef átti að elda þau, til dæmis í vínberjasósu, þurfti stundum að flysja þau. Það má gera með því að hella yfir þau heitu vatni til að losa um hýðið og plokka það af. En nú eru flest vínber sem seld eru í búðum steinlaus og fæstir hafa fyrir því að afhýða þau þótt það sé til bóta ef hýðið er þykkt.

Vínber má meðal annars:

 • Baka í ofni þar til þau eru byrjuð að skorpna og láta síðan kólna og nota í salöt.
 • Baka og bera fram með osti eða á ristuðu súrdeigsbrauði sem smurt er með rjómaosti eða geitaosti.
 • Skera í tvennt og nota í salat, til dæmis með kjúklingi, pekanhnetum, salatblöðum og hreinni jógúrt.
 • Frysta, nokkur saman í klösum eða eitt og eitt, og nota sem frísklegt og hollt nasl í staðinn fyrir sælgæti eða kartöfluflögur og annað snakk.
 • Raða þétt ofan á fyllinguna í böku eða ostaköku og sigta dálítinn flórsykur yfir.
 • Raða á gerdeigsbotn (pítsubotn) sem flattur hefur verið fremur þunnt út og þrýsta létt niður, strá dálitlu timjani eða rósmaríni stráð yfir og baka síðan; einnig mætti nota hvítmyglu- eða blámygluost út á eða strá sykri yfir.
 • Sjóða með sykri (t..d. 300 g af sykri fyrir 1 kg af vínberjum), sía og pressa og safinn soðinn áfram þar til hann byrjar að þykkna í síróp, sem má til dæmis nota á vöfflur eða pönnukökur eða út á ís og ábætisrétti.

One comment

 1. Sæl Nanna,
  Ég er búin að leita víða að þessari bóken hún virðist alls staðar vera uppseld. Veistu hvort hún verður prentun aftur?
  Kveðja Lilja

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s