Mér finnst ég næstum sjá dagamun á gróðrinum þessa dagana, sumt er enn alveg grænt en tré og runnar sem voru algræn fyrir örfáum dögum eru allt í einu orðin gul og brún og rauð. Gróðurinn á svölunum hjá mér er líka aðeins farinn að láta á sjá en þó ekki að ráði. Ég skrepp út á hverju kvöldi og tíni tvö – þrjú ber af hindberjarunnanum, jafnóðum og þau eru fullþroskuð, en á alltaf von á að þetta verði þau seinustu. En viti menn, daginn eftir eru einhver orðin rauð, hvað sem það stendur lengi. Það eru þó nokkur græn ber eftir enn.
En þetta er tími haustgrænmetisins. Ég er reyndar ekki með mikið af því á svölunum – grænkál, rauðkál, dverggulrætur sem ég er búin að taka upp (og búa til pestó úr gulrótalaufinu) og svo salat- og kryddjurtir. Ekkert af því er þó í réttinum sem hér kemur uppskrift að. Hann inniheldur reyndar gulrætur en ég myndi ekki tíma að nota litlu krúttlegu dverggulræturnar mínar í hann, þær eru svo bragðgóðar ef þær eru til dæmis snöggsoðnar og velt upp úr smjöri.
Þetta er samt ágætis pottréttur og hentar fyrir grænkera, einfaldur og frekar fljótlegur. Það má nota ýmislegt annað grænmeti í hann, eftir því hvað er til, en gulrætur, laukur og tómatar verða að vera. Og auðvitað baunirnar, en ég stytti mér leið með því að nota dósabaunir.
Ég byrjaði á að flysja 3-4 gulrætur (það má líka skafa þær) og skar þær í bita. Saxaði tvo sellerístöngla og tvo lauka og saxaði svo tvo hvítlauksgeira mjög smátt. Ég hitaði 200 ml af ólífuolíu (já, ég veit að það er mikið, það má vera minna) í potti, setti grænmetið út í ásamt nokkrum timjangreinum og tveimur lárviðarlaufum og lét þetta malla við fremur vægan hita í 20–25 mínútur, eða þar til gulræturnar voru orðnar meyrar.
Ég opnaði tvær dósir af hvítum baunum (var með cannellini-baunir), hellti þeim í sigti og lét renna af þeim. Svo setti ég þær út í, ásamt einni dós af tómötum.
Ég bætti líka við 200 g af kirsiberjatómötum, af því að ég átti þá og þurfti að nota, en það mætti líka alveg nota bara meira af niðursoðnum tómötum (nú, eða nýjum venjulegum). Kryddaði með pipar og salti og lét malla í 10 mínútur í viðbót.
Svo smakkaði ég þetta og bragðbætti eftir þörfum. Stráði saxaðri steinselju yfir og reif svo sítrónubörk yfir allt saman. Bar þetta fram með góðu brauði.
Grænmetis- og baunapottréttur
3–4 gulrætur
2 sellerístönglar
2 laukar
2 hvítlauksgeirar
200 ml ólífuolía
nokkrar timjangreinar
2 lárviðarlauf
2 dósir hvítar baunir, t.d. cannellini eða smjörbaunir
1 dós tómatar
200 g kirsiberjatómatar
pipar og salt
lófafylli af steinselju
rifinn börkur af 1 sítrónu