Og hér eru svo síðustu fjórar uppskriftirnar af meze-hlaðborðinu (en reyndar á ég fleiri kýpverskar uppskriftir óbirtar, þær koma einhverntíma seinna). Þetta eru allt ídýfur eða mauk.. Allar eru algengar og vinsælar á Kýpur í ýmsum útfærslum en eru síður en svo bundnar við eyjuna og eru þekktar meira og mina við allt austanvert Miðjarðarhafið. Þær eru ekki verri fyrir það …
Allar eru þær ljósar á litinn og frekara sviplíkar þótt bragðið sé ólíkt; þegar ég var að taka myndirnar þurfti ég oftar en einu sinni að smakka til að vera alveg viss um hvað ég væri nú að mynda. Þær eru ekki fyrir grænkera, nema tahini-ídýfan – eða reyndar mætti alveg sleppa jógúrtinni/majónesinu úr eggaldinídýfunni, eða nota t.d. vegan-majónes. En þær eru mjög einfaldar, þótt það þurfi reyndar að rífa gúrkuna og baka eggaldinið.
Efst eggaldinmauk, svo frá vinstri tahiniídýfa, cacik og fetaostsídýfa.
*
Cacik (tzatziki)
15 cm bútur af gúrku
250 g grísk jógúrt
2 msk ólífuolía
1 hvítlauksgeiri, pressaður
3–4 msk mintulauf, söxuð
pipar og salt
Ég reif gúrkuna á grófu rifjárni, setti hana á viskastykki (þarf nokkuð að taka fram að það þarf að vera hreint?) og pressaði úr henni eins mikinn safa og ég gat. Svo hrærði ég gúrkunni saman við hitt hráefnið, smakkaði og bragðbætti eftir þörfum.
*
Eggaldinmauk
1 eggaldin, meðalstórt
olía til penslunar
1/4 laukur, saxaður
1 hvítlauksgeiri, saxaður
2 msk majónes eða grísk jógúrt
safi úr 1/2 sítrónu, eða eftir smekk
pipar og salt
Ég hitaði ofninn í 200°C, penslaði eggaldinið með olíu og bakaði það í 35-40 mínútur, eða þar til það var orðið meyrt. Þá skar ég það í tvennt, skóf innmatinn úr því með skeið og láttu kólna. Setti þetta svo í matvinnsluvél ásamt lauk, hvítlauk og majónesi eða jógúrt og maukaði vel saman. Bragðbætti með sítrónusafa, pipar og salti eftir þörfum.
*
Fetaostsídýfa
100 g fetaostur, helst grískur
75 ml rjómi, eða eftir þörfum
hvítur pipar
Ég muldi fetaostinn og þeytti honum saman við rjóma. Bætti við rjóma eins og þurfti til að maukið yrði silkimjúkt. Kryddaði það með svolitlum hvítum pipar.
*
Tahiniídýfa
4 kúfaðar matskeiðar ljóst tahini
125 ml heitt vatn, eða eftir þörfum
1–2 hvítlauksgeirar, pressaðir
safi úr 1 sítrónu
4 msk matarolía
salt
steinselja (má sleppa)
Ég þeytti tahini og heitt vatn saman í matvinnsluvél (eða hrærivél), ásamt hvítlauk. Svo þeytti ég sítrónusafa og olíu smátt og smátt saman við til skiptis. Ef maukið er mjög þykkt má bæta við aðeins meira vatni. Kryddaði með salti eftir smekk, setti í skál og stráði svolítilli steinselju yfir (en hún er nú mest upp á punt).