Hér eru fleiri norður-tyrkneskar meze-uppskriftir. Ég er mjög hrifin af matargerð landanna við austanvert Miðjarðarhafið og á mikinn fjölda matreiðslubóka frá því svæði. Í þættinum sem ég gerði um norður-kýpverskan mat fyrir MAN í fyrravetur, eftir að ég hafði verið á þeim slóðum, studdist ég þó fyrst og fremst við tvær bækur. Önnur þeirra var bók sem ég keypti í ferðinni – í souk-inum í Lefkosa (Norður-Nikósíu) og hefur að geyma einfaldar norðurkýpverskar heimilisuppskriftir. Hin var Oklava, mjög skemmtileg bók eftir Selim Kiazin, en hún rekur samnefndan veitingastað í Shoreditch í London og í bókinni má finna bresk tilbrigði við hefðbundna norður-kýpverska og tyrkneska matargerð.
En hér koma semsagt fjórir meze-réttir í viðbót. Þeir sem ég var með síðast voru flestir heitir eða volgir, þessir eru allir kaldir. Og svo eru ídýfurnar eftir, þær koma líklega næst. Engar myndir af undirbúningnum, bara uppskriftirnar:
Efst léttsýrt rauðkál, í miðið strengjabaunir með möndlum og tómatsalat með granateplafræjum, fremst rauðrófusalat.
*
Rauðrófusalat
200 g rauðrófa, soðin eða bökuð
50 ml vínedik
1 tsk sykur
2 hvítlauksgeirar, pressaðir
svolítið salt
1–2 msk saxað kóríanderlauf (má sleppa)
Hér má vel nota rauðrófu sem keypt er elduð, annars er hún soðin í ediksblönduðu vatni eða bökuð í ofni þar til hún er meyr. Ég skar hana svo í litla teninga. Hrærði edik, sykur, hvítlauk og salt saman í skál, blandaði rauðrófubitunum saman við og lét standa í a.m.k. 1 klst. Blandaði svo dálitlu kóríanderlaufi saman við (en má sleppa).
*
Tómatsalat með granateplafræjum
2–3 vel þroskaðir tómatar
10 cm biti af gúrku
2–3 msk granateplafræ
lófafylli af saxaðri steinselju
3 msk ólífuolía
1 msk sítrónusafi
pipar og salt
Ég byrjaði á á saxaa tómatana smátt, setti þá svo í sigti og lét safann renna af þeim. Skar svo gúrkuna í litla teninga og blandaði þeim saman við, ásamt granteplafræjum og steinselju. Hristi saman olíu, sítrónusafa, pipar og salt, hellti yfir og blandaði.
*
Strengjabaunir með möndlum
150 g strengjabaunir
salt
40 g heilar möndlur, afhýddar
2 msk ólífuolía
1 hvítlauksgeiri, pressaður
Ég byrjaði á að skera endana af strengjabaununum, skar þær síðan í tvennt og sauð þær í léttsöltuðu vatni í 6–8 mínútur (eða samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum ef maður notar frosnar). Blandaði þeim svo saman við möndlur, ólífuolíu og hvítlauk og lét kólna (þær eiga samt ekki að vera ískaldar).
*
Léttsýrt rauðkál
200 g rauðkál
1/2 l vatn
1/4 l epla- eða hvítvínsedik
100 g sykur
2–3 negulnaglar
1/2 tsk piparkorn, gjarna marglit
1/3 tsk salt
Ég skar rauðkálið í mjóar ræmur, ekki of langar, og setti þær í skál. Hitaði vatn, edik, sykur og krydd í potti og lét malla í 5 mínútur. Hellti því þá yfir rauðrófurnar, setti lok (eða disk) yfir og láttu kólna. Þegar þetta er orðið kalt má setja það í krukku og geyma í nokkrar vikur, eða borða það strax.