Norður-kýpverskt meze

Ég var á Kýpur um síðustu jól, bæði í Nikósíu (suðurhlutanum), Norður-Nikósíu eða Lefkosa, og á aðfangadag og jólanóttina var ég í Famagusta (eða Gazimagua, það er tyrkneska heitið) sem er á Norður-Kýpur og þar voru reyndar engin jól, þetta voru bara venjulegir virkir dagar. Engin jólaljós eða jólatré eða jólalög (sem var alveg ágætt) og enginn jólamatur heldur, þannig séð. Ég fór út að borða á aðfangadagskvöld og það voru settir fyrir mig 27 meze-réttir (ég sótti þá ekki á hlaðborð, þetta var allt sett á borðið fyrir mig eina), og eftir langa göngu á jóladagsmorgun settist ég í sólinni fyrir utan annað veitingahús og fékk jafnvel enn veglegra samsafn af meze – aðeins færri réttir en stærri skammtar …

Og svo fór ég til Nikósíu, gisti fyrir sunnan landamærin en var búin að komast að því að það var betri og ódýrari matur í norðurhlutanum svo að í hádeginu stakk ég alltaf vegabréfinu í töskuna, rölti niður á Ledra, sem er aðalgöngugatan, og þar kemur maður allt í einu að landamærum og þarf að sýna passann og er svo komin í annnað land, sem er bæði líkt og ólíkt. En ég fékk ansi góða meze-rétti þar líka.

Heitið meze (í ýmsum útgáfum) er annars notað á Balkanskaga og um öll Mið-Austurlönd, allt austur til Kákasuslanda og Mið-Asíu. Þetta er samsafn smárétta af ýmsu tagi, oft borið fram á undan aðalrétti en oft er öll máltíðin eitt allsherjar meze.

Á Kýpur er meze gjarna borið fram á ótal litlum diskum; þá er gjarna byrjað á allmörgum köldum smáréttum, ídýfum, ólífum, möndlum, smátt skornu grænmeti og fleiru, og svo bætast við heitir smáréttir af ýmsu tagi þannig að diskunum á borðinu fjölgar sífellt. Ég gerði meze fyrir MAN þegar ég kom heim, svona míní-útgáfu af aðfangadagskvöldsmáltíðinni minni:

Meze (5)

Hér eru nokkrar uppskriftir, hinar koma seinna: þrír heitir smáréttir og maríneraðar ólífur. Ég hef líklega ekki tekið myndir af undirbúningum, allavega finn ég þær ekki. En þetta er nú allt ósköp einfalt.

Meze ýmislegt

Þarna er grillaður halloumi-ostur, rauðvínssteiktir sveppir, ólífur með óreganó og hvítlauk og steikt sjávarréttablanda.

*

Grillaður halloumi

200 g halloumi-ostur

ólífuolía

Ég skar ostinn í 8 mm-1 cm þykkar sneiðar og veltu þeim upp úr ólífuolíu. Hitaði svo grillpönnu vel, settu ostinn á hana og steikti hann í 1–2 mínútur á hvorri hlið, eða þar til hann hefur tekið góðan lit.  Hann er svo borinn fram volgur.

*

Steikt sjávarréttablanda

200 g sjávarréttablanda

4 msk hveiti

salt og pipar

cayennepipar á hnífsoddi

olía til steikingar

Eiginlega ætti að nota litla kolkrabba en það getur verið erfitt að nálgast þá svo að ég notaði frosna sjávarréttablöndu sem ég lét þiðna í sigti. Svo blandaði ég saman hveiti, salti, pipar og cayennepipar í skál. Hitaði olíu í potti eða á þykkbotna pönnu – hún ætti að vera a.m.k. 2 1/2 cm djúp – velti sjávarréttablöndunni upp úr hveitinu og djúpsteikti hana í nokkrum skömmtum, 2-3 mínútur hvern skammt. Lég renna af bitunum á eldhúspappír og bar þá fram heita (eða volga).

*

Rauðvínssteiktir sveppir

200 g sveppir

2 msk ólífuolía

1/2 tsk kóríanderfræ, grófsteytt

pipar og salt

100 ml rauðvín

Ég skar sveppina í bita. Hitaði olíuna á lítilli pönnu og steikti sveppina við nokkuð góðan hita þar til þeir höfðu tekið lit; hrærði oft í á meðan. Kryddaði með kóríanderfræi, pipar og salti, hellti rauðvíninu á pönnuna og lét það sjóða nær alveg niður. Svo hellti ég sveppunum í skál og bar þá fram volga, en þeir eru reyndar ágætir kaldir líka.

 *

Ólífur með óreganó og hvítlauk

200 g ólífur, gjarna mismunandi tegundir

150 ml ólífuolía

2 hvítlauksgeirar, pressaðir

2 tsk óreganó, þurrkað

1/2 tsk kóríanderfræ, grófsteytt

rifinn börkur og safi úr 1/2 sítrónu

Það er best að skola ólífurnar ef þær eru í saltlegi og séu þær með steinum getur verið gott að þrýsta flötu hnífsblaði ofan á þær til að sprengja þær ögn. Svo setti ég þær þær í skál og blandaði öllu hinu hráefninu saman við. Lét standa í a.m.k. einn sólarhring en má geyma í nokkrar vikur.

Meze

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s