Súpa fyrir grænkera

Jú, ég er að kvefast og það er greinilega kominn tími fyrir haustsúpur, þótt veðrið væri reyndar ágætt í dag. Þessa hér gerði ég nokkrum sinnum í fyrravetur og kom meðal annars með hana í vinnuna á öskudaginn – þá er hefð að hafa súpu í hádeginu og það vantaði vegan-súpu fyrir þá vinnufélaga sem ekki borða dýraafurðir. Þessi er nefnilega af því taginu en gerði heilmikla lukku hjá kjötætunum líka.

Það er líka engifer og karrí í henni og hún ætti að duga ágætlega við kvefi. Það má alveg nota minna af kasjúhnetumaukinu eða jafnvel sleppa því (súpan verður aðeins þynnri og ekki eins mjúk en bragðið er fínt) eða nota til dæmis sýrðan rjóma. En þetta kom alveg ljómandi vel út svona.

IMG_4502

Ég byrjaði á kasjúrjómanum og það þarf að gera daginn áður. Setti 250 g af kasjúhnetum (þetta er frekar stór skammtur en rjóminn geymist alveg í nokkra daga) og 250 ml af  vatni í skál og lét standa yfir nótt. Þá setti ég hneturnar og mestallt vatnið í matvinnsluvél, ásamt svona 1 tsk af nýkreistum sítrónusafa og ögn af salti, og lét vélina ganga í nokkrar mínútur. Stöðvaði hana öðru hverju og skafðu niður hliðarnar á skálinni með sleikju. (Þetta er gamla matvinnsluvélin mín, tæki líklega innan við mínútu í nýju túrbógræjunni minni.)

IMG_4506

Maukið á að vera alveg slétt og mjúkt og fínt.

IMG_4518

Svo saxaði ég einn blaðlauk, tvo sellerístöngla og góðan bút af engifer, hitaði 2 msk af ólífuolíu  í potti og lét þetta krauma við meðalhita í nokkrar mínútur án þess að brúnast. Á meðan flysjaði ég tvær bökunarkartöflur og snyrti 700 g af gulrótum og skar  hvorttveggja í teninga. Setti þetta út í pottinn og stráði svo 2 tsk af karrídufti yfir, hrærði og lét krauma í 1-2 mínútur. Þá bætti ég 1 l af vatni, 2 tsk af grænmetiskrafti, pipar og salti út í og lét malla í 25-30 mínútur, eða þar til grænmetið var vel meyrt.

IMG_4522

Ég notaði fallegasta súpupottinn minn, fannst hann eiga svo vel við litina í þessari súpu (og reyndar mörgum öðrum súpum).

Ég lét súpuna kólna smástund og setti hana svo í matvinnsluvél í nokkrum skömmtum, eftir stærð skálarinnar, og maukaðu hana þar til hún var alveg slétt. Ég átti steinselju og basilíku og maukaði dálítið af þeim með en það er ekkert nauðsynlegt, gefur bara súpunni enn betra bragð.

Svo setti ég súpuna aftur í pottinn og hitaði hana. Ef hún er alveg hnausþykk má þynna hana ögn með vatni. þynntu hana ögn með vatni ef hún er of þykk. Og síðan hrærði ég helmingnum af kasjúrjómanum saman við.

IMG_4562

Einnig má gera mynstraða súpu; þá er u.þ.b. fjórðungnum af súpunni hrært saman við rjómann í annarri skál, blöndunni svo hellt aftur í miðjan pottinn (eða súpuskálina) og hringir teiknaðir á yfirborðið með sleifarskafti. Og svo stráði ég aðeins meiri söxuðum kryddjurtum yfir (heldur ekki nauðsynlegt).

IMG_4632

Svo bar ég súpuna fram með afganginum af kasjúrjómanum, sem má svo setja út í hvern súpudisk.

*

Þykk gulrótasúpa með kasjúhneturjóma

1 blaðlaukur (hvíti og ljósgræni hlutinn)

2 sellerístönglar

5 cm biti af engifer

700 g gulrætur

2 bökunarkaröflur

2 msk ólífuolía

2 tsk karríduft

1 l vatn

2 tsk grænmetiskraftur

salt og pipar

lófafylli af basilíku eða steinselju (má sleppa)

*

Kasjúrjómi:

250 g kasjúhnetur

250 ml kalt vatn, eða eftir þörfum

1 tsk sítónusafi

salt

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s