Kjúklingasúpa fyrir haustið

Það er eiginlega farið að hausta – laufið er að vísu mikið til grænt ennþá en haustlægðirnar eru farnar að ganga yfir, bækurnar sem við á Forlaginu gefum út streyma í prentsmiðju ein af annarri og munu svo birtast í búðum á næstu vikum og mánuðum, og það er búið að senda út hinn árlega inflúensusprautupóst, sem er öruggasti haustboðinn.

Svo að það er kominn tími á vel kryddaða og yljandi súpu. Til dæmis kjúklingasúpu eins og þessa hér, sem ég gerði fyrir MAN í fyrra. Hún er matarmikil og getur reyndar alveg eins verið pottréttur – þá má bara nota aðeins minna vatn og bera hana svo fram t.d. með kúskúsi eða hrísgrjónum.

Í svona súpu finnst mér best heilan lítinn kjúkling eða þá læri. Það er alveg hægt að nota bringur en þær eru bragðminni og vilja verða þurrari; best að sjóða þær skemur en hér er gert. En ég var semsagt með kjúkling sem ég tók af beinunum og skar í litla bita. Það þarf reyndar ekki að nota eins mikið kjúklingakjöt og ég geri hér (þetta voru svona 800 g) en súpan ætti alveg að duga fyrir fjóra eða fimm.

IMG_7133

Svo tók ég tvo rauðlauka, tvo sellerístöngla, 2-3 gulrætur og tvo hvítlauksgeira og saxaði þetta allt. Hitaði 2 msk af olíu í potti og lét allt krauma við fremur vægan hita í svona 10 mínútur.

IMG_7138

Þá setti ég kjúklingabitana út í, ásamt 2 tsk af kummini, 2 tsk af paprikudufti, 1 tsk af kanel og 2 lárviðarlaufum (af því að ég átti þau en það má sleppa þeim).

Hrærði þetta vel og lét krauma í 1-2 mínútur, bætti svo við einni dós af söxuðum tómötum og svona 1 l af vatni (eða eftir smekk, minna ef maður ætlar að gera pottrétt) og hitaði að suðu.

IMG_7149

Svo hrærði ég 100 g af linsubaunum (rauðum eða brúnum), 1 dós af kjúklingabaunum (eða öðrum niðursoðnum baunum), 2 tsk af kjúklingakrafti, pipar og salti saman við og lét malla í 20–25 mínútur, eða þar til allt var orðið meyrt. Það má bæta við vatni ef uppgufinin er mikil. Svo er bara að smakka og bragðbæta með pipar og salti eftir þörfum.

IMG_7216

Og strá kannski dálitlu söxuðu kóríanderlaufi yfir. Það er ekkert nauðsynlegt. Eða t.d. steinselju, græni liturinn fer svo vel með þessu.

IMG_7248

Myndin var tekin í fyrravetur, sveimér ef það er ekki allt á kafi í snjó á svölunum fyrir utan gluggann. Þá átti þessi súpa nú vel við. En hún er góð líka þótt það sé snjólaust.

*

Tómatlöguð kjúklingasúpa með linsum og kjúklingabaunum

700–800 g kjúklingakjöt, beinlaust

2 rauðlaukar

2 sellerístönglar

2–3 gulrætur

2 hvítlauksgeirar

2 msk olía

2 tsk kumminfræ (eða malað kummin)

2 tsk paprikuduft

1 tsk kanell

2 lárviðarlauf (má sleppa)

1 dós saxaðir tómatar

1 l vatn, eða eftir þörfum

100 g rauðar eða brúnar linsubaunir

1 dós kjúklingabaunir

2 tsk kjúklingakraftur

pipar og salt

kóríanderlauf (má sleppa)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s