Kengúra á grillið

Bloggið hefur fengið að eiga sig undanfarna tvo mánuði – ég veit ekki alveg hvers vegna, kannski vegna þess að ég á töluvert af sumarlegum uppskriftum á lager sem ég var að bíða eftir að geta sett hér inn þegar veðrið skánaði … Je ræt.

En svo var ég kannski á vissan hátt búin að fá nóg af að hugsa um mat í bili … Nei, reyndar ekki, en fyrri hluti ársins fór mikið til í að vinna að nýrri bók (ójú, matreiðslubók) sem var reyndar eiginlega alveg tilbúin um miðjan júní en lá svo í salti um tíma og er nýfarin í prentsmiðju. Hún heitir Beint í ofninn og er væntanleg um næstu mánaðamót. Meira um hana seinna. En kápan er svona: Screen Shot 2018-09-02 at 20.50.56

En sumarið er eiginlega búið, það litla sem var. Samt geta enn komið góðir dagar, það má lengi vona, og dagurinn í dag var hreint ekki sem verstur á köflum. Hann var það góður að ég ákvað að grilla, kannski í síðasta skiptið í sumar en maður veit aldrei …

Í gær nennti ég samt eiginlega ekki að fara út í búð þótt fjölskyldan væri að koma í kvöld. Svo að ég gáði hvað væri að finna í frystinum því þar er nú venjulega eitthvað sem hægt er að bjóða upp á. Það þurfti samt að vera nóg fyrir sjö – eða nei, sex, því einn afkomandinn borðar ekki rautt kjöt – en þessir sex hafa ágæta matarlyst.

Og viti menn, þarna voru tveir pakkar af kengúrufilleti. Sem er akkúrat eitthvað sem hægt er að búast við að rekast á í frystinum mínum. Svo að ég tók þá út og lét þiðna.

_MG_2027

Pakkarnir voru sirka 900 g hvor og í þeim voru fjórir nokkuð áþekkir bitar af kjöti – sem sagt átta alls. Og ekki arða af fitu á þeim. Vegna þess að kjötið er svona magurt má alls ekki steikja það of lengi – ef þið viljið kjötið ykkar well done skuluð þið ekki fá ykkur kengúru – og það er gott að annaðhvort marínera það eða leggja bitana í léttan saltpækil fyrir eldun.

_MG_2026

Ég ákvað að marínera það frekar í rauðvínslegi – af því að ég átti nú rauðvín sem hentar til slíks brúks – svo að ég hellti vænni skvettu af rauðvíni og dálítilli ólífuolíu í skál og bætti við góðum slatta  af grófmöluðum pípar, möluðum í minni ágætu hátæknilegu piparkvörn eins og sjá má – ásamt niðurklipptu rósmaríni og lárviðarlaufi, hvorutveggja úr gluggaræktuninni minni.

_MG_2029

Setti svo kjötið út í, velti bitunum fram og aftur og lét þá liggja í 3-4 klst; velti þeim öðru hverju.

Svo tók ég kjötið úr leginum, setti hann í pott ásamt vatni, villibráðarkrafti og smátt söxuðum lauk og lét sjóða smástund. Hitaði grillið mjög vel, saltaði kjötið, setti það svo á grillið og grillaði í um 3 mínútur á hvorri hlið – tveir eða þrír bitar voru þykkari en hinir og þeir voru kannski mínútu lengur. (Það gleymdist að taka mynd af kjötinu á grillinu en það var grillað við góðan hita á opnu grilli.)

Ég setti kjötið svo á fat og lét bíða í nokkar mínútur. Hellti svo safanum (nei, þetta er ekki blóð, þetta er kjötsafi) út í sósuna, síaði hana og setti aftur í pottinn, bætti við rjómaskvettu, þykkti hana með sósujafnara, smakkaði og kryddaði með pipar og salti eftir þörfum.

_MG_2036

Ég bar svo kjötið fram með kartöflugratíni og salati, ásamt sósunni.  – Reyndar er ekki alveg að marka myndina því að þetta eru afgangarnir, ég gleymdi að taka mynd af kjötinu áður en það fór á borðið svo að þarna er það eiginlega orðið kalt. (Og nei, við borðuðum ekki úti, ég þurfti bara að nota birtuna …

_MG_2041

En þetta var alveg hreint barasta ljómandi góð kengúra. – Ég var semsagt að elda um 1800 g en ætla að gefa uppskriftina miðað við einn pakka af kengúrukjöti, um 900 g.

*

Rauðvínslegið kengúrufillet á grillið

um 900 g kengúrufillet (loin steaks)

125 ml þurrt rauðvín

50 ml ólífuolía

1-2 rósmaríngreinar

1 lárviðarlauf (má sleppa)

1 1/2 tsk grófmalaður pipar

salt

 

Kengúrusósa

kryddlögurinn af kjötinu

250 ml vatn

1 1/2 tsk villibráðarkraftur eða annar kjötkraftur

1/2 laukur, saxaður smátt

75 ml rjómi (ef til er)

pipar og salt

sósujafnari eftir þörfum

e.t.v. sósulitur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s