Á leið til Galisíu

Ég er á leið til Spánar á næstunni, reyndar með viðkomu á matarráðstefnu í Oxford, en svo ætla ég til Santiago de Compostela á eftir. Ekki til að ganga Jakobsveginn reyndar, eða ekki nema þessa eitt eða tvö hundruð metra sem eru frá hótelinu mínu að dómkirkjunni. Ég ætla bara að slappa af og rölta um og fá mér eitthvað gott að borða, hvað sem það nú verður.

Eitt veit ég allavega: það skortir ekki góðan mat í Santiago de Compostela fremur en annars staðar í Galisíu og sjálfsagt á ég eftir að kynnast ýmsu nýju og kannski birta uppskriftir af því seinna. Það gæti orðið eitthvað furðulegt; ég var að kynna mér á netinu hvað væri í boði á nokkrum veitingahúsum sem mælt er með og komst að því að þótt mikið sé um ferðamenn eru matseðlarnir gjarna bara á galisísku og Google translate virðist ekki sérlega vel að sér í þeirri tungu; eða ég geri ráð fyrir að það sé skýringin á réttum á borð við „kjálka eða kápu af ansjos“, „bacon gratianted af brotnum blöðrur“, „rifið lambamjólk með kartöflumús“, „túnfyllt kýr tunga“ og svo framvegis. Þetta verður spennandi …

En hér er uppskrift að maríeruðum ólífum sem eru nú reyndar ekkert sér-galisískar; þetta er bara dæmigerður spænsku tapasréttur af því tagi sem maður fær víðast hvar á Spáni.

_MG_5323

Ég byrjaði á að taka 200 g af grænum ólífum – ég átti til steinlausar en það má auðvitað líka nota ólífur með steini – hellti þeim í sigti, skolaði þær snöggvast undir kalda krananum og lét svo renna af þeim. Saxaði svo fjóra hvítlauksgeira og blandaði saman við.

Síðan tók ég 200 g af manchego-osti (það mætti svo sem líka nota t.d. parmesan- eða pecorino-ost), skar í litla bita og blandaði saman við. Malaði svo svartan pipar yfir ólífurnar, hellti 100 ml af góðri ólífuolíu út á og blandaði.

_MG_5328

Ég átti nokkrar timjangreinar (það má líka nota rósmarín, nú, eða hvort tveggja) og klippti svo tvö eða þrjú lauf af lárviðarrunnanum sem ég á í glugganum (en auðvitað má kaupa laufin í búð). Nuddaði kryddjurtirnar aðeins milli lófanna (eða steytti þær létt í mortéli) til að losa um ilminn og setti þær út í.

_MG_5396

Og þá er þetta nú bara tilbúið. Má bera fram strax eða geyma í kæli í nokkra daga.

*

Ólífur með osti og kryddjurtum

200 g grænar ólifur, með eða án steina

4 hvítlauksgeirar

nýmalaður pipar

100 ml  góð ólífuolía

200 g manchego-, parmesan- eða pecorino-ostur

nokkrar timjangreinar eða 1-2 rósmaríngreinar

2-3 fersk lárviðarlauf

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s