Grillað eftir veðri

Hér er uppskrift sem hentar svosem ágætlega fyrir tíðarfarið núna – þetta er grilluppskrift og það er alveg hægt að gera hana á útigrilli en ef maður nennir ekki að standa úti í rigningunni og grilla er alveg eins hægt að nota grillpönnu og það gerði ég. Reyndar var það í vetur eða mjög snemma í vor, þetta var síðasti þátturinn sem ég gerði fyrir MAN, og það var glampandi sól og yndislegt gluggaveður þegar ég var að undirbúa og elda þetta salat. Veður eins og maður vildi hafa núna, nema hvað þá var of kalt til að grilla en núna of blautt.

En ég hef fulla trú á að það stytti einhverntíma upp. Reyndar er ég að fara til útlanda seinna í vikunni og mín vegna má alveg rigna á meðan (já, ég rata út) því þá þarf ég ekki að ráða dóttursoninn í vinnu við að vökva gróðurinn á svölunum á meðan …

Ég notaði frosna maískólfa en auðvitað má nota ferska. Mér finnst bara þessir frosnu oft betri því að þeir eru frystir svo fljótt eftir að þeir eru tíndir og eru þar af leiðandi sætari en ófrosnir kólfar sem eru kannski orðnir einhverra vikna gamlir.

Allavega, ég byrjaði á að taka tvo maískólfa og láta þá þiðna alveg. Svo kreisti ég safa úr einni sítrónu og þeytti saman við 4 msk af ólífuolíu, fjóra smátt saxaða hvítlauksgeira, klípu af chiliflögum, pipar og salt saman í stórri skál. Setti helminginn af blöndunni til hliðar.

IMG_1592

Svo hitaði e´g grillpönnu vel (nú, eða útigrill). Penslaði maískólfana og tvær kjúklingabringur vel með kryddleginum og setti á pönnuna. Steikti þetta við góðan hita, bringurnar í um 10 mínútur á hvorri hlið en maísinn í um 10-12 mínútur samtals og sneri honum oft svo að hann stiknaði jafnt á öllum hliðum. Penslaði hvorttveggja með kryddleginum einu sinni eða tvisvar. Ég tók svo maísinn af pönnunni og síðan kjúklinginn þegar hann var tilbúinn. Lét hvorttveggja hálfkólna.

Svo tók ég eitt vel þroskað avókadó, skar það í litla bita og setti þá út í skálina með hinum helmingnum af kryddleginum, ásamt vænni lúku af salatblöndu og hálfu knippi af söxuðu kóríanderlaufi. Svo skar ég maískornið af kólfunum og reyndi að láta það tolla dálítið saman.

IMG_1652

Ég skar svo kjúklinginn í bita, blandaði þeim og maísnum  gætilega saman við salatið og setti á fat. Skreytti með kóríander.

*

Kjúklingasalat með grilluðum maís

2 maískólfar, frosnir

safi úr 1 sítrónu

4 msk ólífuolía

4 hvítlauksgeirar

klípa af chiliflögum (eða cayennepipar)

pipar og salt

2 kjúklingabringur

1 avókadó, vel þroskað

væn lúka af salatblöndu

1/2 knippi kóríanderlauf

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s