Sólarlaust grillsumar

Ég var að lesa það einhvers staðar í dag að nú seldust grill sem aldrei fyrr, þrátt fyrir sólar- og sumarleysið. Enda er svosem alveg hægt að grilla að lyst þótt sólina vanti … Og þá duttu mér í hug þessar grilluðu, fylltu grísalundir sem ég var með einhverntíma í fyrrasumar.

Hér er skorið í grísalundirnar og þær síðan barðar til að fá þær sem þynnstar áður en þeim er rúllað upp en það má líka láta nægja að skera djúpan vasa í hliðina á þeim, setja fyllinguna í hann og loka vel.

_MG_6160Ég var með tvær grísalundir og byrjaði á að leggja þær á bretti og skera djúpan skurð eftir þeim endilöngum með beitutm hníf, þannig að hægt væri að opna þær eins og bók. Svo skar ég aftur djúpan skurð í hvorn helming frá miðju og fletti í sundur til að flatarmálið yrði sem stærst.

_MG_6167

Síðan barði ég lundina létt með buffhamri (eða kökukefli eða bara með hnúunum) til að þykktin yrði nokkurn veginn jöfn. Kryddaði með pipar og salti.

_MG_6173

Ég tók svo nokkra sólþurrkaða tómata – um þrjár matskeiðar – og saxaði smátt. Saxaði líka lófafylli af basilíkublöðum og dreifði þessu á lundirnar. Ég var með ferskan mozzarellaost – reyndar litlu kúlurnar, bocconcini, en það má líka nota stóra kúlu og rífa eða skera hana í bita – og dreifði þeim jafnt yfir. Rúllaði þeim svo upp í vefju og tyllti þeim saman með grillteinum eða tannstönglum. Kryddaði vefjurnar með pipar og salti og penslaði þær með olíu.

Síðan hitaði ég grillið og grillaði vefjurnar við meðalhita á fjórum hliðum, í um fimm mínútur á hverri, og penslaði af og til með olíu. Tók svo 6-8 vel þroskaða tómata, skar þá  í tvennt, penslaði skurðflötinn með olíu og stráði svolitlu timjani yfir, ásamt pipar og salti. Raðaði þeim á grillið og grillaði í nokkrar mínútur.

_MG_6223 (1)

 

Ég dreifði svo salatblöðum á fat eða diska og raðaði grilluðu tómathelmingnum  ofan á. Þegar kjötið var tilbúið skar ég það í um 2 cm þykkar sneiðar og raðaði þeim þar ofan á. Svo tók ég bita af hvítmygluosti, reif hann (eða skar)  í bita og dreifði þeim í kring (en þessu má reyndar sleppa). Að lokum stráði ég basilíku yfir.

Og nú vantar bara sólina …

*

Fylltar grísalundir með grilluðum tómötum

2 grísalundir, 700–800 g samtals

pipar og salt

3 msk sólþurrkaðir tómatar í olíu, smátt saxaðir

lófafylli af basilíkublöðum

150–200 g ferskur mozzarellaostur

olía

8 tómatar, vel þroskaðir

þurrkað timjan

salatblöð

100 g kastali, brie eða annar hvítmygluostur (má sleppa)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s