Ég ætlaði að geyma þessa uppskrift þangað til sumarið kæmi því að þetta er sko sumarterta. En það kemur bara ekki. Svo að það er líklega alveg eins gott að vera ekkert að geyma uppskriftina. Hver veit, kannski kallar hún fram sumarið …
Hún er ekkert sykurlaus, þessi terta. En ekkert dísæt heldur, þetta er engin marensterta með allskonar nammi og karamellusósu og öllu þessu sem flestum þykir svo gott en mér ekki. Ég er meira fyrir fersk ber.
En trikkið við þessa er sko Royal-búðingsduft. Ég nota dálítið búðingsduft bæði í jarðarberja- og súkkulaðilagið. Það má sleppa því en þá verður rjóminn mun linari og erfiðara að skera tertuna. Og svo gefur það svo gott nostalgíubragð fyrir okkur Royal-aðdáendur.
Ég byrjaði á að baka ósköp hefðbundna tertubotna – eða botn, því að ég bakaði einn en klauf hann svo í sundur; það má líka baka þetta í tveimur formum. Allavega, ég hitaði ofninn í 190°C. Smurðu meðalstórt smelluform, klippti út hring úr bökunarpappír og setti á botninn. Svo tók ég fjögur egg og braut þau í hrærivélarskálina, bætti við 125 g af sykri og 1 tsk af vanilluessens og þeytti þetta mjög vel saman. Svo vigtaði ég 160 g af hveiti og 40 g af kartöflumjöli, sigtaði þetta yfir eggjahræruna ásamt 1 tsk af lyftidufti, blandaði því gætilega saman við með sleikju, setti deigið strax í formið og bakaði í um 20 mínútur. Ég lét botninn kólna á grind og klauf hann svo sundur í tvo botna.

Þá var það fyllingin: Ég byrjaði á að taka 200 g af frosnum jarðarberjum, lét þau hálfþiðna og maukaði þau svo. Þeytti 400 ml af rjóma og þeytti 6 msk af Royal búðingsdufti saman við (jarðarberja- eða vanillu-). Svo blandaði ég berjamaukinu saman við með sleikju (eða með því að láta hrærivélina ganga á minnsta hraða).

Ég smurði svo jarðarberjarjómanum á neðri kökubotninn, dreifði 350 g af ferskum jarðarberjum yfir. Svo lagði ég hinn botninn ofan á.

Og þá það sem fór ofan á tertuna: Ég bræddi 125 g af hvítu súkkulaði í vatnsbaði með svona 50 ml af rjóma og lét það kólna dálítið. Stífþeytti svo 250 ml af rjóma með 3 msk af Royal vanillubúðingsdufti og blandaðu hvíta súkkulaðinu saman við með sleikju.

Ég smurði svo rjómanum á efri botninn, raðaði 350 g af jarðarberjum ofan á og saxaði 25 g af hvítu súkkulaði og 25 g af pistasíum (en þeim má sleppa) og stráði yfir.
*
Sannkölluð sumarterta (ef það skyldi nú koma)
Botninn
4 egg
125 g sykur
1 tsk vanilluessens
160 g hveiti
40 g kartöflumjöl
1 tsk lyftiduft
*
Á milli
200 g frosin jarðarber
400 ml rjómi
6 msk Royal jarðarberja- eða vanillubúðingsduft
350 g fersk jarðarber
*
Ofan á
150 g hvítt súkkulaði
300 ml rjómi
3 msk Royal vanillubúðingur
350 g fersk jarðarber
25 g pistasíuhnetur (má sleppa)