Hér sit ég og horfi á Inspector Morse í danska sjónvarpinu og er allt í einu farið að dauðlanga til Oxford – og hlakka til næstu ferðar þangað. Ég fer til Oxford á hverju sumri og hef gert í allmörg ár, sit þar matarráðstefnu með fólki víða að úr heiminum, tala um mat, hlusta á tal um mat og hugsa um mat. Og borða góðan mat, auðvitað. Og svo hef ég yfirleitt verið áfram í Oxford í að minnsta kosti einn dag eftir ráðstefnuna og stundum lengur. Oxford er skemmtilegur bær og alls ekki eins háskalegur og þættirnir um Morse og Lewis gætu gefið til kynna.
Þegar ég var þar í hitteðfyrra og rölti um götur í mesta sakleysi rakst ég reyndar á Lewis og Hathaway aðstoðarmann hans – það var nefnilega verið að taka upp nýjan þátt af Lewis sem ég hef svo séð seinna í sjónvarpi, það var dálítið skemmtilegt.
Í framhaldi af þessu mætti ætla að hér kæmi uppskrift að einhverju sem tengist Oxford, eða þeim Morse og Lewis … En reyndar er afar sjaldan komið inn á mat í þáttunum og þeir sjást sjaldan borða, en þeim mun oftar drekka. Eða allavega Morse. Þannig að uppskriftin tengist þessum inngangi eiginlega ekki neitt, ég er semsagt bara að horfa á Morse á meðan ég skrifa hana. (En nánast um leið og ég skrifaði þetta svelgdist Lewis reyndar á köku sem hann var að gúffa í sig.) Svo að ef þið rekist á eitthvað um morð eða aðra glæpi í uppskriftinni hefur bara einhverju slegið saman í kollinum á mér.
En þetta er nú bara frekar saklaus uppskrift. Saklaus en góð. Þetta er persneskur lambakjötsréttur sem ég eldaði fyrir haustblað MAN.
Það er ekki alltaf auðvelt að finna lambagúllas svo að ég var með súpukjöt, svona 1,2 kg (þetta er uppskrift fyrir 6 en ekkert mál að minnka hana), sem ég skar af beinunum og síðan í bita.
Ég kryddaði svo kjötið með pipar og salti. Hitaði 3 msk af olíu á pönnu og brúnaði kjötið í nokkrum skömmtum við góðan hita.
Tók svo tvo eða þrjá lauka og skar þá í bita, saxaði þrjá hvítlauksgeira smátt og brúnaði þetta á pönnunni. Setti svo allt saman í þykkbotna pott (auðvitað má líka brúna kjötið og laukinn í pottinum ef hann er frekar víður).
Ég hrærði svo 1 msk af paprikudufti, 2 kúfuðum msk af paprikumauki úr krukku (mætti líka nota tómatþykkni) og dálítilli klípu af chiliflögum saman við.
Ég lét þetta krauma í nokkrar mínútur og hrærði oft á meðan. Hellti svo um það bil hálfum lítra af vatni yfir, hitaði að suðu og lét malla undir loki í um 1 1/2 klst.
Þátók ég vænt butternutgrasker, flysjaði það, skóf fræin úr því og skar það í bita. Setti þá í pottinn ásamt einni dós af kjúklingabaununum og lét malla í 25-30 mínútur, eða þar til allt var orðið vel meyrt. Smakkaði sósuna, bragðbætti hana eftir þörfum og þykkti hana ögn með sósujafnara (ekki víst að þess þurfi).
Ég bar svo réttinn fram með soðnum hrísgrjónum og stráði ögn af steinselju yfir.
Persneskur lambakjötsréttur með butternutgraskeri
1-1,2 kg lambasúpukjöt
pipar og salt
3 msk olía
2-3 laukar
3 hvítlauksgeirar
1 msk paprikuduft
2 kúfaðar msk paprikumauk (eða tómatþykkni)
smáklípa af chiliflögum eða cayennepipar
1/2 l vatn
um 1 kg butternutgrasker
1 dós kjúklingabaunir
e.t.v. sósujafnari
söxuð steinselja (má sleppa)