Ég er aldrei vel viðræðuhæf um þetta leyti árs af því að ég horfi ekki á Eurovision og hef örugglega ekki gert í svona fimmtán ár. Og var nú áhugalítil áður. Og ég horfi reyndar heldur aldrei á fótbolta eða handbolta eða eitthvað slíkt svo að ég kem gjarna af fjöllum þegar fólk er að ræða eitthvað slíkt. Ég er stundum svolítið utanveltu í þessu þjóðfélagi, það segi ég satt.
Þannig að hér á bæ var ekkert Eurovisionpartí og engar ídýfur eða eðlur eða neitt slíkt og ekki einu sinni pöntuð pítsa. Í staðinn steikti ég mér bara rauðsprettu og horfði á gamlan breskan krimma á meðan allir hinir voru að horfa á júróið. Og allir sáttir, geri ég ráð fyrir (nema náttúrlega íslenska lagið komst ekki áfram en það er önnur saga. Barnaby réð allavega gátuna. Eða var það annars Lewis?)
En hér er rauðsprettan. Með hafraþekju, spínati, tómötum og basilíku.
Ég átti semsagt rauðsprettuflak, ekki stórt, kannski rúm 200 g en það dugir nú í kvöldmatinn handa mér og í nesti daginn eftir. Ég byrjaði á að blanda saman á diski lófafylli af hafragrjónum, 1/2 tsk af timjani, pipar og salti.
Ég bræddi svo 1 msk af smjöri á pönnu, velti rauðsprettuflakinu upp úr slegnu eggi og síðan upp úr hafrablöndunni – þrýsti fiskinum vel niður í hana til að hún tylldi vel við. Svo setti ég fiskinn á pönnuna með roðhliðina upp og steikti í svona 2 mínútur við meðalhita.
Ég sneri svo flakinu – þegar maður er með rauðsprettu eða eitthvað slíkt er voða þægilegt að eiga svona stóran og breiðan spaða til að smeygja undir það en ég komst nú alveg af áður en ég eignaðist hann – og steikti það í svona þrjár mínútur á hinni hliðinni. Eða eftir því hvað það er þykkt.
Ég bætti annarri matskeið af smjöri á pönnuna, ásamt svona 100 g af kirsiberjatómötum (ég átti blöndu af rauðum, gulum og appelsínugulum en rauðir duga nú alveg) og slatta af spínati.
Þegar rauðsprettan var steikt tók ég hana af pönnunni og setti á disk en hækkaði hitann dálítið og steikti tómatana og spínatið í 2-3 mínútur í viðbót. Kryddaði það með pipar og salti og stráði að lokum dálítilli saxaðri basilíku yfir.
Svo setti ég spínatið og tómatana á disk, fiskflakið ofan á og bætti við nokkrum kvistum af dverbasilíku (eða nokkrum blöðum af venjulegri).
Þetta var nú bara alveg ágætt. Það var Barnaby líka (nema það hafi verið Lewis sem ég var að horfa á …).
*
Hafrahjúpuð rauðspretta með tómötum og spínati
rauðsprettuflak, 200-300 g
lófafylli af hafragrjónum
1/2 tsk timjan
pipar
salt
2 msk smjör
1 egg, slegið
100 g kirsiberjatómatar
75 g spínat
basilíka