Vefjur í veisluna

Það var barasta vor í gær. Held ég, ég var heima að ljúka verkefni og fór ekki mikið út. En dóttursonurinn var allavega mjög léttklæddur þegar hann kom í mat með fjölskyldunni, í bol og stuttbuxum, og tilkynnti að hann ætlaði í út í fótbolta með vinum sínum á eftir. Mamma hans sagði honum að hann yrði þá að klæða sig meira. „Mamma er alltaf með eitthvert vesen,“ tautaði drengurinn þá ofan í bringuna. En það er í verklýsingunni fyrir mömmur að vera með vesen út af svoleiðis. Ömmur þurfa ekkert að standa í því frekar en þær vilja.

Hann er hins vegar í samningaviðræðum við mig út af kostnaðarskiptingu vegna væntanlegrar ferðar okkar í sumar til Prag og Vínarborgar. Tillögur hans ganga í stuttu máli út á að ég borgi hverja einustu krónu (korunu/evru) sem til fellur í ferðinni en hann ekki neitt, þar sem hann er að safna sér fyrir tölvu. Reyndar finnst honum tilvalið að ég gefi honum bara tölvuna líka … Samningaviðræðum er ólokið en þegar við fórum til Rómar í fyrra borgaði hann sjálfur kók og Snickers sem hann keypti sér á Gatwickflugvelli, amman stóð undir öllum öðrum útgjöldum. Ætli það verði ekki eitthvað svipað núna.

En nóg um það. Vorið er tími fyrir ýmiss konar samkvæmi, útskriftarveislur og þess háttar, og svo kemur sumarið með brúðkaupsveislum, fótboltapartíum, grillpartíum, lautarferðum, útilegum og allskonar og allt þetta kallar á margs konar smárétti, ídýfur, álegg og þess háttar. Og það vill svo til að ég er einmitt búin að senda þessa bók í prentsmiðju:

Eiithvad_ofan_a

Hún ætti að koma einhverntíma snemma í júní – líklega of seint ef ykkur vantar veitingar í útskriftarveislu en fín bæði fyrir allskonar annað tilstand og svo bara fyrir hversdagsálegg, nesti í vinnuna og þess háttar. Þetta er semsagt ekki smurbrauðsbók, heldur lítil bók með ýmiss konar áleggi – þarna eru salöt, paté og kæfur, mauk, smurostar, sultur og fleira til að setja ofan á brauðið eða kexið. Svona hæfileg blanda af hefðbundnu og nýstárlegu, heldur í léttari kantinum og margar uppskriftanna henta fyrir grænkera (ég merkti þær sérstaklega).

Uppskriftin sem hér kemur er ekki beint í bókinni en fyllingarnar í vefjunum eru þar, kannski með smátilbrigðum, því að þær eru fínar einar sér sem smurostar á brauð eða kex. En annars birtist þetta í aprílblaði MAN. Þetta eru tvær tegundir af vefjum og ættu að verða um 20 vefjur af hvorri tegund.

_MG_0771

Ég tók tvær meðalstórar gúrkur, skar endana af þeim og skar þær svo eftir endilöngu í eins þunnar ræmur og ég gat – það er langbest að nota flysjunarjárn eða ostaskera.

_MG_0772

Ég lagði svo ræmurnar á eldhúspappír, setti annað blað ofan á og lét pappírinn drekka í sig hluta af safanum úr gúrkunum.

_MG_0773

Á meðan gerði ég fyllingarnar, var annars vegar með reyktan lax og rósapipar: Ég tók 85 g af reyktum laxi (má vera aðeins meira) og skar í litla bita. Setti hann í matvinnsluvél ásamt 175 g af rjómaosti, nokkrum dillkvistum og 1 tsk af rósapipar.

_MG_0775

Maukaði þetta vel saman og kryddaði með pipar og svolitlu salti (þarf e.t.v. ekki, laxinn er saltur).

_MG_0780

Hin fyllingin var geitaostur, hnetur og ólífur en þeir sem vilja ekki sjá geitaost geta notað rjómaost eingöngu og krydda þá kannski aðeins meira. En ég setti semsagt 100 g af geitaosti og 75 g af rjómaosti í matvinnsluvél ásamt 10 valhnetukjörnum og nokkrum basilíkublöðum (eða lófafylli af dvergbasilíku).

_MG_0781

 

Maukaði þetta vel saman og kryddaði með pipar og salti eftir smekk. Svo tók ég 6-8 steinlausar ólífur, grófsaxaði þær, setti út í og lét vélina ganga mjög stutt því ég vildi hafa ólífurnar grófsaxaðar.

_MG_0782

Ég skar svo hverja gúrkulengju í tvennt, setti teskeið af fyllingu á annan enda hverrar ræmu og rúllaði þeim upp.

_MG_0784

Ég kældi svo vefjurnar. Það er gott að láta þær standa upp á endann þétt saman í kæli, þá halda þær best lögun.

_MG_0788

Svo skreytti ég vefjurnar: ostavefjurnar með muldum valhnetum og dvergbasilíku (eða litlu basilíkublaði) og laxavefjurnar með dillkvisti, 2-3 rósapiparkornum og örlitlum grænum wasabikavíar sem vildi til að ég átti en það má alveg sleppa honum.

_MG_0843 (1)

Vefjurnar eru svo geymdar í kæli þar til þær eru bornar fram og það er best að þær þurfi ekki að standa neitt rosalega lengi – þetta er ekki eitthvað sem maður gerir daginn áður. Gúrkurnar mýkjast og linast dálítið, sem gerir ekkert til upp á bragðið en þær verða ekki eins meðfærilegar sem fingrafæði. Sjáið muninn á efri og neðri myndinni – þessar efri eru nýgerðar, þessar neðri hafa beðið í svona 5-6 klukkutíma. Þær voru hreint ekkert verri en gúrkurnar voru aðeins farnar að mýkjast.

*

Gúrkuvefjur

um 20 rúllur af hvorri tegund

 

2 gúrkur, meðalstórar

*

Reyktur lax og rósapipar

85 g reyktur lax

175 g rjómaostur

dillkvistir

1 1/2 tsk rósapipar

pipar og e.t.v. salt

ögn af wasabi-kavíar (má sleppa)

*

 

Geitaostur, hnetur og ólífur

100 g geitaostur

75 g rjómaostur

12 valhnetukjarnar

nokkur basilíkublöð eða lófafylli af dvergbasilíku

pipar og salt

6-8 ólífur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s