Hafragrautur í sparibúningi

 

Það er nú ekkert mjög mikið vor enn sem komið er, varla hér fyrir sunnan og ég tala nú ekki um fyrir norðan og víða annars staðar úti á landi. En þegar maður tuðar sem mest yfir tíðarfarinu (sem er reyndar ekkert svo slæmt, maí er nú bara rétt að byrja) getur verið ágætt að hugsa um hvað við erum miklu heppnari en forfeður okkar og formæður, við erum ekki algjörlega háð veðurfari hvað lífsbjörgina áhrærir og kalt vor er bara leiðinlegt og óþægilegt; fyrir einni öld gat það þýtt hungur og ekkert svo löngu fyrir þann tíma horfelli.

Í öðrum löndum batnaði ástandið oftast þegar voraði, gróður hafði tekið vel við sér og ýmiss konar vorgrænmeti bættist á matarborðið. Því var ekki að heilsa hér því grænmetistegundir voru fáar og engar þeirra orðnar ætilegar fyrr en kom langt fram á sumar. Og ekki var ávöxtunum fyrir að fara. Rabarbarinn, sem hérlendis taldist til ávaxta, er reyndar vorboði og tekur snemma við sér en ræktun hans hófst ekki hérlends fyrr en í lok 19. aldar. Ég kem örugglega með einhverjar rabarbarauppskriftir fljótlega …

Nú er öldin önnur, alls konar grænmeti og ávextir fást allt árið og töluvert af því er meira að segja íslenskt. Og einn vorboðinn er íslensk jarðarber. Jú, þau eru dálítið dýrari en þessi innfluttu en þau eru líka yfirleitt betri. Og maður getur vel látið eftir sér að kaupa þau af og til. Því að jarðarber eru góð … Sumir rækta þau líka sjálfir. Ekki ég reyndar, ég er með svarta fingur og rækta ekkert nema nokkrar kryddjurtir og þetta eina ódrepandi pottablóm sem er í eldhúsglugganum mínum og er vökvað þegar ég man eftir því, sem er mjög sjaldan.

En ég kaupi oft ber, bæði jarðarber og önnur. Íslensk eða innflutt. Og stundum nota ég þau út á morgungrautinn minn (hmm, þetta hljómar eins og ég borði graut á hverjum morgni en eins og ég hef áður sagt, þá borða ég bara morgunmat ef ég er svöng þegar ég vakna og það er reyndar ekkert alltaf grautur). En allavega: þessa uppskrift gerði ég fyrir Sölufélag garðyrkjumanna og hún birtist í vorblaðinu þeirra á dögunum, ásamt fleiri uppskriftum (ber, paprika og grænkál). Uppskriftin er miðuð við tvo.

_MG_3849

Ég var með slatta af ljómandi fallegum berjum til að nota í ýmis verkefni en tók nokkur þeirra frá út í grautinn minn. Af því að það var nú frídagur (þetta var um páskana).

_MG_3640

Ég setti 150 ml af hafragrjónum og 50 ml af kókosmjöli (eða 1 1/2 dl og 1/2 dl) í pott og hrærði svo 400 ml af vatni saman við. Hitaði þetta að suðu, lét malla í 1-2 mínútur og bætti við aðeins meira vatni af því að mér fannst grauturinn of þykkur.

_MG_3642

Ég saltaði svo grautinn og hrærði svolitlu möndlusmjöri saman við, 1-2 teskeiðum, en það má alveg sleppa því. Ég var með heimatilbúið möndlusmjör en það er líka smekksatriði.

_MG_3720

Svo setti ég nokkur ber út í grautinn og  stráði svo nokkrum grófmuldum hnetum og ögn af   kókosmjöli yfir.

_MG_3729

Svo bar ég fram mjólk með. Og það er enginn sykur í grautnum en fyrir þá sem vilja er gott að hafa dálítið þunnt hunang. Mér duga alveg berin samt.

*

 

Sumarlegur morgungrautur

 

150 ml hafragrjón

50 ml kókosmjöl

400 ml vatn, eða eftir þörfum

salt

1-2 tsk möndlusmjör (má sleppa)

blönduð  ber eftir smekk

nokkrar valhnetur eða pekanhnetur, grófmuldar

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s