Er ekki bara kominn tími á köku? Þessi er ekki sykurlaus svo að ég smakkaði hana ekki sjálf en smakkararnir mínir segja mér að hún sé bara býsna góð og ég trúi þeim. Kakan sjálf er reyndar ekki sérlega sæt en karamellukremið er það …
Gulrætur eru hreint ekki eina grænmetið sem hentar í bakstur. Þessi sætkartöflukaka (sem er úr vetrargrænmetisþættinum sem ég gerði fyrir MAN) er bragðmikil, þétt í sér án þess að vera þurr og þótti semsagt nokkuð góð, kannski ekki síst út af karamellukreminu og hnetunum.
Ég byrjaði á að hita ofninn í 175°C. Svo tók ég eina stóra, sæta kartöflu, sem var um 600 grömm, flysjaði hana, skar hana í bita, velti þeim upp úr 1 msk af olíu og bakaði i hana í eldföstu móti (eða á bökunarplötu( í um 25 mínútur, eða þar til bitarnir voru orðnir meyrir. Lét þá hálfkólna.
Ég maukaði svo sætu kartöfluna í matvinnsluvél ásamt 200 g af linu smjöri, 2 eggjum og 1 tsk af vanilluessens.
Síðan blandaði ég saman 350 g af heillhveiti, 3 tsk af lyftidufti, 1/2 tsk af matarsóda, 1/2 tsk af salti, 2 tsk af kanel, 1 tsk af engiferdufti, 1/4 tsk af negul og 125 g af púðursykri og hrærði saman við sætkartöflumaukið …
… ásamt 100 ml af hreinni jógúrt (má líka vera súrmjólk).
Ég setti svo deigið í stór pappírsklætt, ferkantað form (eða eldfast mót) og bakaði neðst í ofni í 45-50 mínútur, eða þar til prjónn sem stungið var í kökuna kom hreinn út. Hvolfdi svo kökunni á grind (ég hafði bökunarpappírsörk undir) og lét hana kólna.
Þá var það karamellukremið: ég setti 60 g af smjöri, 125 g af púðursykri og 100 ml af rjóma í pott …
… hitaði að suðu og lét malla í 5 mínútur. Þá tók ég pottinn af hitanum, hrærði 1 tsk af vanilluessens saman við og lét svo kólna í nokkrar mínútur.
Svo hellti ég karamellukreminu yfir kökuna …
… sem var enn á grindinni og pappírinn undir þannig að umframkrem rann niður á pappírinn og ég gat skafið það af honum og sett aftur á kökuna.
Ég lét kremið kólna aðeins og raðaði svo pekannetum ofan á. Það má líka strá þeim yfir ef maður nennir ekki að raða.
Hún er nú nokkuð girnileg að sjá. En ég er staðföst í sykurleysinu …
*
Sætkartöflukaka með karamellukremi og pekanhnetum
600 g sætar kartöflur
1 msk olía
200 g smjör, lint
2 egg
1 tsk vanilluesens
350 g heilhveiti
3 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
2 tsk kanell
1 tsk engiferduft
1/4 tsk negull
125 g púðursykur
100 ml hrein jógúrt eða súrmjólk
*
Karamellukrem
60 g smjör
125 g púðursykur
100 ml rjómi
1 tsk vanilluessens
*
100-150 g pekanhnetur