Ófögur en alveg ágæt

Ég er búin að vera að drukkna í verkefnum undanfarna tvo mánuði og hef ekki gefið mér mikinn tíma í blogg og þess háttar – verkefnin reyndar nánast öll fólgin í uppskriftum en þar sem ég hef verið að birta þær eða á eftir að birta þær annars staðar fyrst er ekki komið að því að setja þær hér svo að þær bíða betri tíma. Ég á reyndar hálfan annan helling af áður birtum og óbirtum uppskriftum á lager en það vill svo til að í miðri vinnutörninni hrundi tölvan mín og var úrskurðuð látin.

Ég keypti náttúrlega nýja og drengirnir í Maclandi björguðu öllum mínum gögnum (jú, ég átti afrit af flestu en ekki öllu en nú hef ég lært af reynslunni og afrita allt jafnóðum) en vegna anna hef ég ekki getað komið skikki á matarmyndasafnið. Ég er að dunda við það núna en það tekur tíma að fara í gegnum tíu þúsund myndir (ég er reyndar að grisja þær hressilega í leiðinni). Ekkert mál að finna myndir af tilbúnum réttum en aðeins meira vesen að finna út úr öllum myndunum sem ég tek við eldamennskuna.

En jæja, eitthvað er ég nú komin áleiðis og hér er uppskrift sem ég var með í marsblaði MAN, þar sem þemað var vetrargrænmeti. Aðallega rótargrænmeti samt. Þetta er seljurótargratín sem var bara ansi gott. Eða það fannst okkur mæðginunum allavega.

Seljurótin eða sellerírótin er heldur ófrýnileg að sjá en undir hrjúfu yfirborðinu er gómsætt og hollt grænmeti sem er tilvalið að baka, t.d. í gratíni eins og hér. Gratínið má borða eitt sér með salati eða hafa sem meðlæti, t.d. með steiktu kjöti eða fiski.

_MG_8973 (1)

Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C. Svo tók ég seljurótina – sem var eitthvað um eitt kíló – flysjaði hana og snyrti.

_MG_8974

Síðan skar ég seljurótina í 1-1 1/2 cm þykkar sneiðar …

_MG_8975

… og hverja sneið aftur í 1-1 1/2 cm breiða stauta. Þar sem ég var að fara að elda þetta strax gerði ég ekkert meira en ef ég hefði þurft að láta sellerírótina bíða eitthvað, flysjaða eða niðurskorna, hefði ég sett kalt vatn í skál, kreist sítrónusafa út í og látið sellerírótina þar ofan í, annars dökknar hún fljótt.

_MG_8977

En ég semsagt saxaði einn lauk og smurði svo meðalstórt eldfast form með smjöri. Dreifðu helmingnum af lauknum á botninn og setti seljurótarstautana ofan á. Dreifði svo afganginum af lauknum yfir.

_MG_8980

Ég hrærði svo saman í skál 250 ml af rjóma, blöðum af nokkrum timjangreinum (má vera þurrkað timjan), kúfaðri teskeið af dijonsinnepi, pipar og salti.

_MG_8982

Svo reif ég 100 g af bragðmiklum osti (ég notaði Tind) og 30 g af parmesanosti og blandaðu þeim saman við. Hellti öllu saman yfir seljurótarstautana.

_MG_8983

Ég lagði bút af bökunarpappír yfir formið og setti það svo í ofninn og bakaði í um 20 mínútur. Þá fjarlægði ég pappírinn, hækkaði hitann í 220°C og bakaði áfram í 10-15 mínútur …

_MG_9113

… eða þar til seljurótin var meyr í gegn og gratínið er fallega gullinbrúnt.

_MG_9158

Mér finnst þetta fínt bara eintómt með salati. En líka fínt t.d. með kjúklingi eða steik.

*

Seljurótargratín

1 seljurót, 800 g-1 kg

1 lítill laukur

smjör til að smyrja formið

250 ml rjómi

blöð af nokkrum timjangreinum (um 1 tsk) eða ½ tsk þurrkað timjan

1 kúfuð teskeið dijonsinnep

pipar

salt

100 g bragðmikill ostur (ég notaði Tind)

30 g parmesanostur

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s