Svolítið grænt af því að það glitti í vorið

Athugið að í ljósi þess sem ég las í blaði í morgun um vörusvik ákveðinnar garðyrkjustöðvar gerði ég smábreytingar á textanum; þær eru auðkenndar með skáletri.

Uppskrift dagsins tengist ekki mótmælum á nokkurn hátt, þaðan af síður forsætisráðherra eða Framsóknarflokknum. Nema hvað það er grænt í henni svosem. Það minnir mig samt meira á vorið, sem gaf smásýnishorn af sér í dag. Ég var reyndar að hugsa um það hvort það að ég hef alltaf haldið langmest upp á græna litinn tengdist eitthvað Framsóknargenunum sem ég erfði úr föðurættinni. En ég held reyndar ekki og  það er eitthvað svo lítið grænt við Framsókn nú til dags. Rétt eins og spínatið sem ég hélt að ég væri að nota en reyndist alls ekki vera spínat.

Þetta er ein af febrúar-(fiskbrúar)-uppskriftunum mínum og ekki sú sísta. Ég held töluvert upp á reykta ýsu nú til dags þótt ég sé almennt ekki mikið fyrir ýsu. Og þessi dugði í tvo ólíka rétti, það er að segja ég notaði afganginn í annan rétt daginn eftir. Ég hef nefnilega alltaf verið mikið fyrir nýtni, sem núna er komin í tísku, og elda oft meira en ég þarf bara til að eiga afganga. Til að nota en ekki henda. En ég byrjaði á þessu.

_MG_9938

Ég byrjaði á að taka ýsuflakið – það var svona 350-400 g, sem er passlegt fyrir tvo eða fyrir mig í tvo rétti (meira um það seinna) – og roðfletta það og skera í stykki.

_MG_9939

Ég setti svo 400 ml af mjólk í pott, ásamt nokkrum piparkornum (eða bara möluðum pipar) og einu lárviðarlaufi (má sleppa ef maður á það ekki til), setti ýsuna út í og hitaði að suðu. Lækkaði hitann og lét malla við mjög vægan hita í svona 3 mínútur, eða þar til ýsan var rétt soðin í gegn, en tók hana svo upp úr með gataspaða, setti hana á disk og hélt heitri. Ég veiddi líka lárviðarlaufið og piparkornin upp úr og henti þeim (ókei, sennilega er nú einfaldara að krydda bara sósuna með möluðum pipar) en setti í staðinn 1-2 tsk af kapers út í og lét malla rólega áfram.

_MG_9940

Á meðan ýsan var í pottinum tók ég einn vænan blaðlauk og hreinsaði hann, skar hvíta hlutann frá og notaði hann ekki (hann má geyma og nota í annað) en skar grænu og ljósgrænu blöðin í þunnar sneiðar. Hitaði 2 msk af olíu á pönnu og lét blaðlaukinn krauma í nokkrar mínútur, þar til hann var farinn að mýkjast.

_MG_9942

Ég bætti svo 100 g af spínatkáli (sem var kallað spínat á umbúðum þá og ég hélt satt að segja að væri bara  afbrigði af spínati, ekki er maður nú klárari en þetta) og 10-12 steinlausum ólífum, skornum í tvennt, á pönnuna, lét krauma í 2-3 mínútur og hrærði oft á meðan.

_MG_9943.JPG

Ég jafnaði síðan kaperssósuna með sósujafnara (hún á ekki að vera sérlega þykk), smakkaði og bragðbætti með pipar og e.t.v. salti eftir þörfum, en það þarf að hafa í huga að kapersinn er saltur svo að ekki er víst að þurfi neitt meira salt.

Ég setti svo blönduna á disk, setti fiskstykki ofan á og bar kaperssósuna fram með. Steinseljublaðið þarna er bara upp á punt.

_MG_9989

Reykt ýsa með spínatkáli og kaperssósu

350 -400 g reykt ýsa

400 ml mjólk

piparkorn (eða malaður pipar)

1 lárviðarlauf (má sleppa)

2 msk olía

grænu blöðin af 1 vænum blaðlauk

100 g spínat (eða, í þessu tilviki, spínatkál)

10-12 ólífur

1-2 tsk kapers

sósujafnari

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s