Indverskt og rjúkandi heitt

Ég hef ekkert skrifað hér alveg óvenjulengi – reyndar ekki vegna þess að ég hafi ekki verið að elda neitt gott, öðru nær, ég er satt að segja búin að vera að drukkna í alls konar verkefnum sem öll eru auðvitað matartengd og allur frítími minn hefur farið í það svo ég hef ekkert mátt vera að því að sinna blogginu. Ég held til dæmis að ég hafi eldað  og myndað á milli tuttugu og fimm og þrjátíu rétti yfir páskahelgina (fyrir utan það sem ég eldaði þá daga sem fjölskyldan kom í mat). Sumt af því var vegna verkefnis sem ég var að vinna fyrir Sölufélag garðyrkjumanna og þið eigið væntanlega eftir að sjá fljótlega, annað var fyrir sjálfa mig; eitthvað af því gæti mögulega ratað í bók seinna, annað mun sjálfsagt birtast hér. Hver veit.

Ég átti semsagt alveg afskaplega góða páska því ef það er eitthvað sem mér finnst jafnskemmtilegt og að elda mat (og borða mat) er það að grúska, leita að hugmyndum, smakka í huganum hvernig þetta og hitt muni nú fara saman, gera tilraunir – og svo aftur að taka myndir af fullbúnum réttinum, skoða hann frá ýmsum sjónarhornum og reyna að finna bestu uppstillinguna og sjónarhornið. Stundum finnst mér að mér hafi tekist þokkalega til, stundum ekki …

Uppskriftin hér á eftir er þó ekki úr páskahrotunni. Þetta er að hluta uppskrift sem birtist í febrúarblaði MAN, þegar ég var með indverskt þema, að hluta viðbót við hana. Ég gerði semsagt uppskrift að indversku naanbrauði og svo að grænmeti til að hafa með því svo þetta yrði heill réttur en það var ekki pláss fyrir hana alla svo það varð úr að birta bara brauðuppskriftina en sleppa grænmetinu. En hér er þetta.

Naanbrauð eða annað indverskt brauð er ómissandi með indverskum mat. Oftast er brauðið bakað við háan hita í tandooriofninum en hér er það bakað á lokaðri steypujárnspönnu sem hituð er mjög vel. Einnig má baka það undir grillinu í ofninum.

_MG_7473.JPG

Ég byrjaði semsagt á því að setja 100 ml af ylvolgu vatni í skál, strá 1 tsk af þurrgeri yfir og láta  standa í nokkrar mínútur, þar til gerið var uppleyst og farið að freyða. Á meðan hitaði ég 200 ml af nýmjólk í potti og tók hann svo af hitanum og hrærði svo 250 ml af hreinni jógúrt (má vera grísk jógúrt) saman við; blandan á að vera ylvolg.

_MG_7476

Svo blandaði ég saman 300 g af heilhveiti, 300 g af hvítu hveiti (það má nota bara annaðhvort), 1 1/2 tsk af lyftidufti, 3/4 tsk af matarsóda og 1 tsk af salti og hrærði þessu saman við gerblönduna, ásamt  lyftiefnum og salti og hrærðu saman við gerblönduna, ásamt jógúrblöndunni.

_MG_7482

Það má svo bæta við hveiti eða vökva eftir þörfum; deigið á að vera fremur lint en þó ekki að klessast við hendurnar að ráði. Ég hnoðaði það svolítið og lét það lyfta sér í 1–1 1/2 klst.

_MG_7494

Ég skipti svo deiginu í jafna hluta, átta til tíu minnir mig …

_MG_7495

… og flatti þá út í þunnar kökur.

_MG_7498

Ég bræddi slatta af smjöri og penslaði aðra hliðina á brauðunum vel með því.

_MG_7506

Ég tók svo þykkbotna pönnu með loki og hitaði hana mjög vel. Setti eitt brauðið á hana með smjörhliðina niður, penslaði hina hliðina með meira smjöri, setti loki yfir og bakaði brauðið á hæsta hita í um 1 mínútu. Þá leit það svona út.

_MG_7504

Þá sneri ég brauðinu, setti lokið aftur á (já, pannan er HEIT) og bakaði það í 1 mínútu á hinni hliðinni.

_MG_7532

Þá tók ég það af pönnunni, breiddi viskastykki yfir og bakaði hin brauðin.

Og svo var það grænmetið – kartöflur og gulrætur nánar til tekið.

_MG_7484

Ég hitaði ofninn í 210°C. Skar svo 2-3 bökunarkartöflur í fremur þunna ´bata og 4 meðalstórar gulrætur í stauta. Ég blandaði svo saman 3 msk af olíu, 1 smátt söxuðu chilialdini, 2 söxuðum hvítlauksgeirum, 1 tsk af kummini, 1 tsk af kóríanderdufti og dálitlum pipar og salti í skál og veltu kartöflum og gulrótum upp úr blöndunni.

_MG_7496

Ég setti bökunarpappír á plötu, raðaði grænmetinu á hana og bakaði það í miðjum ofni í um 20 mínútur. Þá tók ég plötuna út, sneri grænmetinu og bakaði það svo í 15–20 mínútur í viðbót, eða þar til það var meyrt og hafði tekið góðan lit.

 

 

_MG_7507

Ég tók svo tvo rauðlauka, skar þá í tvennt og síðan í þunnar sneiðar og saxaði líka tvo tómata. Hitaði 1 msk af olíu á pönnu og lét rauðlaukinn krauma í nokkrar mínútur. Þá setti ég tómatana á pönnuna, kreisti safa úr hálfri límónu  yfir og láttu krauma í 2–3 mínútur í viðbót.

_MG_7580

Ég bar svo brauðið fram með öllu grænmetinu, ásamt hreinni jógúrt og límónubátum.

_MG_7603

Naanbrauð með grænmeti

8–10 brauð

 

100 ml ylvolgt vatn

1 tsk þurrger

300 g heilhveiti

300 g hvítt hveiti

1 1/2 tsk lyftiduft

3/4 tsk matarsódi

1 tsk salt

200 ml mjólk, ylvolg

250 ml hrein jógúrt (eða grísk jógúrt)

bráðið smjör eftir þörfum

*

Kryddaðir kartöflubátar og gulrætur

2–3 bökunarkartöflur

4 gulrætur, meðalstórar

3 msk olía

1 chilialdin, saxað smátt

2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt

1 tsk kummin

1 tsk kóríander

pipar

salt

*

Ofan á

2 rauðlaukar

2 tómatar

1 msk olía

safi úr 1/2 límónu

hrein jógúrt

límónubátar

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s